Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:33:41 (4691)

1999-03-10 12:33:41# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:33]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þessum sjónarmiðum vissulega. Ég tel einmitt að hin stórfellda breyting á almenningsáliti sem hefur orðið og í raun upplýstri þekkingu, upplýsingum og þekkingu hjá fólkinu í landinu á þeirri auðlegð sem við eigum í hálendinu, gefur meðbyr í þessum málum, meðbyr sem stjórnvöld ættu að nýta.

Hv. þm. vék áður í máli sínu að því m.a. að mikið óöryggi fælist í því að menn væru að veita heimildir til nýtingar á auðlindum á hálendinu m.a. til orkuöflunar. Ég tek eindregið undir það. Ég hef öðru hvoru verið að minna á það í umræðu liðinna ára að það er hörmulegt til þess að vita að við skulum ekki hafa komist af stað með að fara yfir þessi mál heildstætt og forgangsraða eins og Alþingi ályktaði þó um samhljóða 1989. Ef sú vinna hefði komist í gang og nauðsynlegt fjármagn verið veitt, sem var ekkert stórfé, þá hefðum við staðið í allt öðrum sporum en nú þegar hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. eru að kynna þjóðinni það að nú eigi að fara að vinna út frá þeirri aðferðafræði sem Norðmenn tóku upp seint og um síðir varðandi verndun vatnsfalla sinna og flokkun í forgangsröð.

En látum okkur vænta þess að það vísi fram á við, þó að margt megi kannski að aðferðafræðinni þar finna. En það er hárrétt hjá hv. þm. að þarna er mikið verk óunnið sem tengist nánari útfærslu á verndun og hugsanlegri nýtingu.