Alþjóðleg viðskiptafélög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 14:31:00 (4700)

1999-03-10 14:31:00# 123. lþ. 83.22 fundur 414. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# frv. 31/1999, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til þess að rifja upp í örfáum orðum um hvað þetta mál snýst. Það er ekki alveg óhugsandi að farið sé að slá ryki yfir það hjá einstöku manni hvaða mál er hér á ferðinni. Satt best að segja held ég að málaflutningur hæstv. ríkisstjórnar hafi fengið allt of litla athygli því að hér er í raun og veru á ferðinni nokkuð stórt mál að mínu mati, þ.e. spurningin um það hvort við Íslendingar eigum að fara inn á þá braut núna rétt fyrir aldahvörfin að fara að bjóða erlendum alþjóðlegum viðskiptafélögum sérstök vildarkjör, reyna að lokka til okkar slíkan atvinnurekstur á grundvelli þess að bjóða þeim til muna hagstæðari skattskilyrði og önnur starfsskilyrði en innlendu atvinnulífi eða atvinnulífi almennt og blanda okkur þar með í hóp þeirra ríkja, ekki síst frá Karíbahafinu og víðar, sem hafa einkum verið að gera út á þess háttar starfsemi. Metnaðurinn sem hæstv. ríkisstjórn vill alveg sérstaklega sýna í þessum efnum er að koma Íslandi í hóp ríkja eins og Karíbahafslýðveldanna og einstöku eyja í Miðjarðarhafinu eða á Ermarsundinu.

Herra forseti. Þetta er þeim mun merkilegra sem veruleg hreyfing er nú komin á það á alþjóðavettvangi að útrýma slíkum undirboðum og koma í veg fyrir að lágskattaparadísir af slíku tagi séu við lýði. Lengi vel höfðu menn ekki miklar áhyggjur af því þó að ríki væru að reyna að lokka til sín atvinnulíf á þennan hátt einfaldlega vegna þess að ýmsir aðrir þættir komu í veg fyrir að um umtalsvert tjón yrði að ræða í formi tekjutaps af sköttum og tekjum af slíku atvinnulífi og stærri og virðingarverðari fyrirtæki lögðu almennt ekki út í að skrá starfsemi sína í miklum mæli með þessum hætti og koma þannig rekstrinum undan eðlilegum skattgreiðslum. Hinu er ekki að leyna að á síðustu tveimur áratugum, eða svo, hefur þessi starfsemi vaxið verulega. Það er orðið verulegt áhyggjuefni víða um lönd að viss starfsemi, og þá ekki síst ýmiss konar alþjóðleg fjármálaumsýsla, sæki í að skrá heimilisfang sitt við slíkar aðstæður. Því er það að á alþjóðavettvangi, bæði á vettvangi Evrópusambandsins, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og víðar, hafa menn nú skorið upp herör gegn nákvæmlega þessu sem Ísland hins vegar ætlar núna að taka upp, þ.e. sérstökum vildarkjörum handa slíkum alþjóðlegum viðskiptafélögum.

Herra forseti. Það er kannski ástæða til þess að fara yfir það með hv. þingmönnum hvað hér á að bjóða. Hafa menn farið yfir það hvaða kjör þessi sérstöku gælufyrirtæki ríkisstjórnarinnar, alþjóðleg viðskiptafélög, eiga að fá? Þau eiga að borga heil 5% í tekjuskatt eða 1/6 af því sem íslenskum fyrirtækjum er gert að greiða. Þau eiga að vera undanþegin stimpilgjöldum og þau eiga að vera undanþegin nánast öllum öðrum gjöldum sem atvinnulífið greiðir hér á landi. Þau eiga að vera undanþegin t.d. eignarskatti og sérstökum eignarskatti, stimpilgjöldum o.s.frv. Og ekki nóg með það, ríkið ætlar meira að segja af örlæti sínu að leggja 20--30 millj. í að lokka þessi fyrirtæki til sín. Ég sting upp á því, herra forseti, að fyrsta sendinefndin verði send til Nígeríu til að reyna að gera út á fyrirtæki þaðan.

Auðvitað er hægt að reyna að klæða þetta í jákvæðan búning og segja að þetta verði fyrirtæki á vegum íslenskra aðila sem eru með umsvif í fjarlægum löndum og komi hingað heim og þetta verði allt af hin góða, þetta verði viðbót og allt það. En staðreyndin er sú að það er algjörlega skrifað í skýin og það getur enginn tryggt að þróunin verði ekki í gagnstæða átt, að umsvif og skatttekjur sem ella hefðu skilað sér til Íslands, hverfi úr landi í gegnum þessi alþjóðlegu viðskiptafélög.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér, af því að ég tók ekki tíma í það við 2. umr., að vitna aðeins í umsagnir og fylgiskjöl með þessu máli af því að mér finnst það einhvern veginn algerlega hafa farið fram hjá mönnum að ræða um þetta efnislega. Hér er t.d. ágæt grein sem um þetta birtist í tímaritinu Vísbendingu frá 12. febrúar sl. og ég hef nú lesturinn, herra forseti, með góðfúslegu leyfi:

,,Ýmis smáríki, sérstaklega í Karíbahafinu, hafa boðið slíkt fjármagn velkomið og hagnast á ýmiss konar rekstri og gjöldum af þjónustu sem tengist fjárvörslu. Lengi vel var þetta tiltölulega smár þyrnir í augum hinna stærri ríkja vegna þess að það var tiltölulega erfitt að nýta sér það skattaskjól sem hugsanlegt var að skýlast í með þessum hætti. Það hefur breyst og nú hefur Efnahags- og þróunarstofnunin (OECD) verið sett í málið og hefur unnið að áætlun um það hvernig hægt er að draga úr þeim skaða sem af slíkri starfsemi leiðir.``

Síðan er í þessari grein í Vísbendingu fjallað um vildarkjörin almennt, um vildarskattana og talað er um hvað þarna geti verið á ferðinni, t.d. þessir utanstrandarsjóðir. Svo segir, með leyfi forseta:

,,Ekki er sóst eftir beinni erlendri fjárfestingu en þetta veldur því hins vegar að skattstofn annars ríkis lækkar.``

Að sjálfsögðu. Út á það er gert að bjóða vildarkjör sem verði þess valdandi að tiltekin starfsemi verði frekar skráð hér en annars staðar og komist þannig í skattaskjól.

Afstaða OECD er síðan sú að þótt menn séu þar á bæ --- enda er varla við öðru að búast --- ekki andvígir í lágum sköttum í sjálfu sér, þá telja þeir sem þar fara með mál nauðsynlegt að mæla með því að löndin sammælist um ,,góðar venjur`` í skattlagningu. Einnig hafa löndin gengist undir það að útrýma óeðlilegum skattaívilnunum í sínu heimalandi fyrir lok árs 2005. Það væri fróðlegt að heyra hæstv. fjmrh. tjá sig um þetta mál. Er hæstv. fjmrh. sérstaklega upprifinn af þessu fyrirtæki eða hvað segir hæstv. fjmrh. um umsagnir frá sínum embættismönnum sem eiga að annast framkvæmd þessara mála og eiga að sjá um skattheimtu og skattframkvæmd í landinu m.a. í kölfarið á lagasetningu af þessu tagi?

Í greininni í Vísbendingu er komið inn á það sem ég nefndi við 2. umr. að að sjálfsögðu væri ástæða til að fara yfir það hvort ekki þurfi að gera hér breytingar í skattamálum ef menn ætla að fara út á þessa braut yfirleitt. Og það er einmitt það sem OECD mælir með. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Meðal þess sem OECD mælir með er að gerðar verði sérstakar ráðstafanir, svo sem að skattleggja sérstaklega móðurfyrirtæki sem hafa skráð dótturfyrirtæki í skattaparadísum. Einnig eru löndin hvött til að segja upp hvers konar tvíhliða samningum sem hafa verið gerðir við þau lönd sem ekki fara eftir þeim viðmiðunum sem OECD setur fram.

Aðildarríki OECD og aðrir þeir sem þarna koma að málum eru hvattir til þess að segja upp skattasamningum, þar á meðal tvísköttunarsamningum, við þau lönd sem ekki fara að tilmælum OECD, að loka slíkum skattaparadísum en ekki taka þær upp, ekki reyna að fara í algerlega öfuga átt við það sem þarna er verið að boða.``

Þó að þeir hjá OECD og þeir sem skrifa þessar greinar í Vísbendingu telji að samkeppnin sé yfirleitt til mikillar blessunar, þá eru menn þó það hreinskilnir að segja:

,,Þótt samkeppni sé yfirleitt talin til góðs þá á það sjaldnast við um samkeppni í skattamálum. Ef einhverjir komast upp með að greiða lægri skatta með því að flytja fé sitt úr landi flyst skattbyrðin einfaldlega yfir á hina sem það geta ekki og þar með er komið á ójafnvægi í kerfinu.``

Auðvitað, málið er ekki flóknara en þetta.

Herra forseti. Í umsögn Samtaka iðnaðarins er einnig varað við þessu sama. Þar segir m.a. að skattalegar ívilnanir, frísvæði og ríkisstyrkir séu í mörgum tilvikum til þess eins fallnar að ná til sín störfum og skatttekjum frá nágrannaríkjum og brengla skilaboð alþjóðlegra markaða. Það leynir sér ekki að tónninn í umsögn Samtaka iðnaðarins er neikvæður í garð þessa fyrirtækis. Þar vilja menn almennar aðgerðir sem komi öllum til góða. Ég er út af fyrir sig ekki að skrifa upp á það eða gera það að minni stefnu að öllu leyti því að mér finnst þeir hjá Samtökum iðnaðarins vera ansi hallir undir það að fyrirtækin eigi helst ekki að borga neitt til samneyslunnar. Þó er ekkert skammarefni að vera þeim sammála um vissa hluti og ég deili algerlega þeim sjónarmiðum sem þarna eru sett fram um að það að fara út í undirboð og samkeppni með skattalegum niðurgreiðslum eða vildarkjörum af þessu tagi er ekki að fara út á gæfulega braut að mínu mati. Það er ekki rétt braut. Hér á að miða við almennar reglur sem standa öllum til boða jafnt.

Í umsögn ríkisskattstjóra þar sem að sumu leyti eru kannski alvarlegustu athugasemdirnar sem fyrir liggja á pappírum um þessi mál, segir m.a. í framhaldi af því að farið er yfir það að Ísland hafi verið að gera tvísköttunarsamninga við mörg ríki á undanförnum árum, með leyfi forseta:

,,Algengt er að í samningum annarra ríkja séu þær ívilnanir, sem samningarnir veita gagnvart skattlagningu á arði og fleiri greiðslum, takmarkaðar eða skilyrtar með því að viðkomandi félag hafi sætt eðlilegri skattlagningu í því landi þar sem það starfar. Vaxandi áhersla er lögð á þetta á síðari árum af ýmsum ríkjum, m.a. með hliðsjón af þeirri umræðu sem vísað er til hér á eftir. Af hálfu Íslands hefur ekki hingað til verið ástæða til að hafa áhyggjur af þessu atriði, þar sem vildarsköttum hefur ekki verið til að dreifa hér á landi. Með fyrirhugaðri lagasetningu kann að verða breyting hér á. Annars vegar kunna ríki, sem samningar hafa ekki enn verið gerðir við, að gera kröfu um að takmarka gildi tvísköttunarsamninga gagnvart fyrirtækjum sem njóta vildarskatta. Hins vegar kann svo að fara að ríki, sem þegar hefur verið samið við, neiti að láta ákvæði gerðra samninga ná til fyrirtækja sem njóta vildarskatta á þeirri forsendu að þeir hafi ekki verið til staðar þegar samningurinn var gerður og brjóti í bága við forsendur hans. OECD hefur m.a. stutt það sjónarmið að þetta sé heimilt.``

Það hefur stutt það sjónarmið að gagnvart gildandi tvísköttunarsamningum sé heimilt að undanskilja fyrirtæki eða jafnvel fella sjálfa samningana úr gildi þegar svona stendur á.

,,Í alþjóðlegu samstarfi um skattamál, m.a. hjá Evrópusambandinu og OECD, hefur á síðustu missirum verið fjallað um vildarskatta einstakra ríkja eða ríkjahluta og ívilnandi skattareglur innan einstakra ríkja. Stefna þessara samtaka er að afnema í aðildarríkjunum alla vildarskatta sem taldir eru óæskilegir og jafnframt að koma því til leiðar að ríki utan samtakanna geri það einnig.``

Enn fremur segir í umsögn ríkisskattstjóra, með leyfi forseta:

,,Jafnræðissjónarmið skipta miklu við skattlagningu og er þess krafist af vaxandi þunga að skattlagning sé hin sama hjá öllum aðilum sem eins er ástatt um. Fyrirhugaðar breytingar kunna að vera áhyggjuefni frá þessu sjónarmiði þar sem þær virðast geti falið í sér að skattaðilar, sem eins er ástatt um að flestu leyti, verði skattlagðir með mismunandi hætti, t.d. eftir því hvar þeir hafa keypt þá vöru sem þeir stunda viðskipti með.

Að lokum skal vakin athygli á því að mismunur í skattlagningu leiðir yfirleitt til tilhneigingar til að færa tekjur með ýmsum hætti til fyrirtækja sem njóta vildarkjara við skattlagningu. Getur það m.a. gerst með óeðlilegum viðskiptum milli tengdra aðila. Vegna vildarskatta eru fyrirtæki sem þeirra njóta jafnframt líklegri en önnur til að verða vettvangur tilrauna til peningaþvættis. Litlar hömlur eru í frumvarpinu settar á tengsl alþjóðlegra viðskiptafélaga við önnur félög og einstaklinga hér á landi og margvísleg tengsl möguleg, m.a. í gegnum félög sem skráð eru erlendis en tengsl við erlenda aðila eru engum takmörkunum háð. Þótt í íslenskum skattalögum séu almenn ákvæði um viðskipti milli tengdra aðila eru þau og aðrar skattareglur hér á landi fátæklegar í þessu efni og er skattkerfið ekki vel í stakk búið til að eiga við þær breyttu aðstæður sem samþykkt frumvarpanna mun skapa.``

[14:45]

Svo mörg voru þau orð. Hér lýkur lestri úr umsögn ríkisskattstjóra. Ég segi það alveg eins og er, herra forseti, að menn gera ekki mikið með þá sem eiga að hafa framkvæmd þessara mála með höndum, bera ábyrgð á að framfylgja skattalögum og annast skattaframkvæmd í landinu, ef engar efasemdir leita á nokkurn einasta mann hér inni. Hæstv. fjmrh. situr eins og klessa undir þessu og hefur ekki einu sinni tekið þátt í umræðum um þetta mál.

Er ekkert með þetta gerandi? Hverjir eru þarna að tala aðrir en embætti ríkisskattstjóra? Hvar hefur fagþekkingin í þessum efnum byggst upp? Hverjir hafa annast um gerð tvísköttunarsamninga fyrir hönd Íslands við önnur ríki á undanförnum árum aðrir en fyrrverandi og núverandi ríkisskattstjóri, sem voru sérstaklega í þeim verkefnum báðir, ef ég þekki rétt? Heilmikil vinna hefur á undanförnum árum verið lögð í að koma slíkum tvísköttunarsamningum á til að greiða fyrir viðskiptum íslenskra fyrirtækja og starfsemi bæði heima og erlendis. Ekki virðast leita á menn miklar efasemdir um að óhætt sé að stofna þessu í hættu, eftir svo miklu sé að slægjast með að lokka til sín þessi alþjóðlegu viðskiptafélög eða fyrirtæki með sérstökum vildarkjörum í skatti. Að láta þau fá nánast algjört skattfrelsi þýðir að það er í raun eftir tiltölulega litlu að slægjast. Tekjurnar af þessu verða að sama skapi litlar sem prósentan er lág og starfsemin að mestu leyti skattfrjáls. Hér er ekki við því að búast að um mjög mannaflsfreka starfsemi sé að ræða sem feli í sér mikil margföldunaráhrif. Það er ekki endilega svo.

Það er ólíklegt að fyrir þau ríki Karíbahafsins sem hafa reynt að gera út á svona hluti, hvort sem er með hagstæðum sköttum fyrir alþjóðleg fyrirtæki eða með því að leyfa alþjóðlegum skipamiðlurum og bröskurum að nota fána sína, hafi miklar tekjur skilað sér til baka. Tekjurnar af þeirri starfsemi hafa vart skilað sér til Karíbahafsins. Það er a.m.k. þannig með hentifánareksturinn frá Belís og fleiri slíkum löndum. Hann er skúffa í einu skrifborði í Hamborg. Þar situr feitur kall með stimpil og stimplar pappíra sem hann fær, tekur nokkur þúsund dollara fyrir og punktur. Ég er sannfærður um að aldrei fari eitt einasta sent af þeim dollurum niður til Belís. Þannig er gert út á þennan bisness sem ég held að sér ekki sérlega eftirbreytniverður.

Það eina sem gæti haft gildi í þessu sambandi, og ég veit að reynt hefur verið að nota það sem rök fyrir breytingunum, er að í einstökum tilvikum, þar sem íslensk fyrirtæki eru með viðskipti í fjarlægum heimsálfum og versla með vörur sem ekkert koma við hinu Evrópska efnahagssvæði og eiga sér ekki uppruna þar, geti þau stofnað alþjóðleg viðskiptafélög og skráð þau hér heima. En hvað er þá að gerast í þeim tilvikum?

Dótturfyrirtæki erlendis hafa fallið að venjulegum íslenskum skattalögum og nýlega voru gerðar breytingar á möguleikanum á að færa arð milli dótturfyrirtækja og móðurfélaga og þær reglur gerðar hagstæðari. Það var a.m.k. meiningin að ég hélt hér á sl. ári. Þess í stað munu menn fara út í að stofna alþjóðlegt viðskiptafélag til að koma arðinum í skattaskjól. Eru menn þá að vinna eitthvað sérstakt í þeim efnum? Hugsanlega koma heim um 5% af hagnaði slíkra fyrirtækja, sem ella hefði komið til skattlagningar í hinu erlenda ríki. Þá hljóta menn að átta sig á því að slíku er ekki tekið fagnandi almennt. Halda menn að allir séu kátir yfir því að missa frá sér atvinnustarfsemi í eitthvert slíkt skjól? Um það snýst málið og það er verið að reyna að koma í veg fyrir. Um leið og einn hagnast á svona löguðu þá tapar annar, er það ekki?

Ég held að það væri geðslegri framtíð að Ísland skipaði sér með þeim ríkjum sem taka þátt í að samræma leikreglurnar og koma í veg fyrir undirboð og vitleysisgang af þessu tagi. Svona fyrirkomulag þjónar engum tilgangi og hefur margar neikvæðar hliðar, herra forseti.

Þó ekki kæmi til annað en það mat ríkisskattstjóra, að íslensk skattalög og embættið sjálft séu illa undir það búin að mæta þessum breytingum, þá furðaði ég mig á því hvað mönnum gengur til með að knýja þetta hér í gegn. Af hverju fara menn þá ekki frekar út í að skoða breytingar í þá átt að taka upp samstæðuskattlagningu svipað og Danir hafa á móðurfyrirtækjum í heimalandinu og dótturfyrirtækjum erlendis? Þannig mætti a.m.k. ná utan um þann þátt málsins. Af hverju leggja menn ekki vinnu í að fara yfir stöðu tvísköttunarsamninganna og skattasamskipti við önnur ríki áður en að menn rjúka út í breytingar af þessu tagi?

Þetta mál, herra forseti, er illa ígrundað og illa undirbúið montmál hjá íhaldinu, sem hefur verið að taka þetta upp á fundum hjá sér. Þeir ætla örugglega að fagna því á landsfundinum núna um helgina, að verið sé að breyta Íslandi í lágskattaparadís fyrir alþjóðleg braskfélög í anda þess kúltúrs sem oftast er kenndur við Karíbahafið. Ég segi bara: Verði þeim að góðu. Ef metnaður manna er ekki rismeiri en þetta þá er ekki von á góðu.

Ef menn hefðu lagt fyrir í málinu einhver dæmi um æskilegar breytingar á íslenskri skattalöggjöf vegna íslenskra fyrirtækja með starfsemi erlendis, til að auka líkur á að arður skilaði sér hingað heim og yrði eðlilega skattlagður, þá væri sjálfsagt að líta á slíkt. Það nægir ekki að nefna aðeins eitt dæmi, jafnvel þó það sé að einhverju leyti tengt Siglufirði, sem rök fyrir breytingum af þessu tagi. Það bara dugar ekki. Menn verða að fjalla efnislegar um hlutina en ég hef hingað til heyrt í þessu máli.

Herra forseti. Það hefur sjálfsagt ekki upp á sig að lengja umræður um þessi mál. Ég vísa í þau fylgiskjöl sem fylgja með nál. og reyndar lét ég dreifa ítarefni, enskum textum um þessi efni. Vilji menn hafa frumheimildir undir höndum, t.d. um það sem verið er að vinna í þessum efnum á vettvangi OECD, þá er séð fyrir því. Menn geta kynnt sér þessi gögn. Þeim var dreift hér á borð þingmanna undir fyrirsögninni Ítarefni með fskj. III í þskj. 907, nál. um frv. til laga um alþjóðleg viðskiptafélög frá 1. minni hluta efh.- og viðskn.

Ég, herra forseti, hef enga sannfæringu fyrir því að þörf sé á eða yfir höfuð skynsamlegt að knýja á um þessa lagasetningu hér og nú. Hún er allt of illa undirbúin til þess. Auk þess sem ég hef grundvallarefasemdir um að Ísland eigi yfir höfuð að leggja út á þessa braut þvert gegn þróuninni á alþjóðavettvangi þar sem menn eru að reyna að komast í hina áttina. Það er auðvitað ekkert annað en argasta tímaskekkja, herra forseti, að menn skuli sitja svo rígfastir í gömlum hjólförum og fornum frösum sem þeir lærðu á uppeldis- og uppvaxtarárum sínum í stuttbuxnadeild Sjálfstfl. Það er dapurlegt að þeir ætli að dragnast með slíka forneskju með sér alla leið inn í nýja öld.