Kortlagning ósnortinna víðerna á Íslandi

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 15:05:08 (4703)

1999-03-10 15:05:08# 123. lþ. 83.44 fundur 327. mál: #A kortlagning ósnortinna víðerna á Íslandi# þál. 21/123, Frsm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. umhvn. um kortlagningu ósnortinna víðerna.

Þáltill. þessi er flutt í framhaldi af þáltill. um ósnortin víðerni og nefndarstarfi sem fylgdi í kjölfar samþykktar þeirrar þáltill. Hæstv. umhvrh. skipaði nefndina og komst hún að niðurstöðu um hvernig skilgreina skuli ósnortin víðerni.

Hér á landi er vaxandi skilningur á þeirri staðreynd að ósnortið land og villt náttúra er auðlind sem ber að varðveita. Það er því eðlilegt að nú sé gengið til verks við kortlagningu slíkra víðerna þannig að hægt sé að halda því starfi skipulega áfram sem unnið var í nefndinni um ósnortin víðerni.