Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 15:07:24 (4704)

1999-03-10 15:07:24# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, Frsm. meiri hluta ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta hv. umhvn. um breytingu á lögum um skipulags- og byggingarmál.

Frv. tekur á svæðisskipulagi miðhálendisins. Frv. þess efnis var lagt fram í þinginu á síðasta vori en hlaut ekki afgreiðslu. Lagasetning um svæðisskipulag miðhálendisins tengist einnig breytingu á sveitarstjórnarlögum þar sem sveitarfélög ná inn til miðju miðhálendisins. Það var mál manna að þá væri nauðsynlegt að taka skipulega og heildstætt á skipulagsmálum miðhálendisins þannig að öll sveitarfélög sem hlut eiga að máli komi þar til sögunnar ásamt öðrum sveitarfélögum sem ekki eiga land að miðhálendinu.

Frv. sem hér liggur fyrir fékk allmikla breytingu í nefndinni og afar mikla umræðu. Nefndin fékk fjölda umsagna og gesta til sín og lagði mikla vinnu, og ég vil segja vandaða vinnu í umfjöllun og endurskoðun á frv.

Brtt. snerta flest meginsvið frv. og ber þess fyrst að geta að þær gera ráð fyrir því að línan sem markar svæðisskipulag miðhálendisins sé sama lína og notuð var í því skipulagi sem unnið var fyrir miðhálendið 1985--1988. Um þá línu náðist víðtækt og gott samkomulag við landeigendur og sveitarstjórnir, enda naut sú nefnd sem vann að því svæðisskipulagi mikils trausts og velvildar heimamanna. Ég vil láta það koma sérstaklega fram við þessa umræðu að ég tel að sú nefnd hafi unnið tímamótastarf og skilað góðu verki. Við viljum nýta okkur þetta góða verk á þann hátt að sú lína sem mörkuð var í því svæðisskipulagi verði nýtt til frambúðar.

Þó er gert ráð fyrir því að hægt sé að breyta línunni. Þá skal frumkvæðið að slíku koma frá hlutaðeigandi sveitarfélögum og svæðisskipulagsnefnd miðhálendisins. Skal hvor aðili um sig í samráði við hinn gera tillögu til umhvrh. og hann úrskurða um línuna. Vænti ég þess að með þessu náist áframhaldandi sátt um það svæði og afmörkun þess sem frv. gerir ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Þá vil ég einnig geta um þær brtt. sem umhvn. gerði á skipan nefndarinnar sem fjalla á um svæðisskipulag miðhálendisins. Meginatriði í nefndarskipaninni er sú að fulltrúar allra landsmanna komi að verkinu, einnig fulltrúar frá þeim svæðum landsins sem ekki eiga land að miðhálendinu. Í frv. var gert ráð fyrir því að umhvrh. tilnefndi einn mann úr hverju kjördæmi landsins og haft yrði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga.

Eftir að hafa kannað málið mjög rækilega og verið í sambandi við fjölmarga sveitarstjórnarmenn um allt land varð niðurstaða nefndarinnar sú að breyta þessu á þann veg að færa tilnefningarvaldið heim í hérað, heim til þeirra sem næst liggja miðhálendinu. Nú er gert ráð fyrir því að einn maður komi úr hverju kjördæmi landsins og úr þeim fimm kjördæmum sem liggja að miðhálendinu séu tilnefndir menn þannig að þeir séu tilnefndir af sveitarfélögum sem land eiga að miðhálendinu. Þar að auki er einn fulltrúi valinn úr þessum kjördæmum. Hann skal tilnefndur af umhvrh. og koma úr sveitarfélögum sem ekki eiga land að miðhálendinu. Þetta er gert til að koma til móts við þau sveitarfélög sem ekki eiga land að miðhálendinu en eiga eigi að síður mikilla hagsmuna að gæta svo sem vegna upprekstrar, vegna veiði, vegna aðildar að virkjunarmálum og fleiri hagsmuni mætti telja.

Sú skipan sem ég hef lýst á við um fimm kjördæmi sem liggja að miðhálendinu. Þá eru valdir þrír menn úr þremur öðrum kjördæmum, þ.e. frá Vestfjörðum, Reykjanesi og Reykjavík. Þar skal Fjórðungssamband Vestfjarða tilnefna sinn mann frá Vestfjörðum, í Reykjavík eða Reykjavíkurkjördæmi skal Reykjavíkurborg tilnefna einn og af Reykjanesi skulu samtök sveitarfélaga tilnefna einn, en þar eru tvö samtök sveitarfélaga, annars vegar Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Skulu þau koma sér saman um einn fulltrúa. Þá eru taldir fulltrúar kjördæmanna.

[15:15]

Einnig er gerð tillaga um að félagasamtök um útivist tilnefni einn fulltrúa og síðan hefur umhvrh. heimild til þess að tilnefna, ef hann kýs svo, fjóra áheyrnarfulltrúa. Skulu þeir hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Það er álit nefndarinnar að þessir áheyrnarfulltrúar ættu að koma frá hagsmunaaðilum. og þá er átt við að einn komi frá þeim sem hafa beitarréttindi, þ.e. bændum og landeigendum, annar komi frá orkugeiranum, sá þriðji frá ferðaþjónustu og ferðamálum og sá fjórði frá Náttúruvernd.

Á það ber að líta, þegar hugsað er til þess að þeir aðilar eru áheyrnarfulltrúar en ekki með fyllstu réttindum á við aðra, að þeir málaflokkar sem ég hef nú talið, þ.e. orkan, ferðamálin, náttúruverndin og beitin, eiga aðgang að skipulagsmálum gegnum stjórnsýslustofnanir. Það eiga hins vegar útivistarmenn ekki en eiga þar eigi að síður mikilla hagsmuna að gæta og nýta hálendið á margvíslegan hátt.

Þá vil ég einnig koma að brtt. sem gerðar hafa verið á vinnuferli hvað svæðisskipulag varðar. Um það er sérstök grein, 3. gr., sem nær í raun og veru til 13. gr. í frv. og er þar ítarlega fjallað um skipulagsferlið, hvernig á skuli halda, hvernig hugmyndir og tillögur skuli koma til svæðisskipulagsnefndarinnar og hvernig hún skuli með fara og hvernig hún komi málum sínum til Skipulagsstofnunar ríkisins.

Ég vil sérstaklega geta þess að umhvn. leitaði mjög eftir því við sveitarstjórnarmenn um land allt hvort lögð væri áhersla á það að eitt einstakt sveitarfélag gæti haft neitunarvald í svæðisskipulaginu, þ.e. að þegar svæðisskipulagstillagan væri lögð fyrir gæti eitt sveitarfélag, skv. 13. gr. skipulags- og byggingarlaganna, neitað og stöðvað þar með skipulagsferlið. Skemmst er frá því að segja að það var má heita einróma álit sveitarstjórnarmanna og þeirra sem reynslu höfðu af starfinu í þeirri nefnd sem vann fyrirliggjandi svæðisskipulag að þetta væri óheppilegt. Í þeirri grein sem ég lýsti hins vegar um ferli í skipulagsvinnunni er tekið á því hvernig skuli með fara ef eitt sveitarfélag eða einhver sveitarfélög vilja ekki sætta sig við niðurstöðurnar.

Virðulegi forseti. Þetta eru megindrættir þeirra brtt. sem umhvn. gerir. Að langmestu leyti er verið að færa valdið heim í hérað og koma til móts við óskir sveitarstjórnarmanna án þess að skerða aðild þeirra sem koma nýir að málinu, þ.e. útivistarmanna og annarra slíkra skyldra hópa og sveitarfélaganna sem fjær liggja miðhálendinu.

Ég vænti þess að frv. fái hér farsæla afgreiðslu. Það er mikið kappsmál að ljúka því og fá þar með skikk og skipan á þessi mikilvægu og mikilsverðu mál.