Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 15:20:11 (4705)

1999-03-10 15:20:11# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst af þeirri tillögugerð sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefur haft frumkvæði að að meiri hlutinn og sér í lagi hinir ágætu umhverfisvænu þingmenn Framsfl., þar sem hv. þm. fer fremstur í flokki, eru lentir í vandræðum. Hvernig ætlar hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson að réttlæta það að jafnvel samkvæmt þessum tillögum sem hann leggur nú fyrir þá hafa náttúruverndarsamtökin engan fulltrúa? Þegar við ræddum þetta við 1. umr. kom það glöggt fram í ýmsum viðbrögðum hv. þm. við því sem þá var sagt að hann lagði ekki þá merkingu í orðin fulltrúi útivistarsamtaka að undir þau féllu fulltrúi náttúruverndarsamtaka.

Það blasir við að náttúruverndarsamtökin hafa mikinn áhuga á þessu máli. Þau hafa fjallað um þetta á margvíslegan hátt, staðið fyrir mörgum uppákomum og stórfundum og það á að útiloka þau frá þessu. Hvernig í ósköpunum getur hv. þm. varið það? Mér þætti vænt um að heyra hvort hann telur frá sjónarhóli sínum að æskilegt sé að þau fái einhvers konar þriðja flokks status í þessari nefnd með því að hæstv. umhvrh. hefur heimild til að skipa einhvern úr þeirra hópi, eða svo skildi ég málflutning hv. þm.

Hvernig í ósköpunum getur hann réttlætt það eftir að hann hefur verið boðberi og talsmaður jákvæðrar náttúruverndar, sem er fátítt úr röðum framsóknarmanna? Hvernig getur hann, ekki bara fallist á þetta, heldur haft frumkvæði að þessu? Hann kastar hagsmunum náttúruverndar fyrir róða með þessum hætti.