Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 15:24:13 (4707)

1999-03-10 15:24:13# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[15:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Um þessa ræðu er hægt að hafa eftirfarandi orð: Fyrst er það vont og svo versnar það. Fyrst er búið að taka hæstv. umhvrh. og vinda hann eins og svamp og taka af honum öll völd. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, sem var síðasta von okkar sem berum hag umhverfis og náttúru fyrir brjósti, kemur síðan hér upp, þessi ágæti þingmaður, sem hefur látið margt gott af sér leiða í þessum efnum, og festir sig í feni einhverra stjórnsýsluraka.

Staðreyndin er einfaldlega þessi: Hv. þm. kom hérna upp og sagði að æskilegt væri að náttúruverndarsamtökin kæmu með einhverju móti að þessu. Það hefði hins vegar ekki verið gert ráð fyrir því í hinu upphaflega frv., sem hann heimilaði að yrði lagt fram, og því miður væri ekki heldur gert ráð fyrir því núna en það væri að vísu heimild fyrir ráðherra að taka þá inn sem einhvers konar þriðja flokks fulltrúa.

Herra forseti. Þetta er auðvitað ekki boðlegt og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson á ekki að láta bjóða sér þetta. Hann er allt of góður og heiðarlegur þingmaður til þess að gera það. Hann á einfaldlega að taka svari náttúruverndarsamtakanna, taka svari náttúrunnar, eins og hann gerði í fyrra, og fara eftir samvisku sinni en láta ekki troða á sér með þessum hætti. Það er okkur öllum til minnkunar að horfa upp á það þegar menn koma með málflutning af þessu tagi vegna þess að ljóst er að þetta er ekki það sem hv. þm. vildi í upphafi gera. Hann hafði allt aðra skoðun og hvernig stendur þá á því að hann lætur ekki hjartað ráða? Það hefur gefist honum vel áður og það hefur gefist umhverfisverndarsinnum vel áður að hv. þm. hafi farið eftir því sem honum finnst réttast.

Hér kemur hv. þm. með rök sem standast ekki, með rök sem í rauninni fara gegn því sem hann hefur áður sagt að hann vilji. Og þar fyrir utan, herra forseti, hvernig ætlar hv. þm. að verja það fyrir kjósendum sínum að við hér á þéttbýlasta svæði landins höfum einn fulltrúa í þessari nefnd? Og hvernig ætlar hv. þm. að skýra fyrir þeim kjósendum sömu rök og hann var með hérna, að þeim sem byggju í sveitarfélögunum sem lægju að miðhálendinu finnist þung rök hníga að því að þeir eigi að sjá um þessi mál? Þetta er í andstöðu við hagsmuni okkar sem búum í þessu þéttbýla kjördæmi.