Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 15:29:48 (4709)

1999-03-10 15:29:48# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, Frsm. minni hluta MagnM
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Frsm. minni hluta umhvn. (Magnús Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rekja tildrög þess frv. til breytinga á skipulagslögum sem hér liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu. Svo mikinn tíma tók umræðan í vor um þá stefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar að færa fámennum sveitarfélögum við miðju landsins allan stjórnsýslurétt á hálendinu sem Íslendingar höfðu þangað til litið á sem sameign sína.

[15:30]

Sú tillaga sem hér liggur fyrir átti að vera viðleitni til að lægja þær öldur sem þá risu um stefnu hæstv. ríkisstjórnar. En það er álit okkar, herra forseti, fulltrúa Samfylkingarinnar í umhvn., að svo verði ekki. Í nál. minni hlutans segir, með leyfi forseta:

,,Samfylkingin leggur til að komið verði á samræmdu umhverfis- og auðlindaskipulagi á Íslandi sem nær til miðhálendisins. Umhverfis- og auðlindaskipulagið yrði á stjórnsýslustigi ríkis og unnið af stofnunum þess í samvinnu við einstök fagráðuneyti og væru sveitarfélög bundin af því. Í umhverfis- og auðlindaskipulagi yrði útfærð stefna stjórnvalda sem tæki til stærstu þátta í nýtingu lands og samþættingar áætlana um landnotkun og landnýtingu. Þar yrði fjallað um samgöngur, fjarskipti, orkumannvirki, náttúruvernd, varðveislu sögulegra minja og landnotkun í þágu atvinnuvega og byggðar í meginatriðum. Hlutverk slíks skipulags yrði m.a. endurskoðun og samhæfing landnýtingar- og landnotkunaráætlana.

Þegar sveitarfélögum sem liggja að miðhálendinu var falið að annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlunar fyrir miðhálendið vakti það hörð mótmæli af hálfu stjórnarandstöðunnar, fulltrúa orku- og ferðamála og fjölmargra samtaka um náttúruvernd og útivist. Mikilvægt er að tryggja samræmt skipulag miðhálendisins sem byggist á heildarsýn á alla hagnýtingu þess. Það eiga hin ólíku sveitarfélög erfitt með að tryggja. Því var lagt til að miðhálendið yrði gert að sérstöku stjórnsýslusvæði sem færi með skipulags- og byggingarmál. Þrátt fyrir veigamikil rök fyrir sérstöku stjórnsýsluumdæmi á miðhálendinu náði hugmyndin ekki fram að ganga og hefur sveitarfélögum nú verið falið skipulagsvaldið þar með stækkun þeirra inn að miðju landsins. Samfylkingin telur að fagleg vinnubrögð hafi skort við fyrirkomulag skipulagsmála hjá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin hefur ekki gætt almannahagsmuna.

Samvinnunefnd miðhálendisins, sem lagt er til að sett verði á laggirnar með frumvarpi til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, getur ekki tryggt að skipulag sveitarfélaganna endurspegli stefnumið stjórnvalda á viðkomandi sviðum eða að gætt verði samræmis við skipulagningu miðhálendisins. Umboð og starfssvið nefndarinnar takmarkast við skipulagstillögur fyrri samvinnunefndar. Í þeim mörgu umsögnum sem bárust um þær tillögur komu fram alvarlegar athugasemdir um að þar væri í veigamiklum atriðum ekki tekið tillit til þeirrar stefnumörkunar sem þegar hefði verið unnin. Að mati minni hlutans getur samvinnunefndin ekki tryggt samfellu og samræmi í skipulagi miðhálendisins, a.m.k. ekki í andstöðu við einstakar sveitarstjórnir sem fara með aðalskipulag í sínu sveitarfélagi.

Samfylkingin leggur til að Alþingi afgreiði umhverfis- og auðlindaskipulag á miðhálendinu með þingsályktun. Með því móti tekur Alþingi ábyrgð á heildarskipulagi miðhálendisins. Verði þessi stefnumörkun í skipulagsmálum miðhálendisins samþykkt telur minni hlutinn að næsta skref í þessum málum verði að þetta samræmda umhverfis- og auðlindaskipulag nái til alls landsins. Minni hlutinn telur hins vegar rétt að láta þessa stefnumótun ná til miðhálendisins fyrst enda er mestur ágreiningur um skipulagsmál þar. Að mati Samfylkingarinnar er mjög mikilvægt að sátt verði um fyrirkomulag skipulagsmála í framtíðinni.

Með sérstöku auðlinda- og umhverfisskipulagi verður mótaður skipulagsrammi um þessar sameiginlegu auðlindir þjóðarinnar. Þetta skipulag varðar markmið ríkisvaldsins um framtíðarnotkun landsins og nýtingu gæða þess. Sveitarfélögin halda eftir sem áður aðal-, svæðis- og deiliskipulagsrétti sínum.

Samfylkingin telur að hefjast ætti handa við útfærslu samræmds umhverfis- og auðlindaskipulags á miðhálendinu eins og því er lýst hér að framan. Þess vegna telur minni hlutinn ekki tímabært að afgreiða fyrirliggjandi frumvarp til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Herra forseti. Það er ljóst að tillaga meiri hluta umhvn. er borin fram í óþökk margra. Í fyrsta lagi tryggir hún engan veginn hin heildrænu sjónarmið sem lýst er í minnihlutaálitinu og felast í tillögunni um umhverfis- og auðlindaskipulag á landsvísu þar sem valdssvið skipulagsnefndarinnar er óljóst og réttur hennar gagnvart aðalskipulagi og deiliskipulagi sveitarfélaganna er ekki skýr.

Í öðru lagi liggur fyrir að fulltrúar þeirra tveggja þriðju hluta þjóðarinnar sem búa á höfuðborgarsvæðinu eiga í besta falli fimm fulltrúa af tólf nefndarmönnum, ef formaður nefndarinnar, fulltrúi félmrn. og útivistarsamtaka eru af því svæði, en í versta falli einn ef enginn þessara fulltrúa er þaðan og fulltrúi Reykjaneskjördæmis er af Suðurnesjum.

Í þriðja lagi er engin sátt um þetta hjá sveitarfélögunum hringinn í kringum landið þar eð þeim finnst nefndin vera komin inn á sitt verksvið í skipulagsmálum og að staða aðalskipulags og deiliskipulags þeirra sé óljós. Þá erum við komin með tvenns konar sveitarfélög hér á landi, þau sem ráða sínu skipulagi alfarið sjálf og þau sem þurfa að leita til sérstakrar svæðisskipulagsnefndar um hálendið með sitt skipulag. Endanlegt úrskurðarvald er svo í höndum ráðherra.

Herra forseti. Það er trú okkar í Samfylkingunni að ef tekið yrði undir hugmynd okkar um umhverfis- og auðlindaskipulag á landsvísu þá yrði þessi vandi leystur í eitt skipti fyrir öll. Litið yrði í fyllingu tímans á landið allt sem eitt skipulagssvæði þar sem Alþingi mótaði grófa stefnu um nýtingu þess til framtíðar. Aðkoma allra landsmanna að gerð þessa skipulags yrði sem jöfnust, óháð búsetu, og að lokum sætu sveitarfélög við sama borð þegar kæmi að svæðis-, aðal- og deiliskipulagi. Þau yrðu öll að taka tillit til stefnumótunar í umhverfis- og auðlindaskipulagi. Tillaga okkar snýr þó að því að í fyrstu verði hálendið tekið fyrir þar eð um það svæði hefur staðið mestur styr.

Herra forseti. Það er engin ástæða til að kljúfa þjóðina í fylkingar í þessu máli. Því miður varð sú þó raunin síðasta vor þegar stefnumörkun um framtíð hálendisins var færð í hendurnar á litlum hluta þjóðarinnar með afmarkaða hagsmuni. Sú tilraun til að leiðrétta þann gerning sem hér liggur frammi í tillögu meiri hluta umhvn. er ekki til þess fallin. Hún svarar ekki ákalli þjóðarinnar um aðkomu að stefnumörkun í nýtingu umhverfis og auðlinda. Hún svarar ekki kröfum sveitarstjórna sem liggja að hálendinu um að sitja við sama borð og önnur sveitarfélög landsins þegar kemur að skipulagsmálum.

Herra forseti. Skynsamleg nýting auðlinda lands og þjóðar er forsenda fyrir áframhaldandi byggð í landinu. Við verðum að tryggja að um hana náist sátt meðal þjóðarinnar og að hún hafi ekki á tilfinningunni að ríkisvaldið láti einskis tækifæris ófreistað til að færa valdið úr hennar höndum og í hendur fárra einstaklinga sem af einhverjum ástæðum eru henni þóknanlegir á hverjum tíma. Samfylkingin mun leitast við að ríkisvaldið nái sátt við þjóðina í þessum efnum þegar hún fær umboð til þess. Það verður vonandi ekki síðar en á þessu vori.