Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 16:16:32 (4716)

1999-03-10 16:16:32# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[16:16]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er að tala um það að þegar ríkisstjórn eða flokkur hefur ekki haft döngun í sér að afgreiða mál af þessu tagi fyrr en á síðasta degi síðustu viku þingsins þá væri kannski eðlilegt að gefa öðrum tækifæri með ferska sýn að breyta rétt miðað við þá hugsun sem sá ráðherra hefði. Það var ég að segja.

Um útlendinga með skoðun á náttúruverndarmálum, þá hefur þingmaðurinn misskilið umræðuna allillilega. Þannig er að Skipulagsfræðingafélag Íslands og samvinnunefnd um svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið fékk þessi hjón, sem eru þekktir skipulagsfræðingar, til að fjalla um skipulag á Vesturlöndum. Ég var að vitna í hvað þetta fólk segir um skipulag og svæðisskipulag til að koma á framfæri skoðunum þeirra sem hafa verulega þekkingu á málum einmitt til þess að komast hjá viðbrögðum eins og ég fékk frá þingmanninum.

Ég var ekki undrandi á því að sveitarfélög gættu hagsmuna sinna. Ég var einmitt að árétta að þau geri það. Ég var að segja þingmanninum og öðrum frá því hvernig sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu á sínum tíma settu upp Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins af því þau voru meðvituð um það hversu slæmt það væri að hver væri að pukrast með mál í sínu horni því að út úr því yrðu árekstrar. Það eru slík samtök sem menn eru nú að vakna til vitundar um og hefðu frekar átt að halda áfram með þá vinnu.

Að loka leiðum og smölunarleiðum. Ég veit ekki í hvaða samhengi þingmaðurinn talaði um það. Ég fer mikið í ferðalög um landið mitt og bestu stundir mínar eru þegar ég ferðast um miðhálendið og upp í óbyggðir. Og ég get grátið yfir því að það er varla hægt að komast um landið fyrir girðingum þvers og kruss. Ég hef líka skoðun á því að með þau mál ætti að fara öðruvísi. En það er önnur umræða sem verður tekin á öðrum tíma.