Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 16:29:13 (4721)

1999-03-10 16:29:13# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[16:29]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Löggjöf í tengslum við þetta frv. var mjög umdeild á hinu háa Alþingi ekki alls fyrir löngu. Þá voru lagðar fram þær hugmyndir sem koma fram í frv. sem komið er nú til 2. umr. Hér er verið að takast á um tiltekin grundvallaratriði.

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt að skörp skil geta orðið milli stjórnmálaflokka hvað þetta mál varðar vegna þess að það tekur á svo miklum hagsmunum sem snerta svo marga landsmenn. E.t.v. er aðalgallinn við umræðu um skipulagsmál að við bjuggum þessum málum ekki nægjanlega góðan farveg hér á árum áður. Segja má að við höfum oft og tíðum rekið okkur á skipulags- og nýtingarvandamál vegna einstakra verkefna frekar en að við höfum unnið eftir langtímaáætlun. Herra forseti. Yfirsýn hefur skort yfir skipulagsmálin í fyrsta lagi. Í öðru lagi hefur skort á skipulögð og vísindaleg vinnubrögð við stefnumótun og í þriðja lagi hefur Alþingi Íslendinga ekki kveðið upp úr um hvernig skipuleggja eigi miðhálendið, þ.e. hvaða útlínur, landnýtingu o.fl. eigi að leggja til gundvallar.

[16:30]

Segja má að ekki hafi verið tekið heilsteypt á þessum málum, hvorki í núgildandi löggjöf né af Alþingi hér á árum áður. Þá er vitaskuld oft erfitt að snúa við þegar menn hafa búið sér til ákveðinn ramma sem þeir eru að reyna að laga og endurmeta, eins og verið er að gera í þessu frv. sem hér er til umræðu.

Við munum niðurstöðuna sem varð á síðasta ári, að sveitarfélögin voru framlengd inn að landmiðju og skipulagsvaldið falið einstökum sveitarfélögum. Þá var sú skoðun uppi, m.a. í þáv. þingflokki jafnaðarmanna, að skynsamlegra væri að vinna út frá því að miðhálendið yrði skipulagslega ein heild. Margir héldu því fram að miðhálendið ætti að vera eitt sveitarfélag og þannig væri ekki búið til sérstakt stjórnsýslustig fyrir miðhálendið heldur einfaldlega sveitarfélag sem lyti nokkuð öðrum reglum, sérstaklega um stjórn, en hefði vald sveitarfélags, eins og við þekkjum það í lögum um sveitarfélög.

Þessi leið var ekki farin heldur sú sem verið er að vinna út frá í þessu frv. Skipulagsmálin eru á forræði sveitarfélaganna og hvað varðar miðhálendið er unnið eftir tillögum samvinnunefndarinnar að skipulagi miðhálendisins, sem menn þekkja og oft hefur komið fram í umræðunni að bíður staðfestingar ráðherra.

Hins vegar var mikið ósætti um þessa útfærslu stjórnarmeirihlutans á sínum tíma. Við í minni hlutanum lögðum til að nota aðrar aðferðir sem varð einfaldlega undir í atkvæðagreiðslu. Við því er ekkert að segja, meiri hlutinn hlýtur að ráða. Eftir sem áður er það hlutverk okkar að reyna að draga skýrt fram stefnu okkar í þessum efnum.

Ég vil geta þess, herra forseti, að mikil gagnrýni hefur verið á vinnuna við skipulagið á miðhálendinu og skipulagsfræðingar hafa gagnrýnt þau vinnubrögð. Á sínum tíma var unnið eftir útboði. Ég lagði fram fsp. hér á hinu háa Alþingi um framkvæmd þessa máls og þá komu fram margar athyglisverðar upplýsingar, m.a. þær að kostnaður hefði farið langt fram úr áætlun. Segja má að meginvandinn í þessu felist í því að menn hafa hvorki sett sér langtímastefnumörkun um miðhálendið né um landið allt.

En það er einmitt það, herra forseti, sem Samfylkingin er að leggja til. Hún er að leggja til að notaðar verði aðrar aðferðir. Hún leggur til aðra aðkomu að þessu vandamáli. Hún er að lýsa hugmyndum um betra kerfi. Hugmyndafræðin sem við leggjum hér til og köllum umhverfis- og auðlindaskipulag eða landsáætlun er tiltölulega einföld, þ.e. að útfærð verði stefna stjórnvalda um heildarþætti eða stærstu þættina í nýtingu lands. Í slíkri áætlun er fjallað um samgöngur, orkumannvirki, náttúruvernd, landnotkun og ýmislegt fleira gagnvart miðhálendinu í grófum dráttum.

Þessi hugmynd eða hugmyndafræði er víða notuð. Noregur t.d. hefur að hluta farið þessa leið. Hér erum við fyrst og fremst að leggja til að dregin verði upp stefnumótandi áætlun til mjög langs tíma, til nokkurra áratuga. Ég vil benda á að við höfum slíkar áætlanir og munum væntanlega, einmitt í dag, afgreiða löggjöf um áætlunargerð í skógrækt til 40 ára. Í dag kemur til afgreiðslu þingmál um landshlutaverkefni í skógrækt. Þar er einmitt sú hugsun, að gera áætlun til langs tíma. Við leggjum til að Alþingi afgreiði með þál. umhverfis- og auðlindaskipulag á miðhálendinu.

Af þessu má ljóst vera út á hvað hugmyndin gengur, að beitt verði faglegum vinnubrögðum við skipulagningu á miðhálendinu þar sem dregnar verði upp hugmyndir um nýtingu og útfærslu og þær síðan staðfestar hér á hinu háa Alþingi. Við þekkjum slíka áætlunargerð á öðrum sviðum. Við afgreiðum t.d. langtímaáætlun í vegagerð til tólf ára. Við höfum á mörgum öðrum sviðum fikrað okkur eftir slíkri hugmyndafræði, að afgreiða áætlunargerð til langs tíma.

Með þessu segjum við að slík vinnubrögð eigi að gilda um hálendið og Alþingi afgreiði þessi mál, að Alþingi taki þannig einnig ábyrgð á slíku heildarskipulagi miðhálendisins. Við teljum að þessar aðferðir eigi fyrst að ná til miðhálendisins en auðvitað er hægt að sjá fyrir sér að slíkt landsskipulag nái líka til þéttbýlisstaðanna, þetta grófa skipulag sem mótar þær útlínur sem við erum að lýsa, nái einnig til þéttbýlisins og svæðisins utan miðhálendisins.

Við leggjum hins vegar til að við gerum þetta núna á miðhálendinu. Þar er ágreiningur. Þar er mesta þörfin á þessum vinnubrögðum. Við höfum séð, eins og einnig hefur komið fram í umræðunni, vanda miðhálendisins endurspeglast í skipulagsleysinu. Samvinnunefndin, sem kemur til með að vinna að skipulagsmálum á miðhálendinu, getur ekki tryggt að þetta skipulag endurspegli stefnumið stjórnvalda á viðkomandi sviðum eða gætt samræmis. Ég vil benda sérstaklega á, herra forseti, að e.t.v. hefur nefndinni yfirsést í meðhöndlun sinni á málinu mikilvægur þáttur í núgildandi lögum. Í gildandi 13. gr. skipulagslaganna segir: ,,Svæðisskipulag telst samþykkt þegar og að svo miklu leyti sem allar hlutaðeigandi sveitarstjórnir hafa samþykkt það.``

Mikil umræða var einmitt um þetta ákvæði á sínum tíma. Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en að þessi grein sé eftir sem áður í lögum, þrátt fyrir brtt., þrátt fyrir frv. og þrátt fyrir brtt. meiri hluta nefndarinnar vegna þess að hún leggur til að bæta við nýjum greinum, 12. gr. a og 13. gr. a. Hins vegar rekur það sig nokkuð á ef hin greinin, fyrir utan þennan efnisþátt sem ég nefndi, er jafnframt í gildi. Nú má vera að mér hafi missýnst eitthvað þegar ég skoðaði þessi þingskjöl en það breytir því ekki að ég beini því til hv. umhvn. að skoða aðeins þennan þátt, hvort eitthvað hafi farið á milli mála við gerð tillagnanna sem hér liggja fyrir.

Þegar við leggjum til að notuð verði þessi aðferð, að gera landsskipulag á miðhálendinu, þá erum við um leið að hafna þeim hugmyndum og þeim vinnubrögðum sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sem er útfærslan á samvinnunefndinni. Þess vegna, herra forseti, er mjög mikilvægt að menn skoði ekki aðeins tillögur okkar, sem sagt hugmyndina um nýja nálgun að skipulagsmálum á miðhálendinu, heldur einnig þá tillögu sem fulltrúar Samfylkingarinnar leggja formlega til í minnihlutaálitinu, þ.e. að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Við segjum einfaldlega: Frv. með þessari útfærslu er ekki tækt til afgreiðslu. Við leggjum til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar og vinna hafin á þeim forsendum sem ég lýsti hér áðan.

Við teljum mikilvægt að það náist sátt um fyrirkomulag skipulagsmála í framtíðinni. Við höfum séð ófriðinn um þessi mál og teljum --- þar skilur e.t.v. á milli okkar og ýmissa annarra í þessu máli --- að það sé hlutverk ríkisvaldsins fyrst og fremst að draga fram útlínur á skipulagi á miðhálendinu og leita eftir staðfestingu á þessum útlínum á hinu háa Alþingi. Þegar þessi rammi liggur fyrir þá er það sveitarfélaganna að vinna eftir honum vegna þess að við leggjum ekki til breytingar á því að sveitarfélögin hafi aðal-, svæðis- og deiliskipulagsréttinn sín megin.

Hér er því lagt upp með þá aðferð að móta stefnu til langs tíma, byggða á faglegum forsendum sem verði afgreidd, ekki einungis af hálfu ráðherra, heldur með formlegri afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi. Síðan er það einstakra sveitarféalga að fylla inn í þann ramma sem er settur af hálfu Alþingis um nýtingu og notkun á miðhálendinu.

Við erum þess fullviss, herra forseti, að sú hugmynd og útlínur þeirrar aðferðafræði sem við höfum verið að lýsa hér í umræðunni í dag og gerum í nál., sé miklu vænlegri til að leita sátta og faglegri aðferð til að taka á skipulagsmálum en stefna ríkisstjórnarinnar, eins og hún birtist í þessu frv. og eins og hún var afgreidd í lagasetningunni á sínum tíma. Við erum þess fullviss að þau vinnubrögð sem við leggjum til falli betur að sjónarmiðum þeirra sem bera hag miðhálendisins mest fyrir brjósti og tryggi betur hin faglegu, vísindalegu vinnubrögð sem við viljum öll viðhafa í þessu máli. Langtímaáætlunargerð, studd vilja Alþingis, er miklu vænlegri leið en að halda áfram þeim ófriði um skipulagsmálin á miðhálendinu eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert.