Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 16:45:32 (4722)

1999-03-10 16:45:32# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, HG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[16:45]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sjónarmið mín til þessara mála hafa þegar komið fram að nokkru leyti í umræðunni, svo ég ætla að leitast við að takmarka mig við tiltölulega fá atriði. Sú umræða sem hér fer fram er að mínu mati mjög áhugaverð, m.a. sú nálgun sem talsmenn Samfylkingarinnar leggja inn í umræðuna sem er úr allt annarri átt en það sem hér kemur fram og birtist í skipulagslöggjöf eins og hún var samþykkt af öllum á Alþingi vorið 1997 og gengur sem sagt í rauninni inn í málin með verulega öðrum hætti.

Ég hef sagt það nú þegar að mér finnst það út af fyrir sig alveg umræðunnar virði að fara yfir málin út frá þeim forsendum sem þeir hafa kynnt, m.a. síðasti hv. ræðumaður, þó að ég hafi ekki trú á að sú aðferðafræði sem er þar verið að leggja til skili betur þeim markmiðum sem ég ber fyrir brjósti sérstaklega. Það segi ég alveg hreinskilnislega og hef þegar haft um það mjög ákveðin orð í umræðunni.

En fyrst um brtt. við frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum sem liggja fyrir frá meiri hluta umhvn., sem ég stend að, þó með fyrirvara. Nefndin hefur unnið mikið verk í sambandi við þetta mál á takmörkuðum tíma. Hún fékk málið auðvitað allt of seint frá ríkisstjórninni og hæstv. umhvrh., en hefur lagt sig fram um að ná landi í þessu máli. Auðvitað hefði verið æskilegt ef 2. umr. hefði farið fram fyrr en á síðasta þingdegi. Undir það tek ég heils hugar.

Ljóst er að ágreiningur er í málinu milli fulltrúa Samfylkingarinnar annars vegar og hins vegar þeirra sem að þessum meiri hluta standa. Ég vil benda á að gerðar eru mjög veigamiklar breytingar á málinu frá því frv. sem lagt var fyrir þingið rétt fyrir jól. Þær varða bæði samsetningu samvinnunefndar miðhálendisins og málafylgjuna að öðru leyti. Við 1. umr. málsins hafði ég uppi talsverða gagnrýni á frv. m.a. út frá tæknilegum forsendum og ég tel að sú gagnrýni hafi í raun í öllum greinum reynst vera rétt þegar málið var frekar til skoðunar. Á það bæði við það er laut að markalínunni og eðli þess svæðisskipulags sem lagt var upp með, þ.e. að það væri sjálfstæð skipulagseining. Svo reyndist vera og þannig er um málið búið af hálfu meiri hlutans að þetta er sjálfstæð skipulagseining innan ákveðinnar afmarkaðrar markalínu. Við erum því komin með stjórnsýslu í skipulagsmálum innan þessarar línu. Þó að sveitarfélög komi að því máli á ákveðinn hátt með samvinnunefnd miðhálendisins, þá er svæðisskipulagsvaldið orðið sameinað undir forræði þessarar nefndar. Hún hefur þannig í raun skipulagsvaldið í samhengi svæðisskipulags.

Á því hálendissvæði sem um er að ræða er svæðisskipulagsvaldið í reynd að mínu mati miklu veigameira, staða þess miklu veigameiri, en væri um svæðisskipulag niðri í byggð, á byggðu svæði, m.a. vegna þess að á hálendinu hlýtur eðli máls samkvæmt að vera um grófar línur að ræða hvað varðar framkvæmdahugmyndir, tiltölulega fáar einfaldar línur að því leyti, sem þurfa þá að birtast í svæðisskipulaginu og koma þar fram. Og verkefni einstakra sveitarfélaga sem fara með aðalskipulagsvald inn á þetta svæði verða í reynd tiltölulega takmörkuð svo ég segi ekki mjög takmörkuð. Það svæðisskipulagsstig sem hér um ræðir er því annað og í rauninni miklu áhrifameira og þýðingarmeira sem slíkt en ef um væri að ræða svæðisskipulag t.d. á höfuðborgarsvæðinu þar sem er alveg ljóst að skipulagsþættirnir snúast mun meira um framkvæmdir og mannvirki en verndarþætti og grófar útlínur sem duga ekki þegar komið er í byggðina, síst af öllu í miklu þéttbýli. Út frá þessu sjónarmiði fagna ég þeirri niðurstöðu almennt sem hér er fengin. Síðan koma fjölmörg álitamál sem þessu tengjast.

Varðandi síðan málsmeðferðina er búin til ný lagagrein. Það var eitt af gagnrýnisatriðum mínum við upphaflegt frv. að það vantaði að ganga tryggilega frá útfærslunni á þeirri skipulagstillögu sem yrði til á vegum samvinnunefndar miðhálendisins. Þessi útfærsla á að vera tryggilega frá gengin. Vegna orða hv. þm. Ágústs Einarssonar í umræðunni áðan, sem var með áhyggjur vegna þess að núverandi 13. gr. skipulagslaganna gæti gripið inn í þetta svæðisskipulag, þá tel ég svo ekki vera. Ég var að líta yfir 13. gr. a að þessu leyti og mér sýnist að þar sé rakið ferlið að því er varðar svæðisskipulag miðhálendisins alveg frá upphafi til loka þangað til ráðherra hefur samþykkt það og staðfest.

Hér á að vera þannig um hnútana búið að einstakar sveitarstjórnir sem koma að þessu máli, þ.e. sveitarfélögin sem eiga aðalskipulagsrétt inn á svæðið, hafi ekki neitunarvald gagnvart svæðisskipulagstillögum. Það er út af fyrir sig að mínu mati mjög mikilvægt og styrkir viðleitni til heildstæðrar málsmeðferðar þannig að heildstæð sjónarmið fái notið sín í þessu og þá ríkir ekki stöðvunarvald á einstökum reitum sem skipt er upp milli sveitarfélaga á þessu svæði.

Ég tel því að þarna hafi í raun efnislega náðst fram meginatriði þess sem þáverandi fulltrúar Alþb. og óháðra ásamt formanni nefndarinnar Kristínu Ástgeirsdóttur gerðu grein fyrir í nál. liðið vor varðandi sveitarstjórnarlöggjöfina, þ.e. að skipulagslöggjöfinni yrði breytt til þess að tryggja þokkalega heildstæð sjónarmið varðandi miðhálendið. Þetta tel ég að hafi gengið þokkalega fram og ég fagna því.

Þegar kemur að samsetningu nefndarinnar, samvinnunefndar miðhálendis sem fer með skipulagsvaldið sem ein heild, sem nefnd, og hefur forræði á svæðisskipulaginu, þá voru sannarlega uppi mörg álitaefni um hvernig hún skyldi samsett. Það er breytt frá því sem lagt var upp með af hálfu hæstv. ráðherra í þessu máli þannig að nefndin verður á miklu ákveðnari hátt til á grundvelli tilnefninga en var fyrirséð var þar sem gert var ráð fyrir að ráðherrann veldi sjálfur fulltrúa að meginhluta, að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.

Frá upphafi var enginn ágreiningur í nefndinni, að ég yrði var við, um að inn í nefndina kæmu þrír fulltrúar frá vesturhluta landsins, þeim hluta landsins sem ekki á aðgengi að eða stjórnskipulegan rétt inn á miðhálendið, þ.e. Reykjanesi, höfuðborginni og Vestfjörðum. Þessir aðilar hafa tilnefningarrétt inn í nefndina. En mikið álitaefni var um það hvernig ætti að velja þá úr öðrum kjördæmum, af öðrum svæðum.

Niðurstaðan varð sú sem hér blasir við, að þeim sveitarfélögum sem eiga skipulagsrétt og stjórnsýslu inn á miðhálendið er ætlað að tilnefna úr sínum hópi innan kjördæmismarka í fimm kjördæmum einn fulltrúa hvert, eða sameiginlega innan hvers kjördæmis, og þannig verða til fimm fulltrúar í nefndina.

Virðulegur forseti. Ég held það væri fróðlegt fyrir talsmenn Samfylkingarinnar að það komi fram að þetta sjónarmið um val fulltrúa átti stuðning --- ég sé nú ekki talsmann minni hlutans í salnum. Væntanlega er sá hv. talsmaður ekki víðs fjarri og ég vil ekki túlka viðhorf hans. En ég tel að það hafi legið alveg skýrt fyrir af hálfu annars fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni, hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, sem er nefnd talsmaður Samfylkingarinnar, að þingmanninum hugnaðist mun betur þessi aðferð við val fulltrúa úr sveitarfélögum en t.d. að leggja það í vald landshlutasamtaka sveitarfélaga í viðkomandi kjördæmum. Því miður er hv. þm. ekki viðstödd til að túlka mál sitt en þetta geta auðvitað allir staðfest sem voru að vinnu í nefndinni.

Ég vil ekki þar með segja að þingmaðurinn hafi verið að taka afstöðu til málsins heildstætt. Það liggur ekki fyrir. Ég bið um að það sem ég mæli hér verði ekki oftúlkað. En mér þótti þetta fróðlegt og að þessu leyti féllu viðhorf okkar saman á vali þessara fulltrúa í samvinnunefndina.

Þegar kemur að öðrum fulltrúum þá var ekki ágreiningur um það að félmrh. tilnefndi einn. Síðan er tólfti fulltrúinn í nefndinni, fyrir utan formann, skipaðan af umhvrh. --- að honum meðtöldum raunar --- fulltrúi útivistarsamtaka og valinn af útivistarsamtökum. Einn er valinn af félagasamtökum um útivist og síðan fjórir áheyrnarfulltrúar. Um þetta varð talsverð umræða. Ég neita því ekki að mér þykir þetta fyrirkomulag mála sem þarna varð ofan á stílbrot, svo ekki sé meira sagt, verulegt stílbrot. Það er ástæða þess að ég flyt við málið, og það er hluti af fyrirvara mínum við málið, brtt. á þskj. 1094 við 2. tölulið 2. gr. frv. Sú brtt. er í því fólgin að gert er ráð fyrir að fjölgað verði um einn fulltrúa í nefndinni, sá verði valinn af félagasamtökum um umhverfis- og náttúruvernd en áheyrnarfulltrúum þá fækkað niður í þrjá. Það er áhersla mín í þessu máli og sá þáttur sem ég er óánægður með í niðurstöðu málsins. Ég tel að meiri hlutinn sem réð þessari niðurstöðu og hafnaði hugmynd minni að lokum, hafi misstigið sig. Ég tel þetta talsvert alvarlegt mál, ekki síst í ljósi þeirrar stefnumörkunar sem Evrópuríki eru að taka í samskiptum sínum við áhugasamtök í umhverfis- og náttúruverndarmálum.

Við þrír fulltrúar Alþingis áttum sæti á ágætri ráðstefnu ráðherra Evrópuríkja í Árósum í júnímánuði ásamt hæstv. umhvrh. Við eigum allir sæti í umhvn. Við vorum þarna að ræða í þingmannahóp en vorum síðan teknir inn í sendinefndina til að geta fylgst með ráðstefnunni. Á þessari ráðstefnu var samþykkt stefnumörkun, sáttmáli um hlutverk umhverfis- og náttúruverndarsamtaka í samskiptum við stjórnmál landanna. Þarna komu fulltrúar slíkra samtaka og áttu sameiginlegan fund með ráðherrunum og fengu sæti inni í hringnum til þess að það lægi skýrt fyrir og sýnilega að hverju væri stefnt í þessum efnum.

Því miður hefur þessi samningur ekki verið lagður fyrir Alþingi til kynningar eða staðfestingar. Hann hlýtur að eiga að koma fyrir þingið. Í rauninni er verið að ýta á eftir því að þetta mál fari inn í þjóðþingin og fái staðfestingu hið fyrsta. Ástæða er til að undirstrika að menn eru ekki bara að tala um áheyrnaraðild slíkra samtaka eða óbein áhrif á stefnumörkun. Þessi samningur gerir ráð fyrir beinni aðild slíkra samtaka með ákveðnum hætti að stefnumörkun í málum sem varða umhverfisvernd. Og fyrirkomulag þessa máls hér í þessu samhengi er stílbrot og, að mínu mati, gengur skýrt gegn því sem hæstv. umhvrh. undirritaði í Árósum að því er varðar möguleika áhugafélaga á þessu sviði.

Ég harma að þetta skuli ekki hafa fengist í gegn en ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð. Það er ekki nógu vel á máli haldið.

[17:00]

Ég bauð það líka, ef það yrði til að sættast á málin, að allir fulltrúar, áhugaaðila eða meintra hagsmunaaðila sem fengju aðild að nefndinni, væru jafnstiga þannig að útivistarfulltrúinn hefði sömu stöðu og aðrir. Eða eins og ég útfærði það í brtt. að náttúruverndarsamtökin fengju sinn hlut.

Virðulegur forseti. Ég vona að sú brtt. sem hér er flutt eigi stuðning í þinginu. Ég vænti þess að við náum því að afgreiða málið og lögfesta í dag vegna þess að ég tel að það bindi með þýðingarmiklum hætti þau sjónarmið sem krefjast þess að heildstætt sé staðið að skipulagsmálum á miðhálendinu.

Þá undir lok máls míns, virðulegur forseti, því ég vil reyna að þjappa þessu saman þó að margt megi um málið segja: Þessi hugmynd sem kemur frá talsmönnum Samfylkingarinnar er að mínu viti tæknileg í eðli sínu. Eða borin uppi af ákveðinni tæknihyggju sem er vissulega ættuð frá þeim sem telja sig fróða um það hvernig eigi að vinna skipulag. (GÁS: Hver er nú sérfræðingur í því?) En það sem mér sýnist að á skorti inn í skoðun málsins ... (GÁS: Sagði hv. þm. tæknihyggju?) Ákveðinni tæknihyggju, já. (GÁS: Hv. 4. þm. Austurl. ætti nú að þekkja hana.) Það er ágætt sjónarmið sem kemur utan úr sal að ég eigi að þekkja tæknihyggju.

Virðulegur forseti. Það sem ég á við er að menn taka ekki tillit til sérstöðu Íslands og óbyggðasvæðanna á Íslandi og hvernig þau hafa verið nýtt og hver hefur verið nálgunin gagnvart þeim fram undir þetta. Ekki er tekið með inn í þetta dæmi eins og skyldi, inn í þessa hugsun um landsáætlun eða landsskipulag. Það liggur að baki að minni hyggju, a.m.k. eins og ég þekki þá túlkun í fræðiritum skipulagsfræðinga eins og Trausta Valssonar, hugmyndir um að menn eigi að líta á miðhálendið miklu meira sem allsherjarframkvæmdasvæði til þess m.a. að tengja saman landshluta með upphleyptum vegum og hlemmivegum og leita hagræðis í flutningakerfi með fisk og afurðir þvert yfir hálendið. Birgir Jónsson, verkfræðingur eða a.m.k. starfsmaður, hefur starfað að slíkum málum, ég er ekki viss um að hann sé verkfræðingur, ég held að hann sé meðhöfundur að ágætu riti sem fjallar um þetta. Þetta eru ágætir fræðingar sem ég met mikils hvorn um sig og báða saman. Þeir flytja sitt mál og hafa kynnt það. Ég er ekki sammála áherslum þeirra. Ég er ekki sammála þeim áherslum sem þar koma fram. Ég tel þær afar varhugaverðar út frá sýn minni til þess hvernig við eigum að halda utan um málefni miðhálendisins.

Ef farið væri að ráði Samfylkingarinnar og settir til verka að draga upp landsskipulag fyrir miðhálendið sem forgangsatriði fulltrúar ráðuneytanna í Stjórnarráðinu, þá bara bið ég fyrir mér í þeim efnum. Það er mjög langt frá því að ég vildi skipta út þeirri nefnd sem er ætlað þetta vald fyrir slíkt apparat sem væri sett upp með þeim hætti sem tillaga kom fram um sl. vor af hálfu þáverandi þingflokks jafnaðarmanna og gengur aftur í því formi sem hér er lagt til. Ég gæti rökstutt það viðhorf með ýmsum hætti, virðulegur forseti, það mat mitt á stöðu málsins.

Svo verð ég að nefna, vegna þess sem kom frá þingflokksformanni Samfylkingarinnar í ágætu máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og endurspeglaðist í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar, það sjónarmið að framkvæmdarvaldið hlyti að geta gengið yfir svæðisskipulagið, eigi að geta troðið sjónarmiðum sínum og hljóti að hafa forgangsréttinn til að troða sjónarmiðum sínum fram gagnvart þessu skipulagsvaldi. Ég hafna því. Ég hafna því að staðan sé slík.

Sem betur fer liggja ekki þessir skipulagsdrættir fastir og ákveðnir fyrir þannig að það var og er svigrúm til þess að taka á skipulagi miðhálendisins út frá verndarsjónarmiðum öðru fremur. Sem betur fer endurspeglar sú svæðisskipulagstillaga sem þó liggur fyrir slík sjónarmið, þó langt sé frá því að það gangi jafnlangt í þeim efnum og ég hefði kosið, en mun lengra en hefði mátt vænta, ég tala ekki um ef orkuiðnaðurinn hefði fengið viðspyrnu í málinu og getað komið sjónarmiðum sínum lengra fram en raun bar vitni í þeirri tillögu.

Ég vek athygli á því að í svæðisskipulagstillögunni er að finna fyrirvara við framkvæmdir sem Alþingi hefur veitt heimildir fyrir og ráðherrar hafa veitt leyfi fyrir, m.a. í sambandi við virkjanaframkvæmdir. Það skiptir máli að slíkt sjónarmið fái staðfestingu í skipulagi, það veitir fótfestu, þó hún sé ekki traust eða kannski ekki eins örugg og maður vildi sjá. En þá veitir hún samt einhverja fótfestu. Út frá þessum sjónarhóli sem vil ég skoða þessi efni og ekki síst að sjónarmið fólksins um landið allt komi inn í þessi mál, að þau fái með vissum hætti að njóta sín, leitast verði við að skapa traust á milli fólks hvar sem er á landinu í sambandi við meðferð mála.

En ekkert skipulag og engin lagaumgerð fríar okkur af því að þurfa að hafa skoðanir á því hvernig eigi að þróa þessi mál og koma í staðinn fyrir almenningsálit í landinu sem er þrátt fyrir allt sterkasta aflið meðan við hlustum á það, á meðan Alþingi Íslendinga er opið fyrir slíkum sjónarmiðum. Við höfum orðið þess aðnjótandi og vitni að því núna allra síðustu árin í vaxandi mæli að þetta afl almenningssjónarmiða, verndarsjónarmiða, að því er varðar miðhálendið sérstaklega, er að ryðja sér braut og veita það skjól gagnvart öðrum hugmyndum og öðrum hagsmunum sem þarf til þess að ná fram því sem ég tel að mestu máli skipti og við mörg hér á þinginu. Það er það sjónarmið að miðhálendið verði öðru fremur verndað fyrir meiri háttar mannvirkjagerð, verði sem mest vettvangur og haldið utan um það sem auðlind þar sem við höldum mannvirkjagerð í lágmarki, leyfum okkur þann munað að nýta það sem kallað er auðlindir, þó freistandi væri, nema í mjög takmörkuðum mæli og af mikilli gát og varúð. Þar er það sjónarmið hins stóra fjölda sem máli skiptir, að hann láti sig það varða og þau sjónarmið hafa verið að styrkjast sem betur fer frá ári til árs upp á síðkastið, frá mánuði til mánaðar, og ég vona að þau fái framgang og fái notið sín í því pólitíska uppgjöri sem bíður okkar innan skamms í kosningum.