Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:12:31 (4724)

1999-03-10 17:12:31# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:12]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Veigamiklar breytingar hafa átt sér stað á þeim tillögum sem kynntar voru í 1. umr. varðandi brtt. við skipulags- og byggingarlög. Ég tel að allar þær breytingar hafi verið mjög til góðs.

Eins og fram hefur komið er um að ræða sjálfstæða skipulagseiningu sem er ákveðinn skipulagsgrundvöllur sem er þá í höndum samvinnunefndar um miðhálendið. Ég fagna því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er einn af flm. þessarar tillögu þó hann hafi ritað undir hana með fyrirvara.

Veigamiklar breytingar á tillögunni eru m.a. fólgnar í vali á nefndarmönnum í þessari samvinnunefnd og einnig að gert er ráð fyrir að heimila --- takið eftir --- að heimila umhvrh. að skipa áheyrnarfulltrúa ef þurfa þykir. Þetta er engin skylda en það er heimildarákvæði í þessum brtt.

Í raun og veru hafa átt sér stað grundvallarbreytingar á viðhorfum fólks til skipulagsmála. Öll slík vinna tekur ákveðinn tíma og það tekur talsverðan tíma að laða fólk til samstarfs í málum sem þessum.

Ég hef fylgst með vinnu í sambandi við skipulagsmál á landsvæði sem kallast friðland að fjallabaki. Þar hafa menn verið laðaðir til samstarfs. Það á við um sveitarstjórnir, það á við um fagmenn eins og verkefnastjórann sem heitir Gísli Gíslason og er landslagsarkitekt. Þar eru fulltrúar sveitarfélaga, þar eru fulltrúar fólksins í landinu sem hafa gert veigamiklar og merkilegar tillögur um skipulagsmál. Í þeim tillögum sem þar hafa verið lagðar fram hefur náðst sátt og sú sátt skiptir mjög miklu máli.

[17:15]

Þær brtt. sem hér eru kynntar eru auðvitað ákveðin málamiðlun því hér er um hápólitískt mál að ræða. Það þarf ekki að koma neinum á óvart. Engu að síður eru ákveðin grundvallaratriði sem skipta máli. Til dæmis er sú tenging sem fram kemur í þeirri vinnu sem innt hefur verið af hendi varðandi skipulagsmálin í rauninni grundvallaratriði, þ.e. að staðfesta það svæðiskipulag sem unnið hefur verið að af samstarfsnefndinni. Það er mjög veigamikið atriði í þessum brtt. og í raun grundvallaratriði.

Það hefur líka náðst sátt um hina svokölluð hálendislínu. Það skiptir miklu máli. Við munum eftir umræðunni sem fram fór í þinginu fyrir allnokkrum árum þegar fyrstu tillögur að skipulagi hálendisins komu fram, að menn voru allsendis ósáttir við tillöguna um hina svokölluðu skipulagslínu. Formaður umhvn. hefur lagt sig í líma við að reyna að ná sáttum um þetta mál, reyna að sætta ólík sjónarmið, og ég tel að hv. formaður umhvn. hafi staðið sig býsna vel í þeim efnum.

Fyrrverandi umhvrh. gerði í ræðu sinni áðan lítið úr stjórnsýslurökum, eins og hann orðaði það. En eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit þá ber okkur að fara eftir lögum og ég veit að hann lagði sig fram um það meðan hann var umhvrh. sjálfur þótt hann hafi misst þetta út úr sér í ræðustól áðan. En ég endurtek að hér er um grundvallaratriði að ræða, við höfum náð ákveðinni sátt í þessu máli og vonandi leiða þessar breytingar til þess að við megum ná enn meiri sátt við almenning um það svæði sem hér er verið að ræða um.