Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:21:38 (4727)

1999-03-10 17:21:38# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ísólfur Gylfi kom ungur þingmaður inn í þessa sali fyrir fjórum árum síðan. Ef hann er heppinn og ef kosningarnar verða á góðum degi þá mætir hann hingað aftur að kosningum loknum. Staðreyndin er einfaldlega sú að sökum viðhorfa Framsfl. til þessa málaflokks hefur fylgið hrunið af Framsfl. Skilur ekki Framsfl. hverjum klukkan glymur?

Ástæðan fyrir því að sá ágæti flokkur hefur lent í þeim ógöngum sem hann er staddur í núna er nákvæmlega þessi mál. Það eru viðhorf forustu Framsfl. til mengunarmála, til stóriðju og til hálendismála. Það eru þessir málaflokkar sem hafa rúið flokkinn fylgi.

Það sem við erum að deila hér um í dag er í rauninni aðkoma fólksins í landinu að skipulagi og stjórnun miðhálendisins. Það liggur alveg ljóst fyrir og hefur ítrekað komið fram í skoðanakönnunum að Framsfl. hefur í þessum efnum orðið viðskila við fólkið í landinu. Og það er út af því sem hann er staddur í þessari raunalegu stöðu.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kemur hingað og rembist við að færa rök fyrir þessari vondu stefnu. En hann skilur ekki að það er þessi stefna sem veldur því að framtíð hans sem stjórnmálamanns, a.m.k. á næstu fjórum árum, er í hættu nákvæmlega út af því flokkurinn hefur haft stefnu sem er víðs fjarri stefnu fólksins í landinu. Það sama gildir um hinn ágæta þingmann, hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson. Báðir þessir þingmenn hafa talað máli, hvor með sínum hætti þó, umhverfisstefnu og náttúruverndar á Alþingi Íslendinga. En þeir hafa hins vegar, eins og hæstv. umhvrh., verið sveigðir inn undir pilsfald stóriðjunnar, þ.e. forustumannanna tveggja, hæstv. iðnrh. og hæstv. utanrrh., sem hafa tekið Framsfl. og undið hann eins og tusku og undið hann undir pilsfald stóriðjunnar gegn vilja þessara þingmanna. Og það er þess vegna sem Framsfl. er u.þ.b. að hrapa fyrir ætternisstapa.