Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:47:56 (4735)

1999-03-10 17:47:56# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:47]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ef Svínavatnshreppur hefur gert aðalskipulag sem er í samræmi við svæðisskipulag getur hann haldið áfram þeim ákvörðunum sem hann hefur lagt af stað með. Aftur á móti ef aðalskipulagið stangast á við svæðisskipulagið er í raun verið að ganga þvert á skoðanir samvinnunefndarinnar sem er rétthærri í þessu tilviki samkvæmt þessum lögum og 13. gr. laganna samkvæmt þessu nýja frv. en sveitarfélagið. Aftur á móti er það spurning um afturvirkni í svona tilfelli ef Svínavatnshreppur hefur verið búinn að taka einhverja ákvörðun áður en þessi lög verða samþykkt er náttúrlega spurning hvort Svínavatnshreppur hefur ekki fulla heimild til að gera það sem fyrri ákvarðanir eða fyrri lög heimiluðu þeim. En Svínavatnshreppur, hvað sem hv. þm. er að meina í þessu tilfelli, það sem ákveðið verður af þeirri sveitarstjórn verður að samrýmast svæðisskipulaginu þegar það verður samþykkt af ráðherra. Það er skoðun mín og ég hef ekki heyrt þeirri skoðun andmælt og ég velti fyrir mér, hvaða skoðun hv. þm. hefur á svæðisskipulagsnefndinni yfirleitt. Trúir hv. þm. því að svæðisskipulagsnefndin sé bara til að gera eitthvert kort og eftir því þurfi enginn að fara? Sveitarstjórnirnar þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því eða taka neitt tillit til þess. Þetta er bara ekki svona, hv. þm. og ég held nauðsynlegt sé að þeim misskilningi verði eytt.