Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:53:32 (4738)

1999-03-10 17:53:32# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:53]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þau orðaskipti sem áttu sér stað í andsvörum milli nokkurra hv. þm. snerta að vissu leyti kjarna þess máls sem við ræðum og það er þetta: Hvað er veigaþyngst og hvað gildir í raun og sanni þegar aðalskipulag einstakra sveitarfélaga fer ekki saman við svæðisskipulag eða tillögur að svæðisskipulagi? Auðvitað er það þannig að fyrst verður til aðalskipulag að öllu jöfnu og síðan freista menn þess að búa til svæðisskipulag sem getur tekið yfir stærri svæði. Það þekkja sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu einkar vel þegar slíkir hnútar hafa orðið til að aðalskipulag tiltekinna sveitarfélaga, sem liggja hvert að öðru, hafa verið þannig að ekki hefur verið hægt að koma við svæðisskipulagi sem vit væri í. Við þekkjum það að slík mál hafa stundum togast og teygst árum saman án þess að nokkur vitræn niðurstaða fengist og enda er það lykilatriði þeirrar setningar sem finna má hér í brtt. meiri hlutans að við gerð svæðisskipulags miðhálendis sé þess gætt að samræmi sé innbyrðis með aðalskipulagstillögum einstakra sveitarfélaga á svæðinu og að samræmi sé milli þeirra og svæðisskipulags miðhálendis. Þá spyrja menn: Ef þetta gerist nú ekki, og að vísustu manna yfirsýn sé þetta samræmi ekki til staðar, hvar endar málið þá? Lendir það í stóra stoppi, munu menn freista þess að knýja á um það við einstök sveitarfélög að þau breyti aðalskipulagi sínu?

Nú vildi ég, hæstv. forseti, að hv. formaður nefndarinnar sem allt veit og allt kann, leggi við eyru. Nú er ég að ræða um hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson því hér er eins og ég sagði er um ákveðin lykilatriði að ræða en ég sé það á svipmóti nokkurra aðila hér að þeir eru ekki alveg vissir um það. Kunna ekki gjörla skil á því þótt hv. þm. Kristján Pálsson hafi farið hátt og mikinn um þessi efni og þóttist kunna á þeim skil. Þá er það bara þannig samkvæmt orðanna hljóðan og samkvæmt þeirri reynslu sem ég held að til að mynda að sveitarstjórnarmenn hafi í þessum efnum á þéttbýlissvæðum að þessi mál eru ekkert mjög einföld úrlausnar. Mér dettur ekki í hug að ætla að þau verði það þegar miklum mun fleiri sveitarfélög eiga aðild að málinu en við þekkjum t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu sem ég þekki kannski hvað best. Því er alveg einsýnt að úr þessu þarf að fást skorið. Hættan er sú hvort þessi stóra samvinnunefnd miðhálendis gæti hugsanlega lent mjög fljótlega í stóra stoppi vegna þess að í praktíkinni stæðu einstakar sveitarstjórnir sem eiga land að miðhálendinu og hafa klárað sitt aðalskipulag gegn því og vilji halda því fram að samræmis sé ekki gætt. Þetta er heildarmyndin sem blasti við okkur fyrir ári þegar við vorum að ræða þessi mál. Þetta er hætta sem enn þá er til staðar í þessum efnum í þeirri tillögu sem við ræðum hér því skylt er skeggið hökunni. Auðvitað vakna upp á nýjan leik við þessa umræðu ýmis grundvallarálitamál sem voru uppi fyrir réttu ári. Getur þetta gengið upp með viti bornum hætti eins og lagt var af stað með fyrir ári og reynt er að prjóna utan um í þessum skipulagstillögum? Ég hef verulegar efasemdir um það. Ég met vissulega tilraunir manna til að reyna að stagbæta þessa flík og gera hana þannig úr garði að hægt sé að lifa við hana og hægt að vinna út frá henni en ég hef efasemdir um að þau lög sem meiri hluti Alþingis afgreiddi í mikilli ósátt við stóran hóp þjóðarinnar fyrir réttu ári séu þess eðlis að hægt sé að gera þau skárri eða hægt sé að betrumbæta þau þótt menn fari í miklar tilraunir hvað varðar útfærslu skipulags- og byggingarmála. Ég hef verulegar efasemdir um það og mun koma að þeim hér á eftir.

Hitt er svo ljóst, virðulegi forseti, eins og hefur komið rækilega fram að umræðan er við ákaflega undarlegar aðstæður. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gerði því rækileg skil hér áðan og ég ætla ekki að endurtaka það sem hún sagði. Hitt er ljóst og fer um sali og ganga í þessu húsi, að forustumenn Sjálfstfl., annar samstarfsflokkur í ríkisstjórninni sem hyggur á landsfund á morgun, hafi það gjarnan á orði að ef menn hyggist ræða tiltekin mál meira en góðu hófi gegnir að þeirra mati, verði þeim málum einfaldlega stungið undir stól. Það er auðvitað ljóst, herra forseti, á setu ráðherra og viðveru þingmanna Sjálfstfl. að þeir eru þegar farnir að hugsa til annarra mála en þingstarfa. Það vekur sérstaklega athygli mína að eingöngu hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason situr undir þessari umræðu þótt hún heyri nú ekki beinlínis undir ráðuneyti hans. Skýringin kann að vera sú að hann tók þá ákvörðun að vera ekki með í stóra slagnum á landsfundi Sjálfstfl. og sagði sig frá honum af einhverjum ástæðum sem ég kann ekki að rekja og hirði ekki um í þessu samhengi. En það er umhugsunarefni, herra forseti, að þingstörf á síðustu dögum síðasta þings kjörtímabilsins skuli taka jafnmikið mið af einhverjum atburði sem er að gerast utan húss og úti í bæ á komandi helgi og að starfsemi þingsins líði fyrir það.

[18:00]

Ég tek eftir því að þannig hagar til á dagskránni að mörg mál sem enn eru óafgreidd, sum hver mjög mikilvæg og allgóð sátt um, eru einmitt á forræði ráðherra Framsfl. Þykir mér þá lítið leggjast fyrir samstarfsaðilann í ríkisstjórn, þá sjálfstæðismenn, þegar þeir hafa frumkvæði að því við stjórn þingsins og láta þau boð berast að ef stjórnarandstaðan geri ekki eins og Sjálfstfl. líki þá verði þessi mál sett í saltpækilinn.

Auðvitað hirðum við ekkert um hótanir, ég vil segja það, herra forseti, af þessum toga. Þær eiga ekkert við og ég læt þær sem vind um eyru þjóta. Þess vegna er það algerlega rangt sem menn hafa líka verið að hvísla hér að einhverjir tilteknir stjórnmálaflokkar eða þingflokkar á hinu háa Alþingi hafi tekið þetta tiltekna mál gíslingu og ætli að halda því í langri umræðu langt fram eftir kvöldi. Ég hef ekki heyrt neinn úr röðum stjórnarandstæðinga ræða þetta mál þannig.

Málið er hins vegar þannig vaxið að ekki er hægt annað en að gefa því dálítinn tíma og rúm. Það kemur eins og ég sagði í beinu framhaldi af og er nátengt þeim lögum sem samþykkt voru fyrir réttu ári síðan. Þá voru um þetta mjög heitar deilur og hafa verið allar götur síðan. Það hefur ekki farið fram hjá okkur þingmönnum að vikulega hafa listamenn þjóðarinnar framið gjörning á Austurvelli, lesið ljóð og haft uppi andóf gegn þeirri lagasetningu til að minna okkur á að miðhálendið og landið allt raunar er þegar allt kemur til alls sameign okkar allra. Hér er um stórmál að ræða.

Það fer ekkert hjá því að maður taki eftir því þegar þingmenn á borð við hv. þm. Kristján Pálsson tala að samviskan er aldeilis ekkert í góðu lagi. Hún er satt að segja afspyrnuslæm. Þingmaðurinn stóð í þessum ræðustól og hélt fimm eða tíu mínútna ræðu og rauði þráðurinn í henni var sá að hv. þm. reyndi að sannfæra sig um að víst væri nú að verða sátt um þetta mál. Fólk væri nú að fara að átta sig á því að þetta hefði kannski ekki verið jafnvitlaust og mikill meiri hluti þjóðarinnar áleit fyrir ári síðan. Það er auðvitað hans skoðun og hann má reyna að lappa upp á sjálfan sig og sitt eigið sálartetur á þennan hátt.

En auðvitað skynjar hann það og finnur, t.d. í sínu kjördæmi sem er raunar sama kjördæmi og ég gegni fyrir, að það er langt í frá nokkur sátt um það að Reyknesingar hafi í raun litla sem enga aðkomu að miðhálendinu. Ég segi litla. Að vísu er veikburða reynt að koma að einhverju leyti til móts við þá. En það er einber sýndarmennska þegar menn horfa á hið stóra dæmi sem afgreitt var hér í fyrra. Ég hef því fullan skilning á því að hv. þm. og öðrum stjórnarliðum í R-kjördæmunum líði býsna illa þegar fyrrum kjósendur þeirra hafa uppi orð í þá veru að þeir kunni því ekki þegar þessir hv. þm. með einu pennastriki og með því að ýta á græna hnappa trekk í trekk í atkvæðagreiðslu ýti hagsmunum þeirra fyrir borð og segi: ,,Ykkur kemur það satt að segja lítið sem ekkert við hvað verður um miðhálendið.`` Ég hef allan skilning á því að hv. þingmönnum stjórnarflokkanna í þéttbýlinu líði illa.

Herra forseti. Ég neita algerlega þeirri nálgun máls sem ég hygg að hafi til orðið af hálfu stjórnarliða, af hálfu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna, að stilla þessu mikilvæga máli, eignarhaldi, umráðum, skipulagsyfirvaldi o.s.frv. á miðhálendinu, upp sem einhvers konar hatrammri deilu milli íbúa suðvesturhornsins og annarra íbúa þessarar þjóðar. Þannig er það ekki og þannig á það ekki að vera. Kjarni málsins í málflutningi okkar hér fyrir ári var að ganga þannig frá málum að við settum þetta mál ekki í þann farveg. Nóg er nú samt í þeim efnum og mætti tíunda fjölmörg dæmi eingöngu á yfirstandandi kjörtímabili um hvernig ríkisstjórnarflokkunum hefur gjörsamlega misheppnast að skapa þjóðarsátt milli þáttbýlis og dreifbýlis og tiltölulega gott jafnvægi í þeim efnum hvað varðar þjónustu, efnahag, samgöngur og fleira. Í því samhengi er satt að segja grátbroslegt að fylgjast með því að á sama tíma og Alþingi Íslendinga er að afgreiða ný lög --- ég vil segja nánast í tugatali á þessum síðustu dögum þingsins --- þá sinna ríkisstjórnin og ráðherrar þessarar ríkisstjórnar þinginu lítið sem ekkert. Þeir hafa stundum gert lítið af því hvort eð er. Þeir taka hinar stóru ákvarðanir á sínum kontórum.

Það vakti til að mynda sérstaka athygli mína í því samhengi hvernig komið er fyrir virðingu þingsins að hæstv. menntmrh. fór mikinn í þessum ræðustól í sjónvarpsumræðum á dögunum, kvartaði og kveinaði yfir því að tilteknir stjórnmálaflokkar, þar á meðal Samfylkingin, væru að lofa öllum allt. Það leið varla nóttin þar til hann mætti á enn einn blaðamannafundinn og jós úr skálum gjafmildinnar og hækkaði hlutfall lána til stúdenta í landinu. Ég veit ekki hvort hann hafi lagt þau mál fyrir stuðningsmenn sína í ríkisstjórnarflokkunum. Ég kann ekki á það. En mikið ósköp virkaði þetta nú ótrúverðugt allt saman hjá þessum manni.

Síðan tekur maður eftir því að það er fyrir tilverknað stjórnarandstöðunnar sem loksins eru að verða til handfastar tillögur í byggðamálum tveimur mánuðum fyrir kosningar. Ég segi og skrifa, tveimur mánuðum fyrir kosningar. Við höfum horft upp á það og fylgst með því hvernig öfugþróunin hefur orðið á þessu kjörtímabili í fólksflutningum frá dreifðari byggðum hingað á suðvesturhornið. Allt er á einn veginn og gjaldþrot byggðastefnu ríkisstjórnarinnar hefur verið algert. Svo er það loksins að tillögu fjölskipaðrar nefndar, skipaðri fulltrúum allra stjórnmálaflokka, sem varð raunar til upp úr kjördæmanefnd allra stjórnmálaflokkanna, að fram kemur núna tveim mánuðum fyrir kosningar eitthvað sem handfesta er í. Í þessum efnum þurfti því stjórnarandstöðuna til til að sýna fram á eitthvað áþreifanlegt.

En það vekur jafnmikla athygli að þessi mál fást ekki rædd hér eins og eðlilegt væri. Af hverju er ég að blanda þessum málum beinlínis inn í skipulags- og byggingarmál? Jú, auðvitað eru þau að mörgu leyti skyld pólitískt. Þau eru skyld í því andrúmslofti sem ég er hér að reyna að lýsa og benda á. Kringumstæður núna á síðustu dögum þingsins eru ákaflega undarlegar og maður finnur það á andrúmslofti í þessu húsi og utan húss líka að taugatitringurinn og kosningaskrekkurinn í stjórnarliðinu er slíkur að hann er nánast áþreifanlegur. Hann nánast hrópar í þögninni.

Í hverju málinu á fætur öðru er það þannig að þingmenn Framsfl. annars vegar og raunar Sjálfstfl. sömuleiðis skynja og finna á fólki að ekki er allt með felldu þegar kemur að samskiptum stjórnar og almennings. Nákvæmlega það á við í því máli sem við ræðum hér, þ.e. sú ,,forakt``, vil ég segja, það virðingarleysi gagnvart viðhorfi fólks sem tekur sig upp aftur og aftur ítrekað. Það á bara að keyra áfram hvað sem tautar og raular.

Ég hafði satt að segja vonast til þess að þegar menn skynjuðu alvöru lífsins, áttuðu sig á því að þjóðin kveður upp sinn dóm núna á vordögum, þá mundu menn á síðasta sprettinum a.m.k. reyna að koma til móts við þjóðarviljann, reyna að ná sátt við þjóð sína. En það ber allt of lítið á því, herra forseti, því er nú verr og miður, í því frv. sem við ræðum hér.

Auðvitað geta menn haldið langar ræður um að í þessari stóru og miklu samvinnunefnd sé reynt að kalla fjölmarga aðila að og að margir geti komið þarna að máli. En hugmyndafræðin gengur ekki upp og það er kjarni málsins. Þetta verður í fyrsta lagi feikilega þungt í vöfum, jafnvel svo þungt í vöfum að ég hef áhyggjur af því að dæmið gangi upp, að við sjáum nokkurt vitrænt, yfirvegað svæðisskipulag sem nokkur sátt getur náðst um.

Vissulega má deila um hvort það sé afspyrnusnjöll og sniðug hugmynd sem við samfylkingarmenn höfum verið að viðra um að skipulagsmálin beint eða óbeint verði færð inn í þingsali. Ég þekki það vel úr mínu fyrra starfi að skipulagsmál eru ekkert mjög einföld í sniðum og það hafa allir skoðanir á þeim, gjarnan mjög misvísandi skoðanir. Kannski er það algerlega óvinnandi vegur að Alþingi komi beint að því máli. En þetta er djarfhuga hugmynd og fullkomlega þess virði að hún sé rædd því að ég held að við eigum að skoða allar hugmyndir við þessar aðstæður, því að sú sem fyrir liggur er tæpast nothæf.

Herra forseti. Það vekur alveg sérstaka athygli að óháðir, eins og þeir kalla sig nú um stundir, eða rauðgrænir, hafa skipað sér í sveit með ríkisstjórnarflokkunum í þessu efni. Alveg sérstaklega vakti það athygli mína að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem stundum í þessum ræðustól telur sig vita flest ef ekki allt þegar kemur að málefnum miðhálendisins svo ég tali nú ekki um skipulags- og byggingarmál, hafði miklar áhyggjur af því að viðhorf Samfylkingar væru í ætt við tæknihyggju. Ég gat ekki stillt mig, herra forseti, úti í sal að hugsa með sjálfum mér: Margur heldur mig sig, því að engan þekki ég þingmann annan sem er jafnheltekinn af tæknihyggjunni og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Það var satt að segja ákaflega sérkennilegt að fylgjast með orðræðu hans í þessum efnum.

Ég hef tekið eftir að rauður þráður í ræðum hans um þetta mál í allan dag hefur verið að hann treysti fjölmörgum sveitarstjórnum betur til að gæta að grundvallaratriðum umhverfisverndar en einhverjum kontóristum í Reykjavík. Ég veit hins vegar ekki betur en að þessi sami hv. þm. hafi einmitt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar kannski leitað á náðir þessara sömu kontórista. Það ætti hæstv. umhvrh. best að vita. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur einmitt leitað á náðir kontóristanna, hvort sem það er í Hollustuvernd eða annars staðar, til þess að leita réttar síns og ekkert er nema gott um það að segja.

Hún er því ákaflega sérstök og verður skráð hér sú afstaða rauðgrænna í þessu stóra máli að þeir vilja ekki búa þarna tryggilega um hnúta, hnúta umhverfisverndar og eðlilegs aðgengis almennings að þeirri perlu sem miðhálendið er, heldur hafa ákveðið að fylkja sér í flokk stjórnarliða sem leggja, því miður, upp með þá teoríu að stilla þéttbýli og dreifbýli upp sem andstæðum pólum. Það er pólitík sem mér er ekki að skapi og því verður það að vera ábyrgð þessarar ríkisstjórnar, þeirra stjórnarliða, að leiða mál þannig til lykta. Ekki ætla ég að koma í veg fyrir það. Það er þeirra lýðræðislegi réttur. En sá réttur kjósenda er hins vegar líka jafnsterkur og kýrskýr að kveða upp dóm sinn yfir þeim ágætu stjórnarliðum vegna þess gjörnings og annarra sem þeir hafa staðið fyrir á yfirstandandi kjörtímabili og bera ábyrgð á. Dómur kjósenda er óhjákvæmilegur og fellur þann 8. maí næstkomandi. Undan honum verður ekki vikist.