Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 19:01:14 (4743)

1999-03-10 19:01:14# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[19:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Skilningur minn er nákvæmlega hinn sami og hæstv. umhvrh. Ég tel að samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi, að þeim breyttum samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja fyrir, þá beri aðalskipulagið hinn hærri hlut ef ágreiningur er milli þess og svæðisskipulags. Það er klárt og það hefur verið rauður þráður í skipulagsvinnunni.

En sú staðreynd liggur eigi að síður fyrir að hv. þm. Kristján Pálsson er annarrar skoðunar. Og hvaða máli skiptir það þó að einn þingmaður kunni að vera annarrar skoðunar en hæstv. ráðherra? Það skiptir öllu máli vegna þess að þetta er skilningur eins þeirra manna sem mynda meiri hlutann við að afgreiða þetta mál.

Hv. þm. Kristján Pálsson þrítók það hér í dag að hann teldi að svæðisskipulagið væri æðra aðalskipulaginu og sveitarfélögin þyrftu að lúta vilja svæðiskipulagsins og það sagði hv. þm. að tryggði samræmið á miðhálendinu. Ég er þeirrar skoðunar að það væri æskilegt. En það er ekki svoleiðis samkvæmt gildandi lögum.

Þá blasir það við, herra forseti, að þetta frv. hefur verið afgreitt frá umhvn. á röngum forsendum. Það er grundvallarágreiningur uppi milli a.m.k. eins þingmanns Sjálfstfl. og þingmanna Framsfl. Ég gef mér að þeir styðji þennan skilning hæstv. umhvrh., sem ég tel reyndar að sé hinn rétti.

Því liggur það fyrir að þingmenn Sjálfstfl. hafa tekið þátt í að afgreiða þetta mikilvæga mál án þess að vita hvað í því felst. Og það kallar auðvitað á miklu frekari og meiri umræðu hér, herra forseti, og ég tel að fresta þurfi þessu máli og ræða það aftur í umhvn. áður en að það er afgreitt.

Að lokum, herra forseti. Hæstv. umhvrh. sagði: Ef svona ágreiningur kemur upp hlýtur það að vera umhvrh. að skera úr um. Ég spyr hæstv. ráðherra: Með vísan til hvaða greina skipulagslaganna eða greina í þessum brtt. ætlar hann sem umhvrh. að skera úr um slíkan ágreining? Ég dreg í efa að hann hafi lagaleg færi til þess.