Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 19:27:22 (4745)

1999-03-10 19:27:22# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[19:27]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vegna fyrirspurnar hv. þm. Hann rekur söguna mjög ítarlega og rétt. Ég get staðfest það sem hann hafði um orðaskipti okkar um málið í fyrra. Svipuð orðaskipti áttu sér stað við hv. þingmenn líka þegar ég mælti fyrir frv. á dögunum. En þá var líka gert ráð fyrir því að hin nýja samvinnunefnd fengi aðgang að þeirri skipulagstillögu sem liggur nú fyrir frá samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins sem lauk sínum störfum í desember á síðasta ári samkvæmt því umboði sem hún hafði og skilaði tillögum sínum til Skipulagsstofnunar. Þar hafa þær tillögur beðið eftir því hvaða framgang eða hvort frv. sem er nú til umræðu fengi framgang yfir höfuð.

Nú hefur hins vegar meiri hluti umhvn. lagt til að það verði fellt niður og ekki er gert ráð fyrir því að hin nýja nefnd komi sérstaklega að því mikla verki sem búið er að vinna við gerð svæðisskipulags miðhálendisins. Ég undirstrika það því stundum er talað eins og þar sé eitthvert verk nú að hefjast eða að eitthvert verk hafi ekki verið unnið nægjanlega vel. Það verk hefur verið í vinnslu í mörg ár. Ég vil undirstrika það, hæstv. forseti.

Það er sem sagt búið að vinna það mál. Sú tillaga liggur fyrir. Hún hefur farið til umsagnar. Hún hefur verið auglýst og ótal athugasemdir hafa komið við hana sem samstarfsnefnd um svæðisskipulag miðhálendis tók til skoðunar og umfjöllunar, gerði breytingar á og tók tillit til þeirra að einhverju leyti. Hún er sem sagt með endanlega tillögu sína núna frágengna.

Ég álít sem svar við spurningu hv. þm. að sú ákvörðun að taka það hér út úr frv. að nefndin skuli koma að málinu sé upplýsing til ráðherrans um að hann geti staðfest hina fyrirliggjandi skipulagstillögu, sýnist honum svo.

Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það því hv. þm. spurði hvort ég ætlaði að gera það. Ég veit náttúrlega ekki hvað næsti umhvrh. kann að gera. Hann spurði hvort ég mundi gera það, kannski á morgun, strax að þessari umræðu lokinni eða þessari afgreiðslu lokinni. Ég hef ekki tekið ákvörðun um það af því að þetta er breyting á því ferli sem ég hafði áður hugsað.