Umræður um sjávarútvegsmál

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 20:34:23 (4753)

1999-03-10 20:34:23# 123. lþ. 84.92 fundur 350#B umræður um sjávarútvegsmál# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[20:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þannig háttar til að fyrir tveimur dögum kom ég að máli við stjórn þingsins og fór fram á umræðu utan dagskrár um sjávarútvegsmál, tiltekna þætti sjávarútvegsmála, þ.e. um viðskilnað hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans við þau mál. Nokkrum dögum áður átti ég orðastað við hæstv. sjútvrh. og spurði hvað liði athugun á vanda smábáta sem róa á svonefndum dagatakmörkunum. Ég spurði eftir þeim erindum sem borist hafa, bæði sjútvn. og að ég hélt einnig sjútvrn., vegna vanda þeirra sjómanna, einkum í ljósi þeirrar afgreiðslu sem þeir fengu í lagasetningu í janúar sl. í tengslum við svonefndan kvótadóm Hæstaréttar.

Forseti hefur færst mjög undan því að slík utandagskrárumræða fari fram þó ég sé að vísu ekki að öllu leyti sáttur við það. Ég minni á að það er réttur þingmanna, að taka upp mál utan dagskrár í allt að hálfa klukkustund á hverjum fundi, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Ég sætti mig við það og einkum í ljósi þess annríkis sem hér er og vil ekki verða til þess að tefja fyrir þingstörfum.

En ég uni því hins vegar illa, herra forseti, að ekki fáist a.m.k. einhver svör um hvort og þá hvað verði aðhafst varðandi þetta mál og hvenær sjá megi afrakstur þeirrar vinnu sem unnin hefur verið í sjútvn. og lengi vel stóð til, að ég hélt, að hlyti hér afgreiðslu, jafnvel í samkomulagi.

Mér er ljóst að hæstv. sjútvrh. er erlendis, enda lítil svör þaðan að hafa ef marka má reynsluna. Satt að segja var viljaleysi hæstv. sjútvrh., þegar við ræddum þessi mál hér á dögunum, átakanlegt. Í ljósi þess að starfandi sjútvrh. er hæstv. menntrh. geri ég ekki kröfu til þess að sá hæstv. ráðherra svari efnislega fyrir sjútvrh. Mér er ljóst að það er ekki að öllu leyti sanngjarnt að gera slíka kröfu.

En, herra forseti, fari svo að ekki fáist afgreiðsla á þessu máli og fram komi tillögur um lagfærðingar, a.m.k. á verstu ágöllunum á þeirri löggjöf sem hér var afgreidd í janúar, þá mótmæli ég því, þeirri niðurstöðu og viðskilnaði hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans við þetta mál.

Sé hins vegar von til þess að samkomulag takist um slíkar breytingar þá vil ég að sjálfsögðu leggja mitt af mörkum til að þær nái fram að ganga.