Umræður um sjávarútvegsmál

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 20:45:58 (4759)

1999-03-10 20:45:58# 123. lþ. 84.92 fundur 350#B umræður um sjávarútvegsmál# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[20:45]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég held að rétt sé að fram komi að enda þótt einhverjum sé umhugað um að ljúka þinginu um hádegi á morgun þá er líka stór hópur fólks tilbúinn til þess að vera hér mun lengur til að ræða m.a. þau mál sem fitjað hefur verið upp á.

Í janúar var hér umræða og lög afgreidd sem sneru að fiskveiðum. Það er alveg ljóst undir hvaða formerkjum sú umræða fór fram. Frv. sem þá var afgreitt var fyrst og fremst svar við hinum svokallaða kvótadómi. Það var þó þannig að um leið og meiri hlutinn á Alþingi var að reyna að svara kvótadóminum voru afgreiddar viðamiklar breytingar sem lutu að smábátaflotanum.

Við vöruðum við því þá að með þeim hraða sem var á umræðunni og með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru í nefndinni mundi sú vinna koma í hausinn á okkur aftur. En meirihlutamenn voru býsna státnir þá og keyrðu málið --- mér liggur við að segja af offorsi í gegn.

Það er hins vegar ljóst, herra forseti, að staða mála nú er sú að svo sannarlega þyrfti að ræða stöðu smábátanna hér á Alþingi. Það væri gott að fram kæmi hvaða tillögur og hugmyndir menn hafa gagnvart þeim málum, hvað menn eru tilbúnir til að gera og hvað ekki, þannig að það færi ekki á milli mála. Og það væri líka nauðsynlegt, herra forseti, að þær hugmyndir sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur reifað og lagt fram frv. um fengju góða og ítarlega umræðu.

Ég tel mikilvægt, herra forseti, að viðhorf til þessara mála liggi alveg skýr fyrir í þinglok. Ég styð þá beiðni sem hér hefur komið fram um utandagskrárumræðu um þessi mál og ég vænti þess að við henni verði orðið. Það stendur ekki á stjórnarandstöðunni að vera hér lengur á morgun og enn lengur ef á þarf að halda til að ræða þessi mál.