Umræður um sjávarútvegsmál

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 20:48:28 (4760)

1999-03-10 20:48:28# 123. lþ. 84.92 fundur 350#B umræður um sjávarútvegsmál# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[20:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér finnst ekki hægt að skilja við þetta mál öðruvísi en (EgJ: Ætlarðu að fara að rífast enn?) að fram komi af hverju hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fær ekki svar við kröfum sínum um utandagskrárumræðu um þetta efni. Er það vegna þess að hæstv. forseti finnur ekki tíma fyrir það eða er það vegna þess að hæstv. starfandi sjútvrh. synjar umræðunum?

Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að fram komi hvað það er sem veldur þessu. Ef hæstv. forseti telur að vegna anna þingsins sé ekki tími til að ræða þetta, þá vil ég upplýsa að ég er á mælendaskrá um mál sem er til umræðu á eftir, skipulags- og byggingarlög, og hafði ég hugsað mér að flytja um það þriggja stundarfjórðunga ræðu. Herra forseti, til samkomulags um þetta lýsi ég því yfir að ég er reiðubúinn til að falla frá orðinu í þeirri umræðu og þá getum við haft þessa hálftíma umræðu og hæstv. forseti vinnur meira að segja einn stundarfjórðung. Er þetta ekki dálítið gott tilboð, hæstv. forseti, sem hægt er að fallast í því ljósi að nauðsynlegt er að fá þetta mál til umræðu áður en þingið fer heim?

Mér þætti vænt um ef hæstv. forseti mundi taka afstöðu til þessa góða boðs frá mér, sem mundi óneitanlega greiða talsvert fyrir þingstörfum.