Lífeyrissjóður sjómanna

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:09:21 (4766)

1999-03-10 21:09:21# 123. lþ. 84.12 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv. 45/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í tilefni af þessari afgreiðslu málsins.

Við 1. umr. um þetta mál sagði ég óhjákvæmilegt að fara vandlega yfir vanda sjóðsins og greina hann niður, annars vegar í hreina og klára umframtryggingu réttinda eða réttindi umfram það sem iðgjöld stæðu undir, þ.e. að sjóðurinn yrði réttur af. Hins vegar þurfti að finna út að hve miklu leyti vandi sjóðsins stafaði af hinni svonefndu 60 ára lífeyrisaldurstökureglu frá sínum tíma og hver ábyrgð stjórnvalda væri í því sambandi. Sú regla var lögfest sem hluti af þríhliða niðurstöðu kjarasamninga á sínum tíma.

Málin hafa skýrst að því leyti að gögn komu fram í efh.- og viðskn. sem sundurgreina þennan vanda. Fyrir liggur að um 1,3 milljarða kr. stafa af þessari sérstöku reglu og skapar það Lífeyrissjóði sjómanna umtalsverða sérstöðu, a.m.k. hvað þetta varðar.

Nú hefur hæstv. fjmrh. gefið yfirlýsingu sem gengur út á hvort tveggja í senn, að viðurkenna vanda sjóðsins og fallast á að ganga til viðræðna við hagsmunaaðila sjóðsins um þetta mál. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að reyna að túlka yfirlýsingu hæstv. fjmrh. hér eða gefa í skyn að hún sé annað og meira en hún er. Hún er án skuldbindinga og gefur hvorki loforð né fyrirheit um beina þátttöku ríkisins. Hún er þó viðurkenning á því að eðlilegt sé að stjórnvöld skoði þennan vanda og þau beri þar ábyrgð. Því hygg ég að verði ekki á móti mælt. Ég fagna þessu og treysti hæstv. fjmrh. til að fara af alúð yfir málið og setjast að alvöruviðræðum um þennan vanda.

Ég fagna því einnig að hér er flutt brtt. um að sólarlagsákvæði eða takmarkaður gildistími laganna falli út. Ég hafði miklar efasemdir og hef enn um að skynsamlegt sé að fella úr gildi sérlög um Lífeyrissjóð sjómanna. Þar kemur ýmislegt til. Því verður ekki á móti mælt að aðstæður í þessum sjóði eru nokkuð sérstakar, saga hans er sérstök og lífeyrisréttindi sjómanna eru nokkuð sérstakt mál. Ég hef þá tilfinningu, herra forseti, að hyggilegt sé að láta sérlög gilda um þennan lífeyrissjóð um eitthvert árabil og ekki sé óeðlilegt að aðilar reyni að koma sameiginlega að vanda hans, bæði aðilar vinnumarkaðarins og ríkisvaldið.

Ég minni á að þó að Lífeyrissjóður sjómanna verði að sjálfsögðu að eiga fyrir réttindum, sem hann skapar eins og aðrir sjóðir og ekki um annað að ræða í framtíðinni en að hann uppfylli kröfur um fjárhag miðað við réttindi sjóðfélaga, þá er kannski óvíða sárara ef grípa þarf til umtalsverðra skerðinga á réttindunum en í þessu tilviki.

Í því sambandi nefni ég sérstaklega örorkuna. Sjómennskan er hættulegasta starf í landinu, þar eru slys og örorka tíðari en hjá flestum, ef ekki öllum öðrum stéttum. Þar af leiðandi eru þau réttindi kannski verðmætari fyrir sjómenn, í áhættusömum störfum, heldur en flesta aðra.

Einnig er það svo, herra forseti, að það er dapurlegt að ekki skuli vera hægt að halda uppi 60 ára lífeyristökualdursreglu án nokkurrar skerðingar á þeim lífeyriréttindum sem sjómenn hafa eftir það. Á því leikur enginn vafi að menn sem byrja ungir til sjós hafa lagt sitt af mörkum og meira en það og eiga fyllilega skilið að komast í land þegar þeir hafa náð 60 ára aldri. Það er dapurlegt að menn skuli hafa þurft að hörfa frá upphaflegum áformum um eiginlegan 60 ára lífeyristökualdur, yfir í að það sé á kostnað sjómanna sjálfra og réttinda þeirra hjá sjóðnum ef þeir nýta sér núgildandi ákvæði um að hefja lífeyristöku við þau aldursmörk.

Sem sagt, herra forseti, þær breytingar sem hér hafa náðst fram eru þó jákvæðar og í rétta átt. Ég fagna því og fell frá andstöðu minni við málið. Ég mun sitja hjá við afgreiðslu þess og ekki tefja för þess í gegnum þingið frekar en orðið er.