Lífeyrissjóður sjómanna

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:14:26 (4767)

1999-03-10 21:14:26# 123. lþ. 84.12 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv. 45/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:14]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði sérstaklega slæmt fyrir sjómenn að lúta skerðingu. Nú er það svo að frá 1974 og sérstaklega frá 1980 hafa allir launþegar verið skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð. Sumir hafa orðið fyrir því að lífeyrissjóðir þeirra hafa orðið gjaldþrota. Þeir hafa tapað öllum réttindum. Aðrir hafa orðið fyrir því að réttindi þeirra væru skert um 50%. Telur hv. þm. að þetta fólk þoli betur að réttindi þeirra séu skert en sjómenn sem skerða á hjá um 10 eða 12%? Þoldi þetta fólk skerðinguna betur en sjómenn?

Telur hv. þm. að hægt sé að segja slíkt við þá sem tapað hafa öllum sínum réttindum eða helmingi þeirra, að það skipti ekki máli?