Almannatryggingar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:39:56 (4777)

1999-03-10 21:39:56# 123. lþ. 84.20 fundur 520. mál: #A almannatryggingar# (örorkumat) frv. 62/1999, GHelg
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:39]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Það er erfitt að koma að máli á síðustu stundu þegar það er komið til afgreiðslu. Ég geri mér ljóst að ég hef sennilega ekki mikil áhrif á gang þess, en vegna síðari tíma ætla ég að leyfa mér að láta skrá skoðun mína á þessu máli í þingtíðindi vegna þess að ég hef töluverðar áhyggjur af því.

Mér er alveg ljóst að Öryrkjabandalagið hefur ályktað um þetta gegnum árin og ég hef haft samband við aðila þar. Mér er ekki alveg grunlaust um að menn séu farnir aðeins að efast um réttmæti áhugans á þessu máli.

Hér er verið að breyta því ákvæði sem hefur verið í 12. gr. almannatryggingalaga frá fyrstu byrjun, sem mér hefur alltaf fundist harla skynsamlegt. Það er ákvæðið í b-lið 12. gr. þar sem segir svo um þá sem eiga rétt á 75% örorku, með leyfi forseta:

,,eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn 1/4 þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa.``

Þetta er nefnilega harla skynsamlegt því að örorka eins er ekki endilega sú sama og örorka annars þó fötlunin eða sjúkdómurinn sé svipaður. Það er mikill munur á því að sjómaður sem aldrei hefur unnið við önnur störf missi handlegg eða fót eða skrifstofumaður sem getur unnið sömu vinnu og hann hefur gert, þrátt fyrir fötlun sína. Auðvitað er engin ástæða til að greiða þeim örorkulífeyri og örorkubætur sem eru fullfærir um að afla svipaðra tekna og þeir hafa haft.

Það er annað sem ég er hrædd við og það er þar sem talað er um hvernig nú skuli meta þetta, þ.e. eins og það hljóðar nú í hinu nýja frv., þar sem talað er um að liðurinn orðist svo, með leyfi forseta:

,,Tryggingayfirlæknir metur örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt staðli sem læknadeild Tryggingastofnunar ríkisins semur ...`` o.s.frv.

Nú er mér fullljóst að slíkir staðlar eru til og sérstaklega hafa þeir verið sóttir til Ameríku. Missir handar er þannig ákveðin örorka, missir fótar er einhver staðall o.s.frv. Það sem ég er hrædd við, hv. þingmenn og hæstv. forseti, er að fötlunin og sjúkdómurinn þurfi að vera mjög sýnilegur. Ég er hrædd um þá sem eru með sjúkdóma sem ekki eru svo auðsýnilegir hverjum sem er, að ég nú ekki tali um andlega sjúkdóma. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt á endanum að taka tillit til félagslega þáttarins í möguleika hverrar manneskju til að komast af. Hugmyndin með örorkubótum er auðvitað að gera öllum bærilegt að lifa eins og aðrir í samfélaginu þrátt fyrir fötlun, hversu illileg sem hún kann að vera.

Það hefur óneitanlega verið tilhneiging til þess að skera niður í öllu heilbrigðiskerfinu. Það er sí og æ verið að leita leiða til þess að minnka útgjöld hins opinbera til þessara mála, og það á sama tíma og ekki líður svo kvöld að við heyrum ekki um hundruð milljóna gróða hinna ýmsu stórfyrirtækja landsins og menn vita ekki hvað þeir eiga við hann að gera.

Ég ber því ugg í brjósti fyrir þessari breytingu og ætla ekki að draga dul á það. Nú er mér ljóst að hæstv. forseti óskar sjálfsagt ekki eftir löngum umræðum um þetta og ég skal virða það. Þó hlýt ég að geta þess að í hinu nýja frv. er minnst á 8. gr. laga um félagslega aðstoð og talað um að menn geti fengið endurhæfingarlífeyri o.s.frv. á meðan verið er að þjálfa þann sem slasast eða veikst hefur út á vinnumarkaðinn.

Þegar hv. fyrrv. þm. Matthías Bjarnason beitti sér fyrir því að endurhæfingarlífeyrir yrði til, sem er tiltölulega nýtt fyrirbæri í tryggingalöggjöfinni, þá var það satt að segja til að áfmá þá smán og skömm sem ríkt hefur um árabil og ríkir enn í því að sjúkradagpeningar, sem eru það eina sem fólk fær sem veikist eða slasast og ekki er slysatryggt, eru svo lágir að ekki nokkur maður getur lifað af þeim.

[21:45]

Þess vegna var það samþykkt sem lög að til kæmi hugsanlegur endurhæfingarlífeyrir en skýrt er tekið fram í lögum að hann sé aldrei greiddur nema í 18 mánuði. Ég er ekki alveg búin að sjá að auðvelt sé að endurhæfa manneskju á 18 mánuðum til þess að koma henni aftur út á vinnumarkaðinn í öllum tilvikum.

Auðvitað er galli þegar verið er að breyta löggjöf eins og tryggingalöggjöfinni að verið er að ræða tvö frumvörp, næsta mál á dagskrá líka. Maður gæti spurt sig hvers vegna í ósköpunum kemur þetta ekki í einu þingskjali því auðvitað er þetta nátengt. Það pínir mig, hæstv. forseti, til að taka aftur til máls í því máli því að þetta hangir saman en ég skal ekki eyða tíma í að skýra það að þessu sinni. Til þess að endurhæfing þjóni því sem hún á að þjóna þarf mikla peninga og margt starfsfólk. Haldi menn að það sé sparnaður að því að nýta þá leið held ég að það sé mikill misskilningur enda á ég eftir að sjá að það verði gert mikið átak í því. Ég veit ekki til að í það sé lofað einni einustu krónu og frekar verið að reyna að draga úr endurhæfingu en hitt.

Ég er þess vegna hrædd um að margt fólk verði afar illa úti og ekki síst t.d. ungt fólk --- og við höfum rekist illilega á það í tryggingaráði --- sem verður fyrir alvarlegum slysum eða veikindum og ætlar að reyna að fara í nám og auka menntun sína til að gera lífsafkomulíkur sínar betri. Þetta er afar erfitt vegna þess að endurhæfingarlífeyririnn endist þeim ekki, hann rennur út. Það er ekki endilega víst að manneskjan fái þá framfærslu á meðan því til þess þarf hún að vera metin með 75% örorku.

Ég er því dauðhrædd um að þetta sé afskaplega óundirbyggt og illa undirbúið. Ég veit hvað vakti fyrir Öryrkjabandalaginu sem er það að þeim hefur auðvitað oft sárnað að um leið og skjólstæðingar þeirra hafa getað farið að vinna eitthvað er ráðist að örorkubótunum og einkum og sér í lagi eftir að tekið var upp á því að skerða sjálfan lífeyrinn sem engum manni hafði dottið í hug fyrr en sósíaldemókrötum ársins 1992 enda þótt hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir tali eins og hún hafi aldrei komið þar nálægt. En það er önnur saga. Í mörgum tilvikum missir fólk allt ef það fer eitthvað að vinna þó það sé metið 75% öryrkjar. Þar með alls konar hlunnindi sem allir eiga auðvitað að fá sem eru illa fatlaðir, það eru svokölluð lyfjakort og hvað það nú allt saman heitir. Þetta er auðvitað hægt að hafa þó ekki sé verið að breyta sjálfu örorkumatinu.

Nú skal ég ekki orðlengja um þetta. Ég held að það hafi verið þetta sem Öryrkjabandalagið var að horfa í, að menn misstu ekki þessi aukahlunnindi og hafi þess vegna talið að betra væri að hafa þetta hreina læknisfræðilegt mat. Ég hef bara, hæstv. forseti, ekki trú á því að það sé til neitt sem heitir hreint læknisfræðilegt mat og verð ég nú kannski feimin þegar ég horfi framan í virtan heimilislækni í bænum, hv. þm. Katrínu Fjeldsted. Auðvitað er hver manneskja búin ólíkum möguleikum til að sjá fyrir sér og sínum með þann erfiða kross á herðunum að vera fatlaður eða veikur. Ég skal ljúka máli mínu að þessu sinni, hæstv. forseti.