Almannatryggingar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:49:58 (4778)

1999-03-10 21:49:58# 123. lþ. 84.20 fundur 520. mál: #A almannatryggingar# (örorkumat) frv. 62/1999, Frsm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:49]

Frsm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. kom mér verulega á óvart. Hún hlýtur að vera eina manneksjan á Íslandi sem ég hef a.m.k. hitt enn þá sem telur að óæskilegt sé að beita hreinu læknisfræðilegu mati. Ég veit ekki betur en að það hafi mjög lengi verið keppikefli Öryrkjabandalagsins að ná þeim árangri.

Ég held líka að sumt af því sem hv. þm. sagði kunni að stafa af því að um einhvern misskilning sé að ræða, þó að mér ói við því að segja að þessi hv. þm., sem hefur lengi komið að málefnum Tryggingastofnunar, þekki þetta ekki út í hörgul.

Eigi að síður er það þannig, herra forseti, að hér er um það að ræða að leggja af þá aðferð sem menn notuðu áður að ef menn gátu unnið og unnu sér inn ákveðna fjárhæð var skattskýrslunni í rauninni beitt til þess að meta menn niður. Það leiddi til þess að þeir fengu ekki örorkuskírteini með öllum þeim ívilnunum sem því fylgir. Þetta hefur verið baráttumál Öryrkjabandalagsins mjög lengi og þeir tóku þessu mjög fagnandi í samræðum við nefndina og lögðu kapp á að þetta yrði samþykkt.

Varðandi staðalinn sem hv. þm. gerði að umræðuefni skil ég vel áhyggjur hennar um það efni. Okkur var sagt í nokkru máli frá því hvernig þessi staðall á að vera. Hann byggir að verulegu leyti á sjálfsmati, þ.e. menn útfylla eyðublöð og greina sjálfir eigið mat og þetta byggir á breskri fyrirmynd. Á þetta hlýtur að koma einhvers konar reynsla og hún verður að slípa af agnúana.

Ég deili hins vegar með hv. þm. áhyggjum hennar varðandi tímalengd endurhæfingarlífeyrisins en vek athygli á því að þetta var mál sem við ræddum í nefndinni og innan nefndarinnar er fullur skilningur og af hálfu Tryggingastofnunar og heilbrrn. að endurskoða lögin með tilliti til þess. Við stóðum frammi fyrir því, herra forseti, að láta þetta mál liggja og koma í veg fyrir að það næði samþykkt og þá yrði það andstætt öryrkjum, hagsmunaaðilunum, eða að bíða eftir því að hægt væri að ljúka þessum breytingum varðandi endurhæfingarlífeyrinn.