Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:09:12 (4786)

1999-03-10 22:09:12# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, Frsm. meiri hluta SF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:09]

Frsm. meiri hluta (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta heilbr.- og trn. á þskj. 1056 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og um breytingu á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sérstök úrskurðarnefnd almannatrygginga er skeri úr um réttindi einstaklinga í málum þar sem deilt er um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta og að hlutverk tryggingaráðs verði þrengt frá því sem nú er. Þá eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð, einkum hvað varðar skilyrði um lögheimili.

Meiri hluti heilbr.- og trn. telur ákvæði frumvarpsins um sérstaka óháða úrskurðarnefnd fela í sér verulegar réttarbætur fyrir skjólstæðinga Tryggingastofnunar ríkisins. Ákvæði frumvarpsins um skipun í nefndina hafa verið gangrýnd töluvert og telur meiri hlutinn rétt að breyta þeim ákvæðum til að tryggja réttaröryggi borgaranna enn frekar.

Meiri hlutinn telur rétt að geta þess að þær breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, sem felast í 7.--9. gr. frumvarpsins hafa engin áhrif á efnisréttinn eins og hann er. Þá vill meiri hlutinn taka skýrt fram að með breytingu á f-lið 33. gr. þeirra laga eins og 14. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir er ekki verið að fella úr gildi möguleika psoriasis- og exemsjúklinga til að sækja loftslagsmeðferð erlendis. Samkvæmt 35. gr. almannatryggingalaga er sérstakri nefnd sérfræðinga sem skipuð er fimm læknum falið að meta þörf sjúklinga fyrir slíka meðferð við erlendar sjúkrastofnanir. Meiri hlutinn telur ekki rétt að ákveðnir hópar sjúklinga njóti sérstakrar málsmeðferðar umfram aðra heldur sé jafnræðis milli sjúklingahópa gætt. Því er farsælast að allar ákvarðanir um sérstaka meðferð erlendis verði í höndum sérfræðinganefndarinnar skv. 35. gr. laganna.

Ég vil ítreka sérstaklega varðandi þetta að ekki er verið að skerða möguleika psoriasis- og exemsjúklinga til að fara í loftslagsmeðferð erlendis heldur er verið að tala um að siglinganefndin svokallaða taki þessi mál yfir eins og hún reyndar hefur gert undanfarin ár. Nokkurs misskilnings hefur gætt í þessu máli. Við í heilbr.- og trn. fengum til okkar gesti frá samtökum psoriasis- og exemsjúklinga. Þeir gagnrýndu að þessi mál væru í höndum siglinganefndar, m.a. vegna þess að þar væri ekki húðlæknir.

Ég hef kynnt mér hvernig mál eru afgreidd í siglinganefndinni. Það gert á þann hátt að þegar teknar eru fyrir umsóknir frá psoriasis- eða exemsjúklingum fylgja þeim alltaf álit húðlæknis. Þeir fimm læknar sem eru í siglinganefndinni og tryggingayfirlæknir meta þær umsóknir. Stundum er þeim hafnað og þá yfirleitt vegna þess að sjúklingarnir hafa ekki leitað sér allra úrræða hér á landi sem gefast fyrir þá sjúklinga. Stundum eru umsóknir samþykktar. Ef menn í siglinganefndinni eru í einhverjum vafa leita þeir álits annars húðlæknis en þess sem gaf hina fyrstu umsögn og síðan tekur siglinganefndin endanlega afstöðu. Þetta er því gert mjög faglega.

Í nýlegu bréfi sem meiri hluti heilbr.- og trn. fékk frá Samtökum psoriasissjúklinga í gær, dags. 9. mars, undirritað af Helga Jóhannessyni, formanni Samtaka psoriasis- og exemsjúklinga eða Spoex, kemur fram eftirfarandi setning, sem ég ætla að lesa hér upp, með leyfi forseta:

,,Síðan 1996, þegar loftslagsmeðferðin var felld niður þrátt fyrir skýr lagaákvæði, hefur aðeins einn psoriasissjúklingur notið slíkrar meðferðar á grundvelli 35. gr. um siglinganefnd. Það ástand er engan veginn viðunandi og meðferðin því í raun aflögð.``

Það er ekki rétt að þessi meðferð sé í raun aflögð. Samkvæmt upplýsingum tryggingayfirlæknis, þegar til hans var leitað, komu engar umsóknir til siglinganefndar árið 1997. Árið 1998 komu nokkrar umsóknir en nefndin synjaði umsóknum tveggja einstaklinga á þeirri forsendu að meðferð hafði ekki verið fullreynd á Íslandi. Hins vegar samþykkti nefndin umsóknir frá sex einstaklingum á árinu 1998, það var í október eða nóvember. Um þetta er formanni Spoex fullkunnugt, enda var hann á fundi nýlega í Tryggingastofnun til þess að ræða fyrirkomulag ferða þeirra einstaklinga til Kanaríeyja. Það er því alls ekki hægt að átta sig á því hvers vegna aðili fyrir sömu samtök skrifar í bréfi, dagsettu í gær, að þessi meðferð sé í raun aflögð. Það er alls ekki svo. Það er tiltölulega nýbúið að samþykkja ferð fyrir sex einstaklinga til Kanaríeyja til að leita sér lækninga þar.

[22:15]

Ég vil lesa það sem kom fram í fylgiskjali frá Samtökum psoriasis- og exemsjúklinga. Það er bréf sem dags. er 2. mars 1999, stílað á hæstv. heilbrrh. Ingibjörgu Pálmadóttur og það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Samtök psoriasis- og exemsjúklinga vilja þakka yður fyrir skjót viðbrögð í framhaldi af fundi fulltrúa Spoex með yður 23. febrúar sl. við að finna lausn á málum sex psoriasissjúklinga sem siglinganefnd Tryggingastofnunar ríkisins hefur samþykkt að gangist undir loftslagsmeðferð á meðferðarstöð fyrir psoriasissjúklinga erlendis.``

Samtökunum er fullkunnugt um þetta og hafa auðvitað lagt sitt af mörkum við að fá þessu framgengt. Einhver vandræði voru með þetta mál þar sem svo seint var ljóst að þessi hópur fengi að fara að allt var orðið fullt á meðferðarstöðinni. En mér skilst að búið sé að leysa það. En það er alls ekki rétt, og ég harma að það komi fram í bréfi samtakanna að í raun sé búið að leggja þessa meðferð niður. Það er ekki rétt.

Hins vegar vill meiri hlutinn taka skýrt fram að eðlilegt er að siglinganefnd fari með þessi mál eins og önnur mál sjúklinga sem leita sér meðferðar erlendis. Í skjali samtakanna kemur eftirfarandi fullyrðing fram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Engin rök búa þar að baki og fullyrðingar í greinargerð um að Bláa lónið geti leyst loftslagsmeðferð af hólmi eru órökstuddar og algjörlega óraunhæft að halda slíku fram.``

Ég vil benda á að í þeirri greinargerð sem við fengum með frv. segir hvergi að loftslagsmeðferð í Bláa lóninu leysi aðra loftslagsmeðferð af hólmi. Það kemur ekki fram og ég ætla að lesa hér, með leyfi virðulegs forseta, upp úr athugasemdum um 14. gr.:

,,Ákvæði 2. mgr. 33. gr. laganna er fellt brott þar sem eftir tilkomu Bláa lónsins er ekki þörf á sérákvæðum um læknishjálp psoriasissjúklinga á meðferðarstofnunum erlendis. Um hana gilda almennar reglur almannatryggingalaga um læknishjálp erlendis.``

Hér er því einungis verið að tala um að ekki sé þörf á sérákvæði. Þetta þýðir ekki að verið sé að fella á brott heimild Tryggingastofnunar til þess að greiða fyrir svona meðferð enda er nýbúið að samþykkja meðferð fyrir sex sjúklinga til að fara utan til að leita sér meðferðar. Þetta vildi ég að kæmi mjög skýrt fram vegna þeirra upplýsinga sem við fáum bæði frá Tryggingastofnun ríkisins, frá siglinganefndinni, og svo upplýsinga frá Samtökum psoriasis- og exemsjúklinga.

Meiri hlutinn mælir með því að frv. verði samþykkt með breytingum sem gert er grein fyrir á þskj. 1057.

Í fyrsta lagi er brtt. við 2. gr. þar sem lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig að í stað að í stað þess að ráðherra skipi alla nefndarmenn án tilnefningar verði formaður og varaformaður tilnefndir af Hæstarétti. Þriðji nefndarmaðurinn verði skipaður án tilnefningar. Þetta er ákvæði sem hljómar mjög líkt og ákvæði um aðrar úrskurðarnefndir þar sem Hæstiréttur tilnefnir einn til tvo af þeim sem sitja í úrskurðarnefndum. Því má segja að þetta er aðeins lengra frá valdi ráðherra sem á núna ekki að skipa alla án tilnefningar.

Í öðru lagi gerum við tillögu um það í c-lið 2. gr. að því ákvæði verði breytt þannig að báðir málsaðilar, þ.e. bæði tryggingaráð og neytandinn eða einstaklingurinn sem sækir sitt til Tryggingastofnunar, eiga sama rétt til að krefjast frestunar á réttaráhrifum úrskurðarnefndarinnar ef þeir hyggjast bera málið undir dómstóla. Við bætum því við að einstaklingurinn eða neytandinn á sama rétt á þessu og tryggingaráð.

Að lokum, virðulegi forseti, leggjum við til að fjárhæð ellilífeyris verði leiðrétt í a-lið 4. gr. en þessi fjárhæð misritaðist við gerð frv., sem okkur fannst heldur óþægilegt, þar var ritað 181.476 kr. í stað 188.736 kr.

Virðulegi forseti. Ég hef greint frá afstöðu meiri hlutans til þessa máls og legg til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir.