Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:21:34 (4787)

1999-03-10 22:21:34# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:21]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. framsögumanns nál. meiri hlutans í þessu máli vil ég að það komi fram varðandi psoriasissjúklingana að ég veit að það hafa verið skiptar skoðanir um hvort sérákvæði ætti að vera inni í lögunum eða hvort þetta ætti að fara í gegnum siglinganefndina. Eins og gert er ráð fyrir í lögunum verður að segjast eins og er að meðan þetta var sérákvæði var það tryggt að ákveðnum hópi Íslendinga, sjúklingum sem voru mjög slæmir af psoriasis, var tryggð vist á meðferðarstofnun erlendis þar sem þeir gátu fengið þessa meðferð. Eftir að hætt var að taka þetta inn sem sérstaka afgreiðslu, eins og fram kom í máli hv. þm., er það svo að þegar fólk sækir um þetta í gegnum siglinganefnd er allur gangur á því hvort fólk fái einhvers staðar inni á þessum meðferðarstofnunum fyrir psoriasissjúklinga vegna þess að það er mjög mikil aðsókn að þeim.

Ég vil benda á að ekki er verið að leysa vanda þessa fólks, síður en svo, með því að taka þetta úr úr sérákvæðinu.