Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:23:26 (4788)

1999-03-10 22:23:26# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:23]

Frsm. meiri hluta (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta sérákvæði hefur verið inni núna hin seinni ár þangað til sennilega í fyrramálið eða seinna í nótt þegar við fellum það úr gildi. En siglinganefndin hefur samt fjallað um þessi mál hin síðustu ár. Því er ekki verið að breyta neinu að þessu leyti.

Það fóru fleiri sjúklingar út áður fyrr. Um tíma fóru 40 á ári. Síðan fóru 30 á ári og þetta hefur trappast niður. Segja má að það sé að mörgu leyti eðlilegt vegna þróunar í heilbrigðisþjónustunni sem betur fer. Það hafa verið að koma betri lyf og það hefur líka verið byggð upp starfsemi í kringum Bláa lónið. Þar er núna sjúkrahótel, þar eru ljósalampar og svokölluð loftslagsmeðferð og fólk fer í lónið og makar á sig því sem þar er og virðist ganga vel í mörgum tilvikum. En þetta hentar ekki öllum þannig að einhverjir verða að fara út.

Nýbúið er að samþykkja ferð fyrir sex og mér skilst að ferð fyrir einn í slíka endurhæfingu eða meðferð kosti 150 þús. kr. sem er örugglega vel réttlætanlegt í einhverjum tilvikum af því að sjálfsögðu kostar meðferðin líka sitt hér heima, lyf, sjúkrahúsvist og annað.

Ég tel að mjög faglega sé staðið að þessum málum og miklu eðlilegra sé að siglinganefndin fjalli um þennan sjúkdómaflokk eins og aðra. Þetta er jafnræði og það kemur á óvart ef fylkingin, sem segjast vera talsmenn jafnræðis áttar sig ekki á því að eðlilegt er að fella sérákvæði úr gildi.