Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:25:23 (4789)

1999-03-10 22:25:23# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. má alls ekki skilja orð mín svo að ég sé á móti því að við nýtum okkur Bláa lónið. Það hefur alltaf verið skoðun mín og ég talið það vera til hagsbóta fyrir okkur að nýta okkur úrræði innan lands og fyrir alla þá sem hafa hag af því, það er auðvitað alveg sjálfsagt, og ég veit alveg að það hefur verið hagkvæmara fyrir okkur.

Aftur á móti þegar þetta er fer í siglinganefndina, eins og ég benti á áðan, er ekki lengur verið að taka frá pláss fyrir þessa sjúklinga sem var gert meðan þetta var afgreitt sem sérafgreiðsla, sérumsókn til tryggingaráðs. Vissulega fór þetta í gegnum siglinganefnd og allar þær umsóknir, sem komu fyrir psoriasissjúklinga til Kanaríeyja, voru metnar og voru þær náttúrlega miklu fleiri en unnt var að samþykkja.

En aðalatriði málsins, sem ég er að beina til hv. þm., er að það er ekki verið að veita þessum sjúklingum sömu þjónustuna, það er ekki verið að tryggja að þeir fái pláss, að þeir fái inni á sjúkrastofnunum erlendis eins og var áður en meðferð umsókna var breytt.

Eins og hv. þm. þekkir var það 1996 sem ákveðið var að reyna til fullnustu úrræði innan lands og ferðir til Kanaríeyja voru aflagðar nema þá sem einstaka umsókn í gegnum siglinganefnd. Það sem ég er að benda á er að ekki eru tryggð úrræði fyrir þá sem sækja um, eins og kemur reyndar fram í bréfinu frá psoriasissjúklingum um að jafnvel hafi ekki verið hægt að koma því fólki sem sótti um í meðferð vegna þess að það var upppantað. Það var þetta atriði sem ég er að benda hv. þm. á, herra forseti.