Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:56:06 (4797)

1999-03-10 22:56:06# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:56]

Frsm. meiri hluta (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að einhvers misskilnings hafi gætt í máli síðasta ræðumanns. Ég ætla að lesa aftur upp úr bréfi Samtaka psoriasis- og exemsjúklinga. Bréfið var til hæstv. heilbrrh., Ingibjargar Pálmadóttur, og hljóðar svona, með leyfi forseta:

,,Samtök psoriasis- og exemsjúklinga vilja þakka yður fyrir skjót viðbrögð í framhaldi af fundi fulltrúa Spoex með yður 23. febr. sl. við að finna lausn á málum sex psoriasissjúklinga sem siglinganefnd Tryggingastofnunar ríkisins hefur samþykkt að gangist undir loftslagsmeðferð á meðferðarstöð fyrir psoriasissjúklinga erlendis.``

Þarna er því siglinganefndin búin að samþykkja þessa ferð. (BH: Hún finnur lausn á máli þeirra.) Já, það voru praktískar lausnir sem voru fundnar. Það var ekki verið að gefa leyfi fyrir þessum ferðum. Það var búið. Siglinganefnd var búin að gefa grænt ljós á þessar ferðir þannig að það er alrangt að stilla málum þannig upp að hæstv. ráðherra hafi veitt leyfi til ferðarinnar. Það er alls ekkert þannig.

Það er mjög merkilegt að fá þetta bréf. Það var viðhengi við gögn sem við í heilbrn. fengum frá samtökunum Spoex þegar við fórum yfir þetta mál. Það er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að sömu samtök segja í bréfi í gær að ástandið sé engan veginn viðunandi og meðferðin því í raun aflögð, sem er að sjálfsögðu alrangt.