Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:18:12 (4803)

1999-03-10 23:18:12# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að koma inn á umræðuna um psoriasissjúklingana. Það er rétt að ástæðan fyrir því að ekki komu fleiri umsóknir á árabili því sem hér hefur verið til umræðu er sú að psoriasissjúklingar fengu þær upplýsingar að búið væri að leggja þessar ferðir af, að búið væri að leggja af ferðir til Kanaríeyja til meðferðar. Enda tók tryggingaráð um það ákvörðun að láta reyna á úrræði innan lands, þ.e. Bláa lónið. Það er ástæðan fyrir að umsóknir hafa ekki borist.

Í ljós kemur að ef psoriasissjúklingarnir fara sömu leið og aðrir, í gegnum siglinganefndina, þá er ekki hægt að leysa úr þeirra málum, þ.e. fá pláss fyrir þá, nema þeir fari bónarleið til ráðherra. Af bréfinu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir las hér, þakkarbréfi frá psoriasissjúklingum um að ráðherra hefði leyst vanda þeirra með það að fá inngöngu á meðferðarstofnun á Kanaríeyjum, er ljóst að þarna þurftu menn greinilega að fara bónarveg. Auðvitað er þetta ekki boðlegt.

Við leggjum því til að þetta sérúrræðið verði áfram inni og tryggt verði að ákveðinn hópur Íslendinga fái þessa þjónustu ef þeir þurfa á henni að halda samkvæmt læknisfræðilegu mati. Ég hefði talið fulla ástæðu til að þetta ákvæði sem við leggjum til hér, breyting á lögunum, verði samþykkt til að tryggja þessa þjónustu fyrir þá sem vissulega þurfa á þessu að halda. Fulltrúar psoriasissjúklinga hafa í tvígang í vetur komið til okkar í heilbr.- og trn. til að kynna ástandið og þörfina fyrir þessa læknismeðferð.

Varðandi aðrar breytingar sem við leggjum til í brtt. við þetta frv. er ljóst að við að setja á laggirnar sérstaka úrskurðarnefnd er hlutverki tryggingaráðs breytt. Eins og margoft hefur komið fram í máli manna hefur það verið baráttumál, bæði aldraðra og öryrkja, að fá fulltrúa inn í tryggingaráð. Menn hafa lagt fram frumvörp til þess að breyta þessu. Ég minni á frv. Ágústs Einarssonar og fleiri þingmanna úr þingflokki Samfylkingarinnar um þetta mál. Ég tel að við þessa breytingu á eðli tryggingaráðs sé fullkomlega eðlilegt að samþykkja þá breytingu á lagagreinunum um tryggingaráð, þannig að fulltrúar þessar stærstu viðskiptamannahópa Tryggingastofnunar ríkisins, þ.e. frá Öryrkjabandalaginu og öldruðum komi inn í tryggingaráðið.

Varðandi hækkun á upphæð grunnlífeyris þá hefur margoft komið til umræðu að þetta eigi að vera persónubundinn réttur, persónubundin trygging í almannatryggingunum. Það að sambúðarform hafi áhrif á upphæð grunnlífeyris er brot á jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar og raunar mannréttindabrot. Það að maður búi með öðrum, hvort sem það er eiginmaður, eiginkona eða aðrir, á hvorki að skerða örorku- né ellilífeyri.

Vegna orða hv. þm. Siv Friðleifsdóttur í umræðunni áðan vil ég að minna á að Framsfl. lagði áherslu á að þessi breyting yrði gerð fyrir kosningarnar 1991. Ég minnist þess að forsvarsmenn Framsfl. í Reykjavík hafi haft uppi fögur orð um að breyta þessu. (Gripið fram í: Varst þú ekki í flokknum þá?) Ég var sannarlega í flokknum þá og er enn sama sinnis, að það eigi að breyta þessu, þ.e. að tryggja að fólk haldi grunnlífeyri sínum þó það sé í sambúð, hvað þá ef það er í hjónabandi. Þar fyrir utan á lífeyrir að fylgja hækkunum á launavísitölu. Ég tel fulla ástæðu til að samþykkja breytinguna á upphæðunum sem við leggjum hér til.

Ég tek eftir því í umsögn fjmrn. um frv., að þetta er ekki talið hafa mjög miklar breytingar í för með sér, þ.e. fyrir ríkissjóð. Engu að síður er talað um að hér sé um réttarbætur að ræða. Það er frekar ólíklegt að réttarbætur í tryggingakerfinu kosti ekki eitthvað. Enda spurði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, um hvað sú breyting, að afnema skerðingu lífeyris hjóna þegar bæði fá lífeyri, mundi kosta. Ég vil benda hv. þm. Siv Friðleifsdóttur á að kanna það í tillögum Framsfl. í þessa veru. Það var allt reiknað út og hlýtur að vera hægt að færa það upp til núvirðis, þannig að það ætti nú allt að liggja fyrir.

Ég hefði talið eðlilegt að samþykkja einhverjar af þeim tillögum sem við höfum lagt fram. Það er ömurlegt að horfa upp á að einu breytingar til bóta í málum lífeyrisþega séu þegar yfirvofandi er dómsmál vegna lagagreinanna. Það er slæmt þegar slíkt þarf til að farið sé í að leiðrétta kjör lífeyrisþega, eins og t.d. tekjutengingu við tekjur maka, sem við þekkjum vel. Það var ekki fyrr en Öryrkjabandalagið fór í dómsmál um þetta efni að menn voru tilbúnir að breyta og stíga fyrsta skrefið til þess að aftengja lífeyrisgreiðslur tekjum maka.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Hún hefur staðið yfir alllengi. Ég vil ítreka að það þarf að ráða bót á ástandinu hjá psoriasissjúklingunum og tryggja að þeir sem ekki fá lækningu í Bláa lóninu fái viðunandi meðferð annars staðar. Til þess þurfa að vera ákvæði í lögunum, sérákvæði, það hefur þessi umræða sýnt svo ekki verður um villst. Einnig vil ég ítreka, herra forseti, að núna eru full rök fyrir því að fulltrúar aldraðra og öryrkja fái sína fulltrúa í tryggingaráð eftir að hlutverki tryggingaráðs verður breytt, þ.e. verði frv. sem við ræðum hér um að lögum.