Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:38:37 (4807)

1999-03-10 23:38:37# 123. lþ. 84.31 fundur 607. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# (aðsetur) frv. 53/1999, Frsm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:38]

Frsm. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997, með síðari breytingum. Það er frv. frá landbn. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður er verði 2. málsl., svohljóðandi: Aðsetur hans er á Selfossi.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Með frv. fylgir greinargerð þar sem aðalatriðin eru á þá leið að á síðari hluta síðasta árs kom fram tillaga frá landbúnaðarráðherra um að kannað yrði hvort hægt væri að flytja aðsetur Lánasjóðs landbúnaðarins frá Reykjavík. Var það tekið til skoðunar í stjórn sjóðsins sem komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri því til fyrirstöðu að sjóðurinn gæti þjónað viðskiptamönnum sínum frá öðrum stað en Reykjavík. Eftir ítarlega könnun lagði stjórn lánasjóðsins til við landbúnaðarráðherra að höfuðstöðvar sjóðsins yrðu fluttar á Selfoss og hefur hann fallist á þá tillögu.

Nokkur vinna hefur verið lögð í fyrirhugaðan flutning sjóðsins. Þá var nýráðnum framkvæmdastjóra hans gerð grein fyrir fyrirhugðum flutningi er hann var ráðinn til starfsins.

Þetta mál er því á fullri ferð og ég vona í góðri sátt bæði við starfsfólk og innan stjórnar þessa sjóðs og við bændur þessa lands. Jafnframt var ákveðið í stjórn sjóðsins að þjónustustöð verði verði rekin norðan lands í tengslum við þessa breytingu þannig að hann geti þjónað landinu sem allra best.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, hæstv. forseti, og legg til að frv. verði samþykkt á þessu þingi og tel það reyndar mikilvægt.