Umræða um málefni sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 10:03:30 (4895)

1999-03-11 10:03:30# 123. lþ. 85.91 fundur 356#B umræða um málefni sjávarútvegsins# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[10:03]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í upphafi þingfundar í gær kvöddu nokkrir þingmenn sér hljóðs til að ítreka ósk sem sett var fram fyrir nokkrum dögum um að fram færi á Alþingi stutt utandagskrárumræða um stöðuna í sjávarútvegsmálum þannig að það lægi fyrir áður en Alþingi færi heim og kosningabarátta hæfist hvort það sé virkilega svo að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ætli sér ekkert að gera í málefnum strandveiðiflotans og þess fjölda fiskverkafólks sem er að missa atvinnu sína um þessar mundir. Ég ætla í fyrsta lagi að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta og hjá hæstv. starfandi sjútvrh. hvort hægt sé að fá svör við þeirri beiðni og hvernig standi á því að menn ætli að standa hér dag eftir dag í umræðum um störf þingsins sem nú þegar eru búnar að taka miklu lengri tíma en hálftíma utandagskrárumræða um málefni sjávarútvegsins mundi taka.

Eftir nokkra klukkutíma, herra forseti, hefst landsfundur Sjálfstfl. Í Degi í dag er viðtal við tvo þingmenn þess flokks, annars vegar við Kristján Pálsson þar sem hann segir að málefni kvótalítilla byggðarlaga bæði á Vestfjörðum og Austurlandi verði í umræðunni á þessum landsfundi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Kristján Pálsson alþingismaður sagðist telja að eina leiðin til að bjarga þessum byggðum væri að auka enn frekar allt frelsi hvað varðar kaup og sölu á aflaheimildum. ...

Einar Oddur Kristjánsson sagði að fyrir hin litlu, dreifðu byggðarlög, sem lifa eingöngu á sjávarfangi væri lífsnauðsynlegt að efla strandveiðiflotann.``

Herra forseti. Eru þeir sjálfstæðismenn að rugla saman Alþingi Íslendinga og landsfundi Sjálfstfl.? Það er ekki landsfundur Sjálfstfl. sem tekur ákvarðanir um eða á umræður um hvað gera eigi til að bjarga strandveiðiflotanum og fiskverkafólki heldur þessi stofnun hér, Alþingi Íslendinga. Hvernig stendur á því að þeir menn sem ætla sér að ræða þessi mál eftir nokkra klukkutíma á landsfundi Sjálfstfl. skirrast við að gera það á Alþingi Íslendinga, í þeirri einu stofnun þar sem ákvarðanirnar eru teknar?