Lok þingstarfa

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 13:00:30 (4951)

1999-03-11 13:00:30# 123. lþ. 86.93 fundur 358#B lok þingstarfa# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 123. lþ.

[13:00]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að gera athugasemdir við yfirlýsingu forseta. Ég hygg að hún sé til komin eftir fund þingflokksformanna og forustu þingsins. Ég vil hins vegar halda því til haga í þessum efnum að tíminn er ákaflega knappur og ætli mætti að jólahátíð væri að ganga í garð, eins og við hv. þm. þekkjum í desemberönnum. Svo er auðvitað ekki. Landsfundur Sjálfstfl. er að hefjast síðdegis í dag og vissulega er eðlilegt og sjálfsagt að liðka til fyrir þeim fundahöldum eins og venja er þegar flokkar á Alþingi halda landsfundi sína eða flokksþing. Ég vil hins vegar undirstrika það að ég er til þess reiðubúinn, eins og vafalaust margir aðrir þingmenn, að hittast hér á nýjan leik eftir helgi og ljúka þeim verkum sem vinna þarf í góðum tíma og rúmi. Ég vil undirstrika að það stendur ekkert á mér né heldur mörgum öðrum að gera það.

Vafalaust má vænta þess að á fundi stærstu stjórnmálasamtaka landsins komi eitthvað fram sem gæti varpað ljósi á ýmislegt sem við erum að fást við þessa klukkutímana í störfum þingsins. Þetta vildi ég láta koma fram fyrir mína hönd, að ég er þess albúinn mæta til leiks á mánudaginn. Við þurfum því ekki að ljúka þingstörfum í tímakreppu og við þær þröngu aðstæður sem forseti hefur lýst. Annars geng ég auðvitað ekki gegn samkomulagi sem gert hefur verið. (EgJ: Það er vissara fyrir þig að mæta.)

(Forseti (RA): Forseti lætur þess getið og staðfestir það sem hér kom fram að samkomulag hefur orðið milli formanna þingflokka um þá tilhögun sem forseti lýsti í upphafi fundarins.)