Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 14:33:33 (4958)

1999-03-11 14:33:33# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ýmsir þingmenn hafa að undanförnu óskað eftir því að teknar verði saman upplýsingar sem varða kjör, stöðu og aðbúnað öryrkja á Íslandi. Ástæða er til að þakka þessum þingmönnum, ekki síst hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Pétri H. Blöndal fyrir framtak þeirra í þessu efni.

Málefni öryrkja hafa verið nokkuð til umræðu undanfarið og það er afar vel. Viðbúið er að svo verði einnig á næstunni. Nauðsynlegt er að þegar þessi mál eru rædd liggi til grundvallar áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega stöðu mála og þess fólks sem í hlut á. Annars er hætt við að umræðan fari út um víðan völl og slík framvinda mundi ekki þjóna hagsmunum öryrkja.

Nú hefur Þjóðhagsstofnun samkvæmt beiðni forsrh. tekið saman ítarlega skýrslu um kjör öryrkja sem hér hefur verið dreift í þingsölum. Að auki hafa Tryggingastofnun, heilbr.- og trmrn., fjmrn. og lífeyrissjóðir verið forsrn. og Þjóðhagsstofnun innan handar og veitt ýmsar upplýsingar sem koma fram í svörum við fyrirspurnum. Meginniðurstöðurnar eru þær að bætur almannatrygginga hafa hækkað umtalsvert umfram verðlag á undanförnum árum. Í ítarlegum samanburði Þjóðhagsstofnunar á þróun kaupmáttar launa og ýmissa bóta síðustu 12 árin kemur m.a. fram að kaupmáttur grunnlífeyris almannatrygginga lækkaði um rúm 16% kjörtímabilið 1987--1991, lækkaði um rúm 6% á síðasta kjörtímabili en hefur hækkað um tæp 11% á yfirstandandi kjörtímabili fram í janúar í ár.

Kaupmáttur tekjutryggingar lækkaði um rúm 6,4% kjörtímabilið 1987--1991, lækkaði um rúm 6% síðasta kjörtímabil en hefur hækkað um tæp 22% á yfirstandandi kjörtímabili fram á þetta ár.

Kaupmáttur heimilisuppbótar lækkaði um rúm 11% kjörtímabilið 1987--1991, lækkaði um rúm 6% á síðasta kjörtímabili en hefur hækkað um 71,4% á yfirstandandi kjörtímabili, enda sími og útvarp tekin inn í þessa uppbót.

Kaupmáttur sérstakrar heimilisuppbótar lækkaði um tæp 9% frá því að henni var fyrst komið á laggirnar árið 1987--1991. Kaupmáttur þeirra sem uppfylltu skilyrði til að þiggja þessa sérstöku heimilisuppbót auk allra annarra ofangreindra bóta stóð þannig í heild í stað á þessu kjörtímabili. En hin sérstaka heimilisuppbót lækkaði um rúm 6% á síðasta kjörtímabili en hefur hækkað um tæp 22% á yfirstandandi kjörtímabili.

Kaupmáttur lífeyris almennra lífeyrissjóða lækkaði um 15,3% á kjörtímabilinu 1987--1991, um 2,6% á kjörtímabilinu 1991--1995 en hefur á yfirstandandi kjörtímabili haldist í hendur við verðlagsþróun í samræmi við verðtryggingu lífeyris. Það er jafnframt mikilvægt að það komi fram að kaupmáttur bóta mun í framtíðinni ekki lækka þótt kaupmáttur launa kunni að lækka. Þetta er vegna lagaákvæða sem sett voru í desember 1997 og sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir til að tryggja það að bótaþegar nytu ævinlega bestu kjara ef svo mætti segja gagnvart verðtryggingu og að kaupmáttur bótanna lækkaði ekki þó svo kaupmáttur launa kynni að gera það.

Herra forseti. Fjölmargir öryrkjar eiga ekki kost á því að stunda vinnu, því miður. Reyndar var vinnugeta einstaklingsins notuð við mat á örorku áður sem ekki var eðlilegt. Í staðinn liggja nú læknisfræðilegar forsendur til grundvallar. Það breytir ekki hinu að öryrkjar eru oft mun verr settir á vinnumarkaði en aðrir. Fyrst skiptir máli í þessu sambandi að kaupmáttur atvinnuleysisbóta, sem lækkaði um tæp 15% á kjörtímabilinu 1987--1991 og um 1,8% á síðasta kjörtímabili, hefur hækkað um rúmlega 11% á yfirstandandi kjörtímabili. Þá voru teknar upp húsaleigubætur í öllum sveitarfélögum í fyrra en frá 1995 höfðu sveitarfélögin sjálfsval um hvort slíkar bætur væru greiddar. Með auknu framboði félagslegs húsnæðis sem fyrst og fremst er leiguhúsnæði hafa þessar húsaleigubætur nýst fjölmörgum öryrkjum sérstaklega.

Tekjuskattskerfi okkar er þannig uppbyggt að þegar kaupmáttur vex hækkar skatturinn hlutfallslega meira en hjá þeim sem kaupmáttur minnkar hjá léttist skattbyrði. Það er því í rauninni gleðiefni að hlutfallsleg skattbyrði margra örorkulífeyrisþega hefur heldur aukist á undanförnum árum svo undarlega sem það nú hljómar. Ástæða þessarar auknu skattbyrði er auðvitað hinn aukni kaupmáttur sem ég gat um.

Á þessu kjörtímabili hafa lægstu laun hækkað meira en laun almennt. Um það sérstaka markmið sameinuðust samningsaðilar við síðustu kjarasamninga. Þannig hefur kaupmáttur lægstu launa aukist um tæplega 39% á þessu kjörtímabili á meðan kaupmáttur launa á almennum markaði hefur aukist um 18,5% og kaupmáttur launa opinberra starfsmanna og bankamanna um 29% fram í janúar á þessu ári. Lægstu laun hafa þannig hækkað mun hraðar en bæði bætur almannatryggingakerfisins og almenn laun samkvæmt kjarasamningum, enda miðast bæturnar við hina almennu kjarasamninga. Þess ber þó að geta að afar fáir einstaklingar eru á þessum lægstu töxtum einum sem betur fer. Þeir eru hins vegar afar margir sem njóta kjara sem grundvallast á launum samkvæmt kjarasamningum og bótum almannatryggingakerfisins. Samanburður á launum og bótum almannatryggingakerfisins annars vegar og lágmarkstöxtum hins vegar segir því afar lítið.

Við vitum að hagur lífeyrissjóðanna fer nú blessunarlega batnandi. Árið 1972 var tekin upp hér á landi svokölluð tekjutrygging í almannatryggingakerfinu og var hún hugsuð sem tímabundið úrræði sem smám saman mundi víkja fyrir greiðslum úr lífeyrissjóðum þegar þeir tækju að eflast. Með vaxandi örorkugreiðslum úr lífeyrissjóðum má búast við því að fjöldi þeirra sem njóta fullrar tekjutryggingar fari minnkandi. Það er þróun sem er í samræmi við hina upphaflegu hugmynd að baki þessa þáttar bótakerfisins. Gott atvinnuástand hefur einnig sömu áhrif.

Í fyrirspurn var spurt um það hlutfall af vergri landsframleiðslu sem Íslendingar verja til grunnörorku- og lífeyrisgreiðslna í samanburði við önnur Norðurlönd. Í ljós kom að Þjóðhagsstofnun gat gert þennan samanburð einan og sér. Þannig ver íslenska ríkið hærra hlutfalli af landsframleiðslu til þessa grunnlífeyris en aðrar Norðurlandaþjóðir að Danmörku undanskilinni. En heildargreiðslur ríkis og lífeyrissjóða til þessara tilteknu greiðslna eru hins vegar minnstar á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu. Hitt hefði verið miklu viðameira og flóknara og langt umfram umfang þessarar skýrslur að meta heildarframlög en ekki aðeins grunnlífeyri með því að taka tillit til mismunandi fjölda öryrkja, til aldursdreifingar þjóðanna, til mismunandi skilgreiningar á örorku og til mismunandi lífeyris- og bótakerfa í þessum löndum.

Sem dæmi má nefna að auk grunnlífeyris og tekjutryggingar geta öryrkjar hér á landi átt kost á heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót, bíla- og bensínstyrk og frekari uppbótum, t.d. vegna lyfja og lækniskostnaðar. Fjölmörgum öryrkjum eru veittar húsaleigubætur, þeir fá félagslega aðstoð sveitarfélaga margir hverjir, afslætti af fasteignagjöldum, afslætti á sundstaði, í strætisvagna, hjá flugfélögum og í leikhús svo einhver dæmi séu nefnd. Að sjálfsögðu njóta öryrkjar sérstakra kjara við endurhæfingu og geta fengið endurhæfingarlífeyri. Að auki getur þurft að taka tillit til sjúkrasjóða verkalýðsfélaganna, barnabóta, vaxtabóta, atvinnuleysisbóta, mæðralauna, barnalífeyris, barnaörorku, slysadagpeninga, sjúkradagpeninga og fleiri bóta í þessum samanburði. Þetta segir okkur því í fyrsta lagi hve víðfeðmar rannsóknir þarf að gera til að samanburður milli landa sé marktækur. Besti samanburðurinn sem við höfum í höndunum er því sá sem tekur dæmigerðan einstakling og fylgir honum gegnum kerfi hinna ýmsu landa. Við getum verið ánægð með að í dæmigerðu tilviki í reikningum Þjóðhagsstofnunar eru ráðstöfunartekjur öryrkja á Íslandi hærri en á öðrum Norðurlöndum að Danmörku einni undanskilinni. Hafa ber í huga í þessu sambandi að velferðarkerfin á Norðurlöndum eru samt sem áður þau allra örlátustu sem finnast um víða veröld.

Í öðru lagi þykir mér þessi langa og flókna upptalning á bótum, niðurgreiðslum og afsláttum hér á undan benda til þess að við sem sitjum á Alþingi mættum á næstunni huga að því að einfalda þetta kerfi eitthvað.

Spurt var um tekju- og eignadreifingu öryrkja. Í skýrslunni kemur fram að dreifing tekna er mun jafnari meðal öryrkja en annarra landsmanna. Maður sem verður 100% öryrki 25 ára gamall og hafði 80 þús. kr. brúttómánaðartekjur fyrir örorku og greiddi til dæmigerðra lífeyrissjóða mundi við slysið auka ráðstöfunartekjur sínar um 16--17%. Ef sami maður hefði haft 200 þús. kr. mánaðartekjur fyrir þessa breytingu á hans högum mundu ráðstöfunartekjur hans dragast saman um 17--22%. Ef maðurinn hefði aldrei unnið fyrir slysið verða ráðstöfunartekjur hans minnst 70 þús. eftir örorku. Þannig sést hvernig kerfið jafnar tekjur milli þessara hópa.

Eignir dreifast hins vegar með mjög svipuðum hætti meðal öryrkja og annarra hópa í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Það er fleira sem skiptir máli í þessari umræðu en beinar peningalegar forsendur örorkulífeyrisþeganna. Eins og fram hefur komið hefur fjárhagsleg staða þessa hóps batnað mjög á þessu kjörtímabili öfugt við næstu átta árin á undan, ekki síst árin 1987--1991. Kaupmáttarþróunin segir þar mjög skýra og afgerandi sögu. Þeir sem stýrðu málefnum þessara hópa á tímabilinu þegar kjörin versnuðu hvað mest skulda skýringar á því hvað hafi brugðist. Það gengur ekki eingöngu að reyna að slá sig til riddara í augum annarra með yfirboðum og gáleysislegum loforðum og treysta á að minni fólks nái stutt aftur í tímann. Hagsmunir öryrkja felast ekki í slíkum æfingum.

Í allri sanngirni verður að segja að fjárhæð örorkubóta er ekki allt sem skiptir máli. Aðalmálið er hversu margir munu þurfa á þeim að halda. Við þurfum því að leggja mikla rækt við önnur úrræði fyrir þennan hóp og bjóða upp á fjölbreytta kosti sem öryrkjar sjálfir kjósa. Fyrir þá sem eru mjög fatlaðir eru sambýli til að mynda afar raunhæfur kostur og hafa í miklum mæli verið að taka við af vistheimilunum. Fjöldi vistrýma á sambýlum tvöfaldaðist á undanförnum árum og mun slíkum rýmum fjölga áfram. Almennt vaxa stofnanir fatlaðra nú sífellt og dafna og hafa framlög ríkissjóðs til þeirra aukist um 35% að raungildi frá árunum 1993--1999.

Þá er að sjálfsögðu lykilatriði að öryrkjum bjóðist markviss endurhæfing enda markmiðið að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Öryggisnet samfélagsins á að leitast við að þrýsta fólki upp á við en ekki verka eins og köngulóarvefur sem enginn á afturkvæmt úr. Síðan skiptir hugarfar máli og almennt viðhorf til samhjálparinnar sömuleiðis. Þannig hugnast mér t.d. miklu betur að leggja áherslu á það fríska í manninum en ekki það sjúka. Gaumgæfa ber hvað fólk getur gert en ekki hvað það getur ekki gert. Vissulega getur enginn unnið öll störf, en fáum er sem betur fer alls varnað. Hægt er að leggja áherslu á nýjustu upplýsingatækni og upplýsingasamfélagið í heild sinni sem ég tel að muni nýtast öryrkjum afar vel á næstu árum eins og þegar er farið að bera á. Með slíkum úrræðum er hægt að hvetja til aðgerða en ekki kyrrstöðu og stuðla þannig að aukinni atvinnuþátttöku þessa hóps.

Til dæmis hefur undanfarið verið leitast við að draga úr jaðaráhrifum í almannatryggingakerfinu. Má þar m.a. nefna að fastagjald af síma og afnotagjald Ríkisútvarpsins var fært inn í heimilisuppbót og að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skerði ekki lengur bætur almannatrygginga eins og áður. Þá voru frítekjumörk nýverið hækkuð verulega þannig að jaðaráhrifin koma fram við mun hærri tekjur en áður og hafa þar af leiðandi áhrif á færri lífeyrisþega. Hvati til að afla eigin tekna er þess vegna mun meiri en áður og aukin áhersla hefur verið lögð á þjálfun til að greiða aðgang að almennum vinnumarkaði. Auk þess hafa tekjur maka minni jaðaráhrif frá og með þessu ári.

Áfram er þó tekið tillit til eigna öryrkja eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið og í því felast ákveðin jaðaráhrif. Þess ber að minnast að Alþfl. heitinn hefur lengi barist fyrir því að eignir manna séu teknar með þegar mönnum er bætt tekjuleysi af almannafé.

Ég tel að á næstu árum sé mikilvægt að endurskoða bóta- og velferðarkerfið í heild sinni með því hugarfari að einfalda og auka jafnræði. Eins og kom fram fyrr í ræðunni er kerfið afar margslungið og samspil þess við skattkerfið flókið. Sams konar vinna er að fara af stað í ýmsum öðrum löndum. Það á ekki að vera sérstök fræðigrein, á valdi fárra að leysa til sín réttindi eða fjármuni úr kerfinu því að á sama tíma eru sumir sem eru í góðri trú og biðja réttmætt um aðstoð að fá mun minna en aðrir í sömu stöðu sem kunna betur á refilstigu kerfisins. Þannig á einföldun að verka bæði gegn oftryggingu og vantryggingu og auka þannig jafnræði og réttlæti kerfisins.

Herra forseti. Eins og kom fram í upphafi máls míns hefur kaupmáttur öryrkja þróast í takt við ástand efnahagsmála á undanförnum árum. Fyrir fjárhagslega afkomu öryrkja eins og annarra í landinu skiptir mestu til lengri tíma litið að tryggja áframhaldandi verðstöðugleika og vöxt í efnahagslífinu. Við vitum nokkurn veginn hvað þarf til, m.a. áframhaldandi aðhald í ríkisbúskapnum, en við vitum líka nákvæmlega hvernig hægt er að keyra efnahagslífið um koll. Við höfum fengið að sjá mjög ítarlegar tillögur um það núna nýlega hvernig hægt er að koma því á kaldan klaka á undraskömmum tíma og við skulum vona að slíkar tillögur komi ekki til framkvæmda, herra forseti.