Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 14:58:04 (4960)

1999-03-11 14:58:04# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[14:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér var að ljúka máli sínu hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður sem ég hef alla tíð borið mikla respekt fyrir. (Gripið fram í.) Virðingu, virðulegi formaður. Ég ber virðingu fyrir hv. þm. en hún fór ekki rétt með. Hún sagði að það hefði verið sagt hér á undan að allt væri í himnalagi. Það hefur enginn sagt, hv. þm. og hv. þm. man ekki langt aftur í tímann.

Fyrir nokkrum árum sat hv. þm. í ríkisstjórn með sjálfstæðismönnum. Ég taldi þá og tel reyndar enn að hún hafi viljað vel. Hún yfirgaf ríkisstjórnina, enda var hennar tími ekki kominn. En hún var búin að vera í nokkurn tíma í ríkisstjórn. Hún var búin að vera í tæplega sjö ár í ríkisstjórn þegar hún sagði skilið við félaga sína af því að tími hennar var ekki kominn.

Í ríkisstjórnartíð hv. þm. lækkaði kaupmáttur grunnlífeyris almannatrygginga fyrst um 16,2% og síðan um 6,1%. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur hann hins vegar hækkað um tæp 11%. Kaupmáttur heimilisuppbótar lækkaði á árunum 1987--1991 um 11,3% og á tímabilinu 1991--1995, á seinna tímabili hv. þm., lækkaði heimilisuppbótin enn frekar. Kaupmátturinn lækkaði um 6,1%. Skýringin? Jú, það voru erfiðleikar í þjóðarbúinu. En hvað nú þegar rofað hefur til, hvað þá?

[15:00]

Kaupmáttur heimilisuppbótar hefur hækkað um 71,4% á kjörtímabilinu. Ég endurtek: 71,4%. Í lok síðasta kjörtímabils, tíma hinna félagslegu lausna kratanna vantaði lífeyrisþega yfir 600 millj. á núvirði miðað við launavísitölu. Þetta voru gæði kratanna við lífeyrisþegana. Þetta er staðreynd um valdatíma kratanna í tryggingaráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Kratarnir gagnrýna framsóknarmenn. Fyrir hvað? Fyrir að hafa ekki verið nógu fljótir að laga skerðingarnar í bótakerfinu eftir þá sjálfa. En hvað hefur verið gert á þessu kjörtímabili? Þegar litið er til allra bótaflokka sameiginlega samanborið við launavísitölu, þá eru bætur nú 7,3 prósentustigum hærri en var í lok síðasta kjörtímabils. Á núgildandi verðlagi er þarna um að ræða um 325 millj. kr. til öryrkja og þegar aldraðir eru teknir með er munurinn árið 1998 yfir 1.200 millj. kr. Á þessu eina ári eru bótaþegar því að fá yfir 1,2 milljarða kr. meira í bætur en þegar kratarnir voru við völd og það á föstu verðlagi miðað við launavísitölu.

Ég talaði áðan um seinna kjörtímabil hv. málshefjanda. Það er ekki alveg rétt. Hv. þm. sagði af sér sem ráðherra á miðju síðasta kjörtímabili. Hennar tími var ekki kominn. Allir hér inni minnast þess þegar þingmaðurinn sagði af sér ráðherraembætti. En það var ekki til að mótmæla kaupmáttarskerðingu grunnlífeyris. Það var ekki til að mótmæla skerðingu tekjutryggingar. Það var ekki í mótmælaskyni við skertar heimilisuppbætur eða skertar sérstakar heimilisuppbætur. Það var af allt öðrum ástæðum.

Virðulegi forseti. Í velferðarkerfinu felst og hefur alltaf falist mismunun. Það var hreinlega sett á laggirnar til að mismuna á þann veg að hjálpa þeim sem gátu ekki en vildu svo mjög bjarga sér sjálfir. Velferðarkerfið er samningur þjóðfélagsþegnanna þar sem það er samningur kynslóðanna, samningur fámennrar þjóðar sem á flestan hátt er jafnari en aðrar þjóðir og þannig viljum við hafa það. Ég vil ekki stuðla að því að velferðarkerfið hrynji með því að lofa öllum öllu. Ég vil styrkja velferðarkerfið. Ég vil stuðla að því að þeir fái bætur sem þurfa. Aðeins þannig getum við vænst þess að það öryggisnet sem við höfum riðið svo þétt haldi.

Sú mikla almenna kaupmáttaraukning sem orðið hefur í þjóðfélaginu hefur vissulega skilað sér til öryrkja og aldraðra líka. En menn eru misjafnlega settir. Það er laukrétt.

Víða þarf að bæta hag lífeyrisþega. Það verður að bæta hag þeirra lífeyrisþega sem búa við lökust kjör. Mér er ofarlega í huga að öryrki sem eignast barn má ekki gjalda þess tekjulega. Slíkum reglum verður breytt.

Í öðru lagi má ekki refsa öryrkja fyrir að spara. Eðlilegur sparnaður öryrkjans má ekki skerða bætur hans. Þessu höfum við þegar breytt þannig að peningaeign yfir 4 millj. kr. hjá einstaklingi og tvöföld sú fjárhæð hjá hjónum og sambýlisfólki hefur ekki áhrif á bætur. Það er enn eitt skrefið og þau verða miklu fleiri.

Virðulegi forseti. Hér var rætt um ráðstefnu í Ráðhúsinu sem haldin var fyrir nokkru. Ég saknaði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þar. Ég sagði þar að ég vildi beita mér fyrir velferðarsáttmála til fjögurra næstu ára. Grunnurinn hefur verið lagður. Efnahagslífið stendur vel og við eigum að rétta hag þeirra sem minnst hafa. Formaður Framsfl. tók undir þetta í eldhúsdagsumræðum svo að eftir var tekið. Það þarf að verða um þetta víðtæk sátt.

Tíu ár eru síðan grunnurinn var lagður að þeim mikla stöðugleika og uppgangi sem hér er í atvinnulífinu. Nú þarf að gera nýja sátt, nýja þjóðarsátt. Allir stjórnmálaflokkar verða að koma að því verki eins og allir stjórnmálaflokkar gerðu veturinn 1990 beint og óbeint. Um það markmið á að geta orðið góð sátt í þjóðfélaginu.