Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:06:44 (4961)

1999-03-11 15:06:44# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Við erum að fjalla um skýrslu forsrh. um stöðu, aðbúnað og kjör öryrkja. Í skýrslunni eru ýmsar gagnlegar upplýsingar og er mjög gott að fá upplýsingarnar fram settar. Þótt ýmislegt orki tvímælis og myndin sé ekki alltaf glögg þá er gott að fá þessar upplýsingar. Hinu megum við náttúrlega ekki gleyma þegar fjallað er um stöðu öryrkja á Íslandi að á bak við þessar tölur er fólk og staðreyndin er sú að ef menn drukkna í prósentuflóðinu þá gleymist það. Öryrki getur mest fengið úr almannatryggingum um 66 þús. kr. Flestir eru með miklu minna og sumir miklum mun minna. Fólk sem er inni á stofnunum með svokallaða vasapeninga er með 12 þús. kr. Þetta eru staðreyndirnar og þessu megum við ekki gleyma. Við megum heldur ekki gleyma þeirri staðreynd sem fram hefur komið í umræðunni að á meðal þeirra sem leita til hjálparstofnana, til kirkjunnar og Rauða krossins, er yfir helmingur öryrkjar.

Ég er ekki alveg frá því að í stjórnarliðinu séu ýmsir farnir að hafa áhyggjur af eigin verkum. Þetta kom fram í eldhúsdagsumræðum fyrr í vikunni. Morgunblaðið hefur eftir í flennifyrirsögn: ,,Lagfæra þarf stöðu örorkulífeyrisþega.`` Það er annar helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar, formaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson, sem svo mælir. Í greininni er vitnað í ræðu hans og segir, með leyfi forseta:

,,Sagði hann m.a. að við þyrftum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvernig hægt yrði að nota aukið svigrúm á næsta kjörtímabili til þess að leiðrétta kjör fólksins. ,,Eigum við að nota það svigrúm til að lækka prósentu tekjuskattsins eða eigum við frekar að nota það svigrúm að minnsta kosti fyrst í stað til þess að draga úr skerðingum á tryggingabótum ...``

Eigum við að nota svigrúmið á næsta kjörtímabili, spyr hann.

Sannast sagna, hæstv. forseti, finnst mér það vera umhugsunarefni og sennilega annað og verra en umhugsunarefni, mér finnst það á mörkunum að vera sæmandi núna rétt fyrir alþingiskosningar að tala á þennan veg eftir öll þessi ár, eftir alla þá umræðu sem fram hefur farið í þessum sal um árásir á öryrkja og stöðuga skerðingu á lífskjörum þeirra. Ég er að vitna t.d. til þeirrar staðreyndar að bætur voru rifnar úr tengslum við launaþróun, þróun launataxtans. (KPál: Það er búið að laga það.) Nei, það er ekki búið að laga það. Það er rangt. Það hefur ekki verið lagað. Það hefur ekki verið bætt. Við vorum nú síðast í dag að fella eina slíka tillögu og hv. þm. Kristján Pálsson tók þátt í því að fella slíka tillögu um kjarabætur til lífeyrisþega þannig að kjör þeirra yrðu látin fylgja vísitölu. Það var núna síðast í dag.

Einnig má vitna til lyfjakostnaðar og margvíslegs sjúkrakostnaðar. Það má vitna til þess að teknir hafa verið af öryrkjum margvíslegir styrkir, útvarp, sjónvarp og sími. Lán til ökutækjakaupa fyrir öryrkja hafa verið hækkuð. Þau hafa verið markaðsvædd. Það er munur á því að greiða fjármagnskostnað af láni með 1% vöxtum eða 8,6% vöxtum. Það er munurinn á milli 10 þús. kr. annars vegar og 86 þús. kr. hins vegar fyrir hverja milljón sem tekin er að láni.

Á þessu hefur gengið allt þetta kjörtímabil og hvað hefur gerst? Öryrkjar hafa risið upp. Við höfum séð holskeflu af blaðagreinum, fundum og ráðstefnum. Núna síðast stóð Sjálfsbjörg fyrir myndarlegri ráðstefnu í Ráðhúsinu og Öryrkjabandalagið hefur gengist fyrir auglýsingaherferð til að reyna að vekja þjóðina.

Síðan fáum við þessa skýrslu ríkisstjórnarinnar. Hvað skyldi standa í upphafi hennar eftir allt það sem á undan er gengið? Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Eins og fram kemur í umfjöllun skýrslunnar hefur hagur öryrkja sífellt orðið betri á undanförnum árum.``

Þó tala tölurnar allt öðru máli. Það segir að á sama tíma og lægstu laun hafa hækkað um 53% (EOK: Lægstu taxtar.) hafi launavísitala Hagstofunnar hækkað um 29,8%. Lægstu taxtar er kallað úti í sal. Það var viðmiðun öryrkja áður fyrr. Síðan hafa þeir verið tengdir núna inn í meðaltalshækkun. (Gripið fram í.) Það er rétt. Það hefur verið gert og þannig hafa þeir verið hlunnfarnir um sinn skerf í þjóðarauðnum. Þetta er staðreynd. (Gripið fram í.) Þetta er staðreynd, jú. Sú upphæð sem hefur verið höfð af öryrkjum með þessu nemur orðið milljörðum króna á nokkurra ára tímabili. Um þetta deilir ekki nokkur maður. Um þetta þarf ekki að deila. (EOK: Nei, nei ...) Um þetta þarf enginn að deila. (EOK: Verkamenn hafa ekki hækkað um 52%.) Lægstu kauptaxtar hafa hækkað um 52%. Það kemur fram í skýrslu forsrh. Í skýrslu ríkisstjórnarinnar kemur fram að lægstu taxtar hafi hækkað um 52% á árabilinu 1993--1998. Þetta er síðan staðfest í skýrslunni. Þar er kaupmáttarþróun sett upp, annars vegar hjá launafólki og hins vegar hjá öryrkjum. Á bls. 17 segir að kaupmáttur grunnlífeyris og tekjutryggingar fari úr 100 í 107,5 á sama tíma og launavísitala fer í 118. Ef við tækjum síðan þróun lægstu kauptaxtanna, þá er hún miklu örari og miklu meiri. Þessar staðreyndir koma fram. En það er líka annað sem kemur fram í skýrslunni. Það er afstaða ríkisstjórnarinnar til þessa fólks. Það er alveg hárrétt sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að þetta er að sjálfsögðu spurning um hugarfar og nú ætla ég að vitna í svar ríkisstjórnarinnar við spurningum hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hv. þm. spyr: Hvaða kostnaður fellur að jafnaði á einstakling eftir að hann verður öryrki og hvaða kostnaðarliðir minnka eða hverfa? Hann spyr þessarar spurningar. Svar ríkisstjórnarinnar er þetta og nú ætla ég að minna þingheim á eitt, að einstaklingur sem er svo fatlaður að hann þarf að dvelja á stofnun og fær það sem kallað er vasapeninga, fær að hámarki um 12 þús. kr. á mánuði hverjum. Hvernig hugsar ríkisstjórnin til þessa fólks? Hún gerir það á eftirfarandi hátt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Kostnaður öryrkja getur orðið töluverður vegna örorku þeirra. Reynt er að koma til móts við öryrkja með lægri lyfja- og lækniskostnaði og lægri þjálfunarkostnaði. Í mörgum tilfellum fellur niður kostnaður í sambandi við vinnu sem öryrkinn getur ekki eða lítt stundað. Þar má nefna ferðakostnað, fatakostnað o.fl.``

Var verið að tala um hugarfar einnar ríkisstjórnar? Hún er að tala til fólks sem fær 12 þús. kr. á mánuði og segir í svari til Alþingis að það þurfi ekki á fötum að halda og það þurfi ekki að ferðast. (Gripið fram í.) Að auki get ég bent á það að af þessu fólki hefur verið klipið enn meira. Margvíslegir fatastyrkir sem áður voru við lýði hafa verið teknir af, enda þarf þetta fólk ekki að fæða sig eða klæða að mati ríkisstjórnarinnar. Ég segi bara eitt: Því fyrr sem við losnum við þessa ríkisstjórn, því betra.