Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:17:32 (4962)

1999-03-11 15:17:32# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Samkvæmt þeirri skýrslu sem er til umræðu hefur hagur öryrkja sífellt farið batnandi undanfarin ár. Þessari niðurstöðu til áréttingar velta skýrsluhöfundar sér af djúpri nautn upp úr margvíslegum prósentureikningum og komast að þeirri niðurstöðu að sá sem sé samkvæmt greiningu 75% öryrki fái greiddar í örorkulífeyri 52 þús. kr. mánaðarlega. Nái örorka hans ekki nema 50% lætur ríkið af hendi rakna af rausn sinni hvorki meira né minna en 16 þús. kr. á mánuði.

Ég vil aftur vekja athygli hv. alþingismanna á því að kjör umræddra einstaklinga hafa samkvæmt skýrslu hæstv. forsrh. farið batnandi. Að vísu segir í skýrslunni að viðbúið sé að skattbyrði örorkulífeyrisþega hafi þyngst á undanförnum fimm árum vegna breytinga á skattkerfi. Auk þess er bent á að umtalsverðar breytingar hafi verið gerðar á lögum um fjárhagsaðstoð og af því tilefni voru tekjumörk sett svo lág að margir lífeyrisþegar sem áttu áður rétt á aðstoð misstu þann rétt. Viðmiðunarmörkin sem hafa verið óbreytt síðan í apríl 1995 eru nú 53.596 kr. Því er ekki að undra að á bls. 8 í umræddri endemisskýrslu taki höfundar fram að neyslukannanir gefi ekki marktækari niðurstöðu um neyslu öryrkja.

Vissulega hefði verið fengur að því nú í góðærinu að fræðast um hver er neysla fólks sem hefur 52 þús. kr. í mánaðarlegan lífeyri. Raunar eru 52 þús. kr. meðaltal því að 74% þeirra tæplega 8 þús. öryrkja sem eru til í landinu hafa aðeins 45 þús. kr. sér til framfærslu mánaðarlega. En 5% fólksins fá svokölluð full laun sem nema 66 þús. kr. á mánuði.

Þegar þessar tölur eru hafðar í huga skyldi engan undra þótt íbúðaeigendum í hópi öryrkja hafi fækkað á undanförnum árum, bíleigendum hafi fækkað en öryrkjum sem leita neyðaraðstoðar hjá Hjálparstofnun kirkjunnar hafi fjölgað gífurlega. Fólk býr árum saman við að þurfa að neita sér um flest það sem aðrir telja lífsnauðsynjar. Það getur ekki veitt börnum sínum það að taka þátt í íþróttum eða félagsstarfi ásamt jafnöldrum sínum, hefur hvorki ráð á félagslífi né ferðalögum, getur ekki keypt sér fatnað né gefið ættingjum afmælisgjafir. Dettur nokkrum í hug að fólki sem býr við slíkar aðstæður sé hjálp í skýrslu sem leiðir að því líkur að ástandið hafi einhvern tíma verið verra?

Harpa Njáls félagsfræðingur hefur bent á það í merkilegri skýrslu að þeir þjóðfélagshópar sem þurftu á fátækraframfærslu að halda árið 1907 hafi verið nánast þeir sömu og enn heita á hurðir hjálparstofnana. Þar eru öryrkjar fyrirferðarmiklir sem fyrr. Öll góðæri okkar virðast hafa sneitt hjá garði þeirra sem dæmdir eru til að búa við fötlun og örorku. Þeir hafa hins vegar fengið að kenna á samdráttartímum, jafnvel öðrum fremur.

Á tímum góðæris er niðurlægjandi að standa á hinu háa Alþingi og ræða um hvort ákveðnum þjóðfélagshópum sé boðlegt að draga fram lífið á 50 þúsund kr. á mánuði. Prósentureikningur til að sanna að laun slíks fólks hafi batnað meira en annarra er hlægilegur. Það blasir við öllum að slík laun duga ekki til framfærslu.