Landshlutabundin skógræktarverkefni

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:43:58 (4970)

1999-03-11 15:43:58# 123. lþ. 87.3 fundur 484. mál: #A landshlutabundin skógræktarverkefni# frv. 56/1999, EgJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:43]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það vildi svo til einn dag í fyrri viku að í minn hlut kom að hafa forustu fyrir störfum landbn. og þá var gengið frá samkomulagi um hvaða mál skyldu ganga áfram og hver skyldu sitja eftir. Eitt þeirra sem sitja skyldi eftir var einmitt þetta mál sem hér er til umræðu.

Ég var svo eitt sinn boðaður á fund í myndaherbergið og fylgdist með umræðu sem fór fram að viðstöddum landbrh. Ég lét þá skoðun mína þar í ljósi að ég væri andvígur þessum breytingum. Eftir það hef ég ekki verið boðaður á fund í landbn. og ég hef ekki fylgst með afgreiðslu þessa máls þar. Ég setti jafnframt fram þá skoðun mína í þessari umræðu að í sambandi við afgreiðslu þessa máls væri verið að taka ákvarðanir um óheillaspor og því var þá gjarnan haldið fram að þetta væri sótt fast af hendi forustumanna bænda í skógræktarmálum.

Nú vill svo til að forustumenn skógarbænda sem hafa nú átt þess kost að virða fyrir sér þær tillögur sem hér er verið að afgreiða, hafa einmitt haft samband við mig og auðvitað áttuðu þeir sig á því hvað hér stendur til. Þeir hafa þess vegna beðið mig að koma á framfæri (Gripið fram í: Hverjir?) mótmælum sínum. Skógarbændur, formaður skógarbænda og forustumenn skógarbænda á Austurlandi. Ég hef þess vegna rætt við landbrh. og óskað þess að málið yrði ekki látið ganga fram. En mér er ljóst að hann er því ekki sammála og þar af leiðandi tjóar ekki að taka til við frekari aðgerðir í þessu máli að þessu sinni.

Ég vildi koma þessu hér á framfæri og undirstrika sérstaklega að það er ekki rétt sem haldið hefur verið fram í umræðunni að með þessari afgreiðslu sé málið sérstaklega þóknanlegt skógarbændum nema síður sé. Ég vil líka mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér hafa átt sér stað þar sem öllum nefndarmönnum, og þá á ég sérstaklega við mig, var ekki gefinn kostur á því að fygljast með störfum landbn. í þessum efnum.