Landshlutabundin skógræktarverkefni

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:48:24 (4971)

1999-03-11 15:48:24# 123. lþ. 87.3 fundur 484. mál: #A landshlutabundin skógræktarverkefni# frv. 56/1999, Frsm. GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. verð ég að segja að til fundar í landbn. er boðað með ákveðnum hætti. Stundum vantar þar menn en það er ekki á ábyrgð formanns að hv. þm. Egill Jónsson var þar ekki staddur. Satt að segja verð ég að segja að ég saknaði hans innilega því að úrræði hans hafa oft reynst landbúnaðinum vel.

Ég vil taka fram að við hinir sem störfuðum í nefndinni höfum verið í fullu samstarfi við skógarbændur. Á Alþingi og í nefndum þingsins ræður ekki einn vilji. Gjarnan vildi ég að vilji minn réði en ég er feginn að hann ræður ekki alltaf. Það eru svo margir aðrir sem hafa góðar skoðanir og rétt fyrir sér. Hér hefur, eins og oft áður í nefndarstarfi, náðst samkomulag sem er mikilvægt. Ég vona að bráðabirgðaákvæðið og sá viðbótarfulltrúi sem kemur inn í skógræktarverkefni verði ekki framtíð skógræktar í íslenskum sveitum til trafala. Þess vegna legg ég til að þetta mál fari áfram, um það verði sátt og það muni ná fram að ganga.