Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 16:22:00 (4982)

1999-03-11 16:22:00# 123. lþ. 87.11 fundur 612. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 9/1999, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er niðurstaða úr löngum umleitunum innan sjútvn. til niðurstöðu um þau mál sem nefndin hefur fengist við frá því að lagasetningu lauk í janúar um málefni krókabátanna svokölluðu í kjölfar dóms Hæstaréttar í desember sl. Verkefnið eins og það lá fyrir þá var að koma ákvæðum í lög um veiðar þessara báta þess efnis að þær yrðu til frambúðar eftir stjórnkerfi sem síðan yrði ekki breytt líkt og verið hefur um veiðar aflamarksskipanna um langt árabil.

Við höfum ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að ná því marki að mínu viti en ég tel að með þessu frv. sé horft til betri vegar heldur en niðurstaðan varð í janúar sl. Auk atriða sem eru bein lagfæring á lagaákvæðum frá þeim tíma eru þrjú efnisleg atriði sem ég vil gera örlitla grein fyrir.

Í fyrsta lagi það sem fram kemur í 1. gr. frv. sem varðar dagabátana, þá sem vilja enn stunda veiðar við sóknardagakerfi. Skerðing þeirra réttinda verður nú takmörkuð enn frekar en verið hefur.

Meginefnið kemur fram í 2. gr. frv. þar sem aðrir krókabátar sem vilja færast inn í hið svokallaða krókaaflamark, líkt og aflamarksskipin stunda veiðar eftir, geti með þessari gjörð flust inn í varanlegt kerfi þegar á þessu ári en þurfi ekki að bíða allt til hausts árið 2000.

Þriðja efnislega atriðið kemur fram í 4. gr. frv. og varðar skip sem án c-liðarins í þeirri grein mundu falla til hliðar við úthlutun jöfnunar samkvæmt lögunum frá í janúar. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um réttlætis- eða sanngirnismál að ræða þar sem fjallað er um skip sem hefðu fallið utan þeirrar jöfnunar, ef ekki hefði komið til eigendaskipta, þó svo útgerðin hefði enn stundað veiðar eingöngu við eigin aflaheimildir, ekki átt nein viðskipti með aflaheimildir, hefðu landað þeim öllum sjálf en aðeins skipin hefðu verið endurnýjuð.

Um mál þetta í heild verð ég að segja að ég er enn þeirrar skoðunar að við löggjöf af þessu tagi sem takmarkar atvinnufrelsi manna, hvort sem þeir starfa einir sér eða í félögum, þá er okkur nauðsyn að ákvæðin verði almenn og eigi jafnt við um alla. Ég tel að við eigum enn nokkuð í land til að ná því marki. Ég vænti þess að við náum því þótt síðar verði.

Að þessu sinni tel ég að allir nefndarmenn hafi lagt nokkuð til af sjónarmiðum sínum því að við vorum alls ekki sammála en náðum þó málamiðlun. Fyrir það vil ég þakka hverjum sem lagði sitt til. Auk þess vil ég nota tækifærið til að þakka hv. þm. og þeim sem stjórnað hafa starfi okkar, störfin á þessu þingi.