Minning Óskars E. Levís, fyrrv. alþingismanns

Fimmtudaginn 25. mars 1999, kl. 10:33:22 (0)

1999-03-25 10:33:22# 123. lþ. 90.1 fundur 401#B minning Óskars E. Levís, fyrrv. alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 123. lþ.

[10:33]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Nú verður minnst látins fyrrverandi alþingismanns:

Óskar E. Levy, bóndi og fyrrverandi alþingismaður, andaðist mánudaginn 15. mars, 86 ára að aldri.

Óskar E. Levy var fæddur á Ósum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu 23. febrúar 1913. Foreldrar hans voru hjónin Eggert Levy bóndi þar og Ögn Guðmannsdóttir Levy húsmóðir. Hann starfaði á búi foreldra sinna á óðalsjörðinni Ósum fram eftir aldri, en tók við jörð og búi árið 1948 og bjó þar síðan til æviloka.

Óskar E. Levy var hreppstjóri Þverárhrepps 1950--1983, tók við því starfi af föður sínum, og sýslunefndarmaður var hann mörg ár frá 1947. Í sauðfjársjúkdómanefnd var hann 1960--1983, formaður nefndarinnar eitt kjörtímabil. Hann varð alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra við þingmennskuafsal aðalmanns frá 1. febrúar 1966 fram að alþingiskosningum í júní 1967. Auk þess tók hann sæti varamanns á Alþingi á árunum 1965 og 1968--1970, sat á sex þingum alls.

Óskar E. Levy var ævilangt til heimilis á Ósum. Hann og faðir hans stóðu þar fyrir búi nærfellt alla þá öld sem nú er senn á enda. Hann bjó vel að jörð sinni með ræktun og öðrum umbótum. Hann tók við fleiri trúnaðarstörfum af föður sínum en fyrr voru talin, var meðal annars endurskoðandi reikninga hreppsfélaga, sjúkrahúss og sparisjóðs. Hann átti ekki langa setu á Alþingi. Byggðamál voru honum hugstæð og hér vann hann vel að þeim, þar á meðal skólamálum heimasveitar sinnar. Hann vildi veg landsbyggðarinnar sem mestan.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Óskars E. Levys með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]