Þingfrestun

Fimmtudaginn 25. mars 1999, kl. 10:59:01 (0)

1999-03-25 10:59:01# 123. lþ. 91.96 fundur 410#B þingfrestun#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 123. lþ.

[10:59]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Háttvirtir alþingismenn. Ég mun nú gefa yfirlit yfir störf 123. löggjafarþings.

[11:15]

Þingið stóð yfir frá 1. okt. til 20. des. 1998, frá 6.--13. jan., 2. febr. til 11. mars og 25. mars 1999. Á þingtímanum urðu þingfundardagar alls 69. Þingfundir hafa verið 91 og stóðu þeir samtals í 386 klukkustundir.

Mun ég nú fyrst gera grein fyrir þingmálum og úrslitum þeirra:

Lagafrumvörp voru samtals 200. Stjórnarfrumvörp voru 114 og þingmannafrumvörp voru 86.

82 stjórnarfrumvörp voru afgreidd sem lög, óútrædd stjórnarfrumvörp eru 31 og einu stjórnarfrumvarpi var vísað til ríkisstjórnarinnar.

13 þingmannafrumvörp urðu að lögum, tveimur var vísað til ríkisstjórnarinnar, en 70 þingmannafrumvörp eru óútrædd. Eitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga var samþykkt.

Af 200 frumvörpum urðu alls 95 að lögum.

Þingsályktunartillögur voru alls 105. Stjórnartillögur voru 11 og þingmannatillögur voru 94.

28 tillögur voru samþykktar sem ályktanir Alþingis. Ein var felld, sex var vísað til ríkisstjórnarinnar og 70 óútræddar.

Skýrslur voru samtals 27. Beiðnir um skýrslur ráðherra voru þrjár, og bárust tvær skriflegar skýrslur. Aðrar skýrslur lagðar fram voru 25.

Fyrirspurnir. Bornar voru fram 285 fyrirspurnir. Allar voru þessar fyrirspurnir afgreiddar nema 16. Munnlegar fyrirspurnir voru 128 og af þeim var svarað 113 og 3 voru kallaðar aftur. Beðið var um skrifleg svör við 157 fyrirspurnum og bárust 153 svör.

Alls voru til meðferðar í þinginu 618 mál. Þar af voru 405 afgreidd og tala prentaðra þingskjala var 1233.

Þá vil ég gefa yfirlit um nefndastarfið. Á þessu þingi voru 14 dagar eingöngu helgaðir nefndastarfi, fyrir utan reglubundna nefndafundi yfir þingtímann. Á yfirstandandi þingi hafa verið haldnir alls 274 nefndafundir en það þýðir að hver af 12 fastanefndum þingsins hélt að meðaltali 23 fundi. Alls fóru 526 klukkustundir í nefndafundi. Lengsti nefndafundur vetrarins var ríflega 12 klukkustunda langur.

Fastanefndir þingsins afgreiddu frá sér 122 mál. Samtals voru 155 þingmál send til umsagnar utan þings. Bárust nefndum þingsins um 1.700 erindi um þingmál. Auk þessa hafa nefndir fjallað um mál að eigin frumkvæði og nokkrar nefndir hafa farið í vettvangsferðir á þessu þingi.

Eins og jafnan á kosningaári hafa þingstörf staðið skemur en hin fyrri ár á kjörtímabilinu. Þó hafa verið afgreidd fjölmörg mál og í reynd ekki miklu færri en á öðrum reglulegum þingum. Mörg þessara mála hafa verið veigamikil og þeirra á meðal nokkur sem valdið hafa miklum deilum innan og utan þings, ekki síst frumvörpin um gagnagrunn á heilbrigðissviði, um stjórn fiskveiða og um breytingar á kjördæmaskipuninni. Þrátt fyrir ágreiningsmál sem þessi hefur tekist að ljúka störfum Alþingis samkvæmt starfsáætlun þingsins og vil ég þakka alþingismönnum öllum fyrir samstarfsvilja þeirra í því efni.

Þegar ég tók við starfi forseta Alþingis í upphafi þessa kjörtímabils lét ég þess getið að mér væri umhugað að styrkja stöðu Alþingis í stjórnkerfinu. Í því sambandi hafa einkum fimm þættir verið mér ofarlega í huga: að endurskoða þingsköpin, að vinna að umbótum í húsnæðismálum þingsins, bæta starfskjör þingmanna, styrkja skrifstofu þingsins og styrkja enn frekar stofnanir Alþingis.

Á þessu kjörtímabili var veruleg vinna lögð í endurskoðun þingskapa og hafði forsætisnefnd um það mál samvinnu við formenn þingflokka. Niðurstaða þeirrar vinnu var frumvarp til breytinga á lögum um þingsköp sem forsætisnefnd lagði fyrir Alþingi síðla á þessu þingi. Ekki tókst að afgreiða það mál fyrir þinglok þótt ætla megi að frumvarpið hafi haft mikinn stuðning. Að mínu mati hefði samþykkt frumvarpsins orðið til að styrkja mjög stöðu þingsins. Eftirlitshlutverk Alþingis hefði styrkst svo og forusta þess og nefndakerfið. Mér er engin launung á að það urðu mér vonbrigði að ekki tókst að afgreiða þingskapafrumvarpið á þessu þingi. Ég geri mér grein fyrir að þar á forusta þingsins nokkra sök sjálf því að ekki tókst að leggja frumvarpið fram nægilega snemma á þessu þingi. En vitaskuld var einnig pólitískur ágreiningur um sum ákvæði frumvarpsins og nefni ég þar einkum tillögur um takmörkun ræðutíma. Það er von mín að þeim sem taka sæti á Alþingi eftir næstu kosningar auðnist að afgreiða málið í þeim anda sem frumvarpið er nú. Best færi á því að slíkar breytingar yrðu til lykta leiddar þegar á vorþinginu sem kemur saman að loknum kosningum.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að löggjafarþing sem tryggir ekki þingmönnum og starfsfólki viðunandi aðstöðu getur ekki rækt hlutverk sitt og staða þess verður óhjákvæmilega veikari fyrir bragðið. Það hefur því verið eitt af höfuðviðfangsefnum forustu þingsins þetta kjörtímabil að bæta starfsaðstöðu þingmanna og starfsmanna Alþingis. Ég tel að mikið hafi áunnist í þessum efnum og vísa þá einkum til endurbyggingar húsa þingsins við Kirkjustræti og fyrirhugaðs þjónustuskála vestan við Alþingishúsið. Ég vænti þess að framkvæmdir við skálann geti hafist í maí- eða júnímánuði og að lokið verði við að steypa upp bygginguna um áramót þannig að fyrir haustið árið 2000 verði hægt að taka skálann í notkun. Þjónustuskálinn mun bæta mjög aðstöðu þingsins og ekki síst létta á þeirri ánauð sem nú er á Alþingishúsinu. En skálinn er aðeins einn áfangi af mörgum í húsnæðismálum þingsins.

Það er stefna forsætisnefndar að í framhaldi af skálabyggingunni verði reist hús vestan hans er leysi af hólmi það húsnæði sem þingið ýmist á eða leigir nú á víð og dreif um Kvosina. Því er hins vegar ekki að leyna að slíkar byggingarframkvæmdir geta verið erfitt verk, m.a. vegna þess að nauðsynlegt verður að ráðast í umfangsmiklar og tímafrekar fornleifarannsóknir á Alþingisreitnum áður en framkvæmdir geta hafist. Til að bregðast við þessu er í 7. gr. fjárlaga heimild til handa ríkissjóði til að kaupa eða leigja húsnæði í nágrenni Alþingishússins fyrir starfsaðstöðu Alþingis og taka til þess nauðsynleg lán.

Ég hef litið svo á að það væri verkefni okkar sem erum í forustu þingsins að undirbúa framkvæmdir við skálann en það kæmi svo í hlut nýrrar forsætisnefndar að ganga til þeirra verka að finna sem fyrst að loknum kosningum hentugt húsnæði í Kvosinni þannig að segja megi upp leiguhúsnæði og selja annað húsnæði sem ekki er eins hagkvæmt fyrir starfsemi þingsins.

Þá vil ég víkja að starfskjörum þingmanna. Ég hef ekki hikað við að halda fram þeirri skoðun að bæta þurfi starfskjör þingmanna og að það sé nauðsynleg forsenda þess að styrkja sjálfstæði þingmanna og gera þinginu betur kleift að rækja hlutverk sitt. Um það get ég eitt sagt að ég hefði viljað sjá meiri árangur á þessu sviði í forsetatíð minni en í þessum efnum ræður forseti ekki einn för. Ný lög um þingfararkaup og þingfararkostnað, sem samþykkt voru á Alþingi á árinu 1995, voru spor í rétta átt.

Á árinu 1997 var sett ný löggjöf bæði um Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis. Þau lög munu til lengri tíma litið efla og styrkja stöðu þessara stofnana þingsins verulega. Það er einnig mikilvægt að samskipti Alþingis og stofnana þess séu sem greiðust. Stofnun sérstakrar stjórnlaganefndar, sem kveðið er á um í þingskapafrumvarpinu, mundi verða til mikilla hagsbóta bæði fyrir Alþingi og stofnanir þess. Slík nefnd mundi fjalla almennt um málefni þessara stofnana sem og um skýrslur þeirra. Það væri ekki aðeins gagnlegt fyrir þessar stofnanir að hafa vettvang sem fjallar um málefni þeirra og sem þær geta sótt stuðning til heldur er um leið tryggt ákveðið þinglegt eftirlit með störfum þeirra.

Seinasta atriðið sem ég vil nefna um stöðu Alþingis lýtur að skrifstofu þess. Það skiptir miklu að þingið hafi yfir að ráða hæfu starfsliði. Á undanförnum árum hefur skrifstofa þingsins verið efld verulega og þjónusta við þingmenn og þingnefndir tekið stakkaskiptum. Þessu starfi hefur verið haldið áfram á þessu kjörtímabili og var skipulag skrifstofunnar tekið til endurskoðunar í því skyni að gera störf hennar skilvirkari. Jafnframt hefur ýmis þjónusta skrifstofunnar verið stórlega bætt og nefni ég í því sambandi nýstofnaða upplýsingaþjónustu þingsins.

Þegar ég lít yfir þetta kjörtímabil er ég í heild nokkuð sáttur við þann árangur sem náðst hefur og lýtur að störfum Alþingis. Þó að vissulega megi enn bæta starfshætti þingsins tel ég að menn séu almennt sammála um að miklar og góðar breytingar hafi orðið á störfum Alþingis á seinustu tveimur áratugum. Á þessum tíma hefur eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu eflst. Hert hefur verið á eftirlitsákvæðum í stjórnarskrá og þingsköpum og þingið hefur fleiri tæki en áður til að sinna þessu hlutverki sínu og eins er þessum tækjum beitt meira en áður. Stjórnvöld fá því meira aðhald og finna meira fyrir návist þingsins. Það er af hinu góða.

En Alþingi hefur ekki aðeins styrkst að þessu leyti heldur hefur löggjafarstarf þess batnað og ég fullyrði að meðferð mála sé nú vandaðri en áður. Mér þykir því slæmt þegar menn falla stundum í þá gryfju að lýsa Alþingi sem afgreiðslustofun. Það er rangt og þeir sem svo tala gera ekki annað en að skaða ímynd Alþingis.

Nú styttist í að landsmenn fagni 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Gert er ráð fyrir hátíðarsamkomu á Þingvöllum 1. og 2. júlí að ári og er fyrirhugað að halda þingfund á síðari degi hátíðarhaldanna.

Ég vil af þessu tilefni rifja upp þá hugmynd sem ég setti fram fyrir nokkrum árum um að rétt væri að setning Alþingis fari fram á Þingvöllum og vel færi á því að svo yrði í fyrsta sinn árið 2000, eftir 200 ára hlé.

Í ræðu minni um þetta efni við setningu Alþingis 2. okt. árið 1995 nefndi ég mikilvægi þess að hlúa að þeirri arfleifð er tengir okkur við hið forna Alþingi á Þingvöllum og þar með sögu okkar sem þjóðar enda eru Alþingi og Þingvellir tengd órofa böndum. Til þess að glæða lífi þau tengsl sem eru milli Alþingis og Þingvalla og til að gefa almenningi færi á þátttöku í þessari athöfn þætti mér fara vel á því að Alþingi yrði sett ár hvert á Þingvöllum.

Ég vil skýra frá því að í byrjun næsta árs kemur út viðamikið rit um sögu kristni á Íslandi í 1000 ár. Verk þetta er framlag Alþingis til minningarhátíðar um kristnitökuna og er það unnið í samræmi við samþykkt Alþingis frá 26. mars 1990. Kristnisagan mun verða eitt umfangmesta ritverk sem gefið hefur verið út hér á landi í einu lagi. Það verður í fjórum bindum og hvert bindi verður nærri 500 blaðsíður að lengd. Alls hafa 15 fræðimenn unnið að ritun þess. Ég tel að Alþingi sé mikill sómi af útgáfu þessa ritverks.

Við lok þessa kjörtímabils munu margir alþingismenn hverfa af þingi. Sumir hafa ákveðið að bjóða sig ekki fram við kosningarnar og aðrir eiga ekki afturkvæmt hingað í þennan sal eins og gerist og gengur. Í þeim hópi alþingismanna, sem ákveðið hefur að sækjast ekki eftir endurkjöri, er sá þingmaður sem á sér nú lengstan feril á Alþingi, háttvirtur 4. þingmaður Norðurlands vestra, Ragnar Arnalds. Ég vil þakka honum fyrir störf hans á Alþingi þau 32 ár sem hann hefur átt hér sæti. Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hefur Ragnar Arnalds gegnt embætti 1. varaforseta Alþingis. Samstarf okkar Ragnars hefur verið sérstaklega gott og vil ég þakka honum fyrir það.

Þá hverfur nú af þingi háttvirtur 1. þingmaður Sunnlendinga, Þorsteinn Pálsson ráðherra, fyrrv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Fyrir hönd Alþingis þakka ég honum fyrir störf hans í þinginu þau 16 ár sem hann hefur setið á Alþingi. Við Þorsteinn höfum verið samherjar í stjórnmálum um langt skeið og vil ég þakka honum persónulega fyrir náið og gott samstarf á liðnum árum og óska honum velfarnaðar í nýju starfi á erlendri grund.

Ég vil einnig þakka öðrum samþingsmönnum sem ekki verða í framboði eða eru ekki í efstu sætum framboðslista fyrir þeirra störf hér á Alþingi, þeim Agli Jónssyni, Guðmundi Bjarnasyni ráðherra, Stefáni Guðmundssyni, Kristínu Ástgeirsdóttur, Gunnlaugi Sigmundssyni, Magnúsi Árna Magnússyni og Guðrúnu Helgadóttur fyrrv. forseta sameinaðs Alþingis. Þeir Egill, Stefán og Guðmundur hafa setið á Alþingi í 20 ár, komu fyrst til þings haustið 1979, Kristín hefur setið hér í átta ár, Gunnlaugur í fjögur ár, Magnús Árni síðari hluta þessa þings og Guðrún kom aftur til þings fyrir skömmu. Fyrr á þessu þingi kvöddum við þrjá þingmenn, Friðrik Sophusson og Svavar Gestsson, sem hafa haldið til annarra starfa, og Ástu B. Þorsteinsdóttur sem lést sl. haust.

Ég ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem nú hverfa af þingi fyrir störf þeirra í þágu lands og þjóðar og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Þá vil ég færa fréttamönnum þakkir fyrir samstarfið. Þeirra starf er afar þýðingarmikið og vandasamt. Það er mikilvægt fyrir Alþingi að almenningur í landinu eigi kost á því að fylgjast sem best með því sem hér er að gerast hverju sinni.

Jafnframt þakka ég hæstv. ríkisstjórn fyrir samstarfið og forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna á þessu þingi og á undanförnum árum.

Þar sem ég er einn af þeim sem láta nú af þingmennsku vil ég þakka samþingsmönnum mínum fyrir góða viðkynningu og samstarf á umliðnum árum, samstarf sem hefur verið ánægjulegt í hvívetna. Hér er gott að starfa, hér er góður andi í þessari virðulegu stofnun og hér verða vinatengsl þvert á öll flokksbönd.

Ég læt nú af þingmennsku sáttur við alla og á góðar minningar um störf mín hér. Ég verð þó um leið að játa að ég hverf héðan með vissum trega. Ég mun sakna Alþingis. Ég hef notið þeirra 28 ára sem ég hef setið á Alþingi, jafnt sem óbreyttur þingmaður, þingflokksformaður og ráðherra og nú síðast sem forseti Alþingis. Ég hef ekki síst haft mikla ánægju af starfi þingforseta og hef leitast við að gegna því virðulega starfi eins vel og ég hef best getað.

Ég vil að lokum óska alþingismönnum góðrar heimferðar og heimkomu og árna ykkur öllum heilla. Þeim sem leggja út í kosningabaráttuna óska ég alls hins besta og segi eins og skrifað er í fornum sögum: ,,Gæti hver sín og sinna sveitbúa en Guð allra vor.``

Landsmönnum öllum óska ég árs og friðar.