Þingfrestun

Fimmtudaginn 25. mars 1999, kl. 11:15:58 (0)

1999-03-25 11:15:58# 123. lþ. 91.96 fundur 410#B þingfrestun#, RG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 123. lþ.

[11:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Forseti Alþingis. Lok kjörtímabils vekur ólíkar tilfinningar í brjóstum okkar alþingismanna. Margir þingmenn ljúka nú merkum kafla í lífi sínu. Aðrir leita endurkjörs í eftirvæntingarfullri kosningabaráttu. Hjá okkur öllum eru þáttaskil.

Þetta kjörtímabil hefur verið sérstakt fyrir margra hluta sakir. Eins og ávallt áður hafa mjög mörg mál verið afgreidd á hverju þingi og stórmál hafa verið til lykta leidd. Um sum þeirra hafa staðið deilur innan og utan þings. En sérstæðast er þó að þriðjungur alþingismanna lýkur þessu kjörtímabili í nýjum þingflokkum. Það er til marks um uppstokkun í íslenskum stjórnmálum og breytingar sem móta munu kosningabaráttuna og störf Alþingis á komandi árum.

Forseti Alþingis hefur að vanda flutt okkur yfirlit yfir störf þingsins og kveðjur sínar til okkar þingmanna við starfslok. Ég vil þakka honum fyrir hlý orð í okkar garð.

Forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, hverfur nú af þingi en hann á að baki langan og farsælan þingferil. Við höfum notið þess að hafa óvenjureyndan þingmann sem forseta og það er ekki oft sem slíkir hafa setið á forsetastóli Alþingis. Hann var í 12 ár formaður þingflokks sjálfstæðismanna og menntmrh. á kjörtímabilinu 1991--1995. Mér er ljúft að flytja Ólafi G. Einarssyni kveðjuorð fyrir hönd okkar þingmanna. Ég hef þekkt hann lengur en samstarfi okkar á Alþingi nemur og veit hvaða ljúfmenni hann hefur að geyma. Hann er lipur að eðlisfari og mjúkur í mannlegum samskiptum og það á sinn þátt í góðu orðspori hans. Hann þótti mjög farsæll þingflokksformaður og hefur notið virðingar í störfum sínum á Alþingi.

Ólafur G. Einarsson hefur í forsetatíð sinni verið áhugasamur um breytt starfsumhverfi alþingismanna. Hann hefur lagt áherslu á sjálfstæði Alþingis og verið ötull talsmaður þingsins. Á fundum okkar þingflokksformannanna með forseta hefur gjarnan ríkt glaðværð og léttleiki. Hann hefur lagt áherslu á jákvætt samstarf.

Ég flyt forseta Alþingis innilegar þakkir okkar fyrir vel unnin störf og góð samskipti. Ég er þess viss að við munum á komandi kjörtímabili ljúka þeirri vinnu við breytingar á þingsköpum Alþingis sem hann hafði frumkvæði að.

Þessi dagur er sérstakur vegna þess að við komum saman eftir tveggja vikna hlé til að ljúka þingstörfum og til að kveðjast. Ég færi starfsfólki Alþingis bestu þakkir okkar þingmannanna fyrir umburðarlyndi og gott samstarf en fyrst og fremst ánægjuleg samskipti á liðnum árum.

Ég óska þingmönnum öllum og fjölskyldum þeirra velfarnaðar og þakka þeim góða samvinnu. Forseta og fjölskyldu hans óska ég allra heilla í framtíðinni og bið hv. þingmenn að taka undir orð mín með því að rísa á fætur. --- [Þingmenn risu úr sætum.]

Í virðingu og þökk vil ég afhenda forseta Alþingis þennan blómvönd frá okkur alþingismönnum.