Kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 14:17:24 (6)

1998-10-01 14:17:24# 123. lþ. 0.5 fundur 5#B kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Háttvirtir alþingismenn. Ég þakka hæstv. starfsaldursforseta, Ragnari Arnalds, árnaðaróskir í minn garð. Enn fremur þakka ég háttvirtum alþingismönnum fyrir það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að endurkjósa mig forseta Alþingis. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við alla alþingismenn á því þingi sem nú fer í hönd eins og á síðasta þingi.

Að venju hefur forsætisnefnd samþykkt starfsáætlun fyrir það þing sem nú er að hefjast og verður henni útbýtt til þingmanna í dag. Samkvæmt starfsáætluninni lýkur þingstörfum í fyrra lagi á þessu þingi vegna alþingiskosninga sem halda á 8. maí í vor. Þingfrestun verður 10. mars. Helsta nýmæli starfsáætlunar þessa þings er að stefnuræða forsætisráðherra verður nú flutt við sjálfa þingsetningarathöfnina en umræðan um hana verður síðan í kvöld. Ég vil færa hæstv. forsætisráðherra og formönnum þingflokka sérstakar þakkir fyrir samstarfsvilja við að koma á þessari breytingu.

Á þessu ári hefur verið unnið að undirbúningi næsta áfanga í húsnæðismálum Alþingis í samræmi við fjárveitingu á fjárlögum til nýbygginga á Alþingisreit. Hönnun þjónustuskála, sem fyrirhugað er að rísi vestan við Alþingishúsið, miðar vel áfram en reyna mun á það við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár hvort ráðist verði þá í framkvæmdir.

Ég hef áður úr þessum stól getið um þá stórstígu þróun sem orðið hefur í upplýsingamiðlun af hálfu Alþingis, t.d. með tilkomu sérstakrar vefsíðu þingsins á netinu. Það er mér því sérstakt ánægjuefni að geta skýrt frá því að frá og með deginum í dag geta allir sem hafa aðgang að netinu, hvar sem er í heiminum, fylgst með útsendingu af þingfundum frá tölvuskjám. Þetta nýmæli skipar Alþingi á bekk með þeim þjóðþingum sem lengst eru komin í því að hagnýta sér möguleika netsins til að miðla upplýsingum um starfsemi sína.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að skýra frá því að fyrir skömmu var undirritaður samningur milli Alþingis og Landssímans hf. um að Alþingi fái til afnota eina sjónvarpsrás á breiðbandi Landssímans til útsendingar frá fundum Alþingis og á öðru sjónvarpsefni sem varðar störf Alþingis. Allir þeir sem eru tengdir breiðbandinu munu eiga kost á að nýta sér þessa útsendingu sér að kostnaðarlausu. Með þessum samningi er tryggð samfelld útsending frá þingfundum í gegnum miðil sem Landssíminn áætlar að muni ná inn á hvert heimili í framtíðinni. Um leið skapast tækifæri fyrir Alþingi til þess að nota rásina til útsendingar á öðru efni þegar ekki er sent út frá þingfundum. Í því sambandi kæmi t.d. til greina að senda út fræðsluefni um Alþingi á breiðbandsrásinni. Jafnframt væri þingflokkum sköpuð aðstaða til að vera með sérstaka dagskrá til að kynna stefnumál sín sem og til að kynna þau mál sem þeir leggja fram á Alþingi, allt samkvæmt reglum sem forsætisnefnd Alþingis mundi setja.

Ég endurtek þakkir mínar til þingheims fyrir að trúa mér fyrir forsetaembættinu. Það er ásetningur minn að eiga gott samstarf við alla alþingismenn.