Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 20:37:47 (16)

1998-10-01 20:37:47# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, SighB
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[20:37]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsrh. veit hverjir eru helstu andstæðingar ríkisstjórnarinnar. Hann veit hvað ógnar þeirri yfirburðastöðu sem Sjálfstfl. hefur haft um áratuga skeið. Hann veit að alþingiskosningar á komandi vori geta gerbreytt því pólitíska landslagi sem verið hefur á Íslandi í heilan mannsaldur. Hann veit að þær kosningar gætu sett punktinn aftan við langa valdasögu Sjálfstfl. á Íslandi. Þetta veit hann. Þess vegna vék hann máli sínu hvað eftir annað að samfylkingunni og þá ekki síst Alþfl. Aðra andstæðinga nefndi forsrh. ekki. Af þeim hefur hann ekki áhyggjur.

Forsrh. sagði að Íslendingar þurfi ekki að hafa áhyggjur af samkeppnisstöðu sinni meðal þjóða heims. Ekki er það nú alveg rétt. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins um mat á samkeppnishæfi 46 þjóða er Ísland í 21. sæti, langt á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum. Staða landsins fer hríðversnandi vegna aukins viðskiptahalla. Þá er samkeppnisstaða þjóðarinnar talin vera léleg varðandi stjórnsýslu, stjórnun og fjármál. Á sviði tækni og vísinda fellur þjóðin á einu ári í samkeppnishæfi um átta sæti og á sviði alþjóðavæðingar er Ísland í sjöunda neðsta sæti 46 þjóða. Öll þessi atriði, þar sem landið hlýtur lélega einkunn, eru á verk- og valdsviði ríkisstjórnarinnar. Árangur hennar er ekki lofsverður. Fólkið okkar og fyrirtækin standa sig miklu betur. Forsrh. hrósaði réttilega ört vaxandi tekjum af útflutningi hugbúnaðar. Sú atvinnugrein byggir á hugviti og framtaki einstaklinga. Á meðan þeir sækja fram er tölvukennslan í Háskóla Íslands að hrynja. Til að bjargast þarf háskólinn nú að hefja fjársöfnun meðal þjóðarinnar. Ríkisstjórnin byggði ekki upp hugbúnaðariðnaðinn. Það gerðu vel menntaðir og hæfileika\-ríkir einstaklingar. En ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að menntunarundirstaða alls þessa er að hruni komin.

Forsrh. stillti í ræðu sinni hugmyndum formanns Alþfl. um fjármagnstekjuskatt upp sem valkosti á móti fjármagnstekjuskatti stjórnarflokkanna. Það var fallega gert af honum. Ríkisstjórnin lagði nefnilega 10% skatt á allar vaxtatekjur, hversu smáar sem þær eru, þar á meðal á líknarfélög, börn og gamalmenni. Jafnhliða lækkaði ríkisstjórnin skatta á arðgreiðslur, leigutekjur og söluhagnað úr 40% í 10%. Ríkisstjórnin lagði skatt á sparnað fátæka mannsins til þess að geta lækkað skattana á hlutabréfaeigendum, leigusölum og verðbréfasölum. Formenn A-flokkanna vildu setja frítekjumark sem undanþægi almennan sparnað en skattleggja vaxtatekjur umfram það eins og aðrar tekjur og þeir vildu ekki lækka skatt á arðgreiðslur, leigutekjur og söluhagnað. Ég er reiðubúinn til að leggja þessa tvo valkosti um skattlagningu fjármagnstekna hvenær sem er undir dóm þjóðarinnar og óttast ekki afgreiðslu hennar.

Í ræðu forsrh. kom fram að engar ráðagerðir eru hjá ríkisstjórninni um að gera breytingar á gjafakvótakerfinu. Áfram ætlar hún að afhenda nokkrum einstaklingum og fyrirtækjum ókeypis aðgang að verðmætustu auðlind þjóðarinnar sem þeir braska svo með sín á milli. Hátt veiðileyfagjald er nú þegar greitt í sjávarútvegi, um 5 milljarðar króna á ári. Þetta veiðileyfagjald greiða útvegsmenn hins vegar hver öðrum, m.a. á kostnað sjómanna, en eigandinn, almenningur, situr hjá, horfir á og stendur ekki reiðari. En þetta kerfi ætlar ríkisstjórnin að varðveita.

Stjórnkerfi fiskveiða er gagnrýnt. Flestir eru sammála um að á því þurfi að gera breytingar. Eiga trillusjómenn á sóknarmarki t.d. að lifa af níu veiðidögum á næsta ári? Í fylgiskjali með stefnuræðunni þar sem ráðherrar telja upp lagafrv. sín vekur athygli að sjútvrh. áformar að flytja engar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Óbreytt skal það allt saman vera.

Leifur heppni Eiríksson fann Ameríku. Hæstv. forsrh. sagði okkur frá því í stefnuræðunni og lét þess getið að atburðarins verði sérstaklega minnst eftir tvö ár. Hins vegar gat forsrh. þess hvergi að næsta ár er ár aldraðra. Um málefni aldraðra hafði hann ekkert að segja. Eigi að heldur hafði hann neitt að segja öryrkjum eða fötluðum sem spurt hafa hvað orðið hafi af þeirra hlut í góðærinu. Þeir fengu engin svör frá honum. Þeir munu fá svör frá okkur.

Það er ekki nýtt að forystumenn Sjálfstfl. reyni að gera jafnaðarmenn tortryggilega í utanríkis- og öryggismálum. Staðreyndirnar eru hins vegar þær að á sl. rúmum 40 árum hafa jafnaðarmenn stjórnað utanríkismálum Íslendinga í 22 ár, meira en helminginn af tímanum, lengur en nokkrir aðrir. Jafnaðarmenn hafa öðrum fremur mótað utanríkisstefnu Íslendinga sl. hálfa öld og sýnt að þeim er treystandi. Þeim verður áfram treystandi.

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Samfylking jafnaðarmanna, félagshyggjufólks og kvennalistakvenna hefur kynnt tillögur að málefnaskrá sameiginlegs framboðs. Verkefnaskrá er í vinnslu og kosningastefnuskrá í smíðum. Undirbúningur framboða er hafinn. Gamall draumur um öfluga stjórnmálafylkingu á grundvelli frelsis, jafnréttis og bræðralags er loksins að rætast. Markmið okkar eru skýr. Við viljum berjast með almannahagsmunum gegn sérhagsmunum, beita okkur fyrir hagsmunum fjöldans með venjulegu fólki, með smærri fyrirtækjum og verktökum, með frjálsri og heiðarlegri samkeppni en gegn sérhagsmunum hinna fáu og voldugu. Við fylgjum auðlindastefnu í almannaþágu. Við viljum tryggja sameign landsmanna á öllum helstu auðlindum Íslands í stjórnarskrá. Við viljum breyta nýsettum lögum um eignarhald á auðlindum í jörðu þannig að allar auðlindir undir yfirborði jarðar eins langt og komist verður séu ekki eign einstakra landeigenda heldur verði sameign þjóðarinnar. Við viljum tryggja almenningi umgengnisrétt að hálendinu, öllum landsmönnum jafna aðstöðu til áhrifa á stjórn og nýtingu þjóðlendna og við viljum taka gjald fyrir afnot af auðlindum í þjóðareign til lands og sjávar. Þetta viljum við. Þetta vill ríkisstjórnin ekki.

[20:45]

Við viljum forgangsraða verkefnum og setja mennta- og menningarmál í forgangshópinn. Við viljum rækta mannauðinn og auka framlög til þess málaflokks um tvo til þrjá milljarða króna. Þetta viljum við, þetta vill ríkisstjórnin ekki. Við viljum setja jafnréttismálin í öndvegi þannig að jafnréttis- og kvenfrelsissjónarmið setji mark sitt á allar ákvarðanir í stjórnmálum og stjórnsýslu. Af þeim átján þingmönnum sem standa að samfylkingunni eru níu konur, janfrétti kynja í reynd. Þessari stefnu fylgjum við, henni fylgir ríkisstjórnin ekki. Engin kona á sæti í ráðherraliði Sjálfstfl. Framsfl. hafnaði konum þegar Guðmundur Bjarnason vildi hætta.

Við viljum leggja sérstaka áherslu á umhverfismál. Við viljum að almannaréttur, vernd lífríkis, sjálfbær nýting auðlinda og sjálfbær orkustefna verði lykilatriði í umhverfisstefnu framtíðar. Við viljum að Íslendingar standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í umhverfismálum og hafi grundvallarreglur Ríó-yfirlýsingarinnar um samskipti manns og umhverfis að leiðarljósi. Þetta viljum við, þetta vill ríkisstjórnin ekki.

Ég hef nefnt nokkur atriði úr málefnaskrá samfylkingarinnar, valkosti okkar sem berjumst fyrir almannahagsmunum. En þar er líka tekið fram að stefna okkar í ríkisfjármálum sé að tryggja stöðugleika, lága verðbólgu og stöðugt gengi. Þetta þýðir að við þurfum að forgangsraða verkefnum eins og við höfum þegar sagt og leita nýrra tekjustofna svo sem með auðlindagjöldum, mengunar- og umhverfissköttum eins og við höfum líka sagt. Við ætlum okkur ekki að fylgja því fordæmi ríkisstjórnarinnar að afla fjár með eignasölu til þess að standa undir rekstrarútgjöldum ríkisins. Þeir sem þannig stjórna í góðæri eiga ekki að kasta steinum úr glerhúsi sínu.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Vegna sundrungar jafnaðarmanna og félagshyggjufólks hefur orðið til á Íslandi allt öðruvísi flokkakerfi en í öðrum löndum Vestur-Evrópu. Hér hefur aldrei orðið til sá öflugi flokkur á grunni jafnaðarstefnu, félagshyggju og kvenfrelsis sem frumherjarnir ætluðu sér að stofna. Nú er þetta að takast. Slíkt stjórnmálaafl er loksins að verða til, afl sem getur ógnað veldi sérhagsmuna og pólitískra vörslumanna þeirra. Fram undan eru tímar þar sem sköpunargleðin á að fá að njóta sín. Gleðin við að skapa nýtt afl á nýrri öld. Þar höfum við öll mikilvægu hlutverki að gegna, alþýðuflokksfólk, alþýðubandalagsfólk, kvennalistakonur, þjóðvakafólk, gróskuliðar, verkalýðssinnar, allur almenningur á Íslandi sem aðhyllist hugsjónir jafnaðarstefnu um frjálst samfélag jafnréttis og bræðralags.

Við samfylkingarmenn köllum nú á ykkur öll til að byggja með okkur þá brú sem við viljum reisa yfir til nýrrar aldar á vit nýrra tækifæra, á vit nýsköpunar í stjórnmálum á Íslandi. --- Góðar stundir.