Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 21:01:33 (18)

1998-10-01 21:01:33# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[21:01]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Farsælt kjörtímabil í sögu íslensku þjóðarinnar er senn á enda. Ef við lítum yfir farinn veg sjáum við að árangurinn hefur verið mikill á þessu kjörtímabili og hæstv. forsrh. gerði góða grein fyrir því í stefnuræðu sinni í dag. Þessi árangur er að sjálfsögðu mörgum að þakka. Hann er m.a. að þakka því að hér hafa tekist góðir kjarasamningar, friður hefur ríkt á vinnumarkaði, náttúran hefur verið okkur gjöful, skilyrði hafa verið hagstæð erlendis en hér hefur líka verið farsæl stjórnarstefna og ríkisstjórnin hefur haldið vel á málum og það er viðurkennt af öllum nema þá kannski stjórnarandstöðunni.

Fyrir síðustu kosningar vorum við framsóknarmenn allbjartsýnir. Við héldum því fram að það væri hægt fyrir árið 2000 að skapa hér 12 þús. störf. Við töldum að hægt væri að skapa svigrúm á seinni hluta kjörtímabilsins til að auka útgjöld ríkisins um 3 til 4 milljarða til lífskjarajöfnunar, við töldum mögulegt að auka útgjöld til menntamála svo eitthvað sé nefnt. Ég man það vel að stjórnarandstaðan gerði lítið úr þessum markmiðum og notaði fyrsta veturinn á Alþingi til að hrópa það að við værum að setja fram markmið sem ekki væri hægt að standa við. Það vill nú svo til að 12 þús. störfin verða sennilega nær 14 þús.

Skattalækkun á seinni hluta kjörtímabilsins er u.þ.b. 6 milljarðar og skattalækkunin er mest á millitekjufólk --- það er ekki rétt hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að það komi fyrst og fremst hátekjufólki til góða vegna þess að hátekjuskatturinn var hækkaður líka.

Útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála á árunum 1998 og 1999 vaxa um 5,7 milljarða að raungildi og útgjöld til menntamála á árunum 1998 og 1999 vaxa um 1,4 milljarða. Þetta er mikill árangur og ekki í nokkru samræmi við þann málflutning sem stjórnarandstaðan hefur haft í frammi og í reynd höfum við aukið útgjöld ríkisins meira en hagfræðingar og ýmsir aðrir hafa mælt með og hafa hvatt okkur til meira aðhalds. Við höfum ekki talið það nauðsynlegt, við höfum talið nauðsynlegra að koma til móts við þarfir almennings, þarfir landsmanna á ýmsum sviðum.

Stjórnarandstaðan hefur verið mjög gagnrýnin á þessu kjörtímabili, sérstaklega gagnvart Framsfl. Hún var það að vísu ekki hér í kvöld, sem er nýlunda. Hún hefur stundum verið ómálefnaleg. Hún hefur líka verið málefnaleg en stundum hefur hún verið ansi persónuleg og jafnvel rætin, t.d. í garð heilbrrh. og iðn.- og viðskrh. sem hafa staðið fyrir erfiðum málum. Heilbrrh. hefur staðið með erfiðan málaflokk sem hún hefur leyst vel af hendi, iðn.- og viðskrh. hefur verið með málaflokk sem er sennilega mesti drifkrafturinn í því sem hefur verið að gerast og stjórnarandstaðan hefur almennt verið á móti. Halda menn að það hafi ekki haft neitt að segja að farið var út í stækkun álversins, stækkun járnblendiverksmiðjunnar og að byggja nýtt álver á Grundartanga? Halda menn að það hafi ekki komið ýmsum hjólum í gang í þjóðfélaginu og haft áhrif á ýmsa aðra atvinnustarfsemi í landinu? Halda menn virkilega að við hefðum getað skilað þessum árangri ef við hefðum látið þessar framkvæmdir fara fram hjá okkur? Það hefur verið skapað traust á framtíðinni og landsmenn hafa traust á því að við Íslendingar getum staðið okkur á næstu árum. Það er þess vegna sem fólk fer út í fjárfestingar, það er þess vegna sem fólk fer að búa í haginn, það er þess vegna sem vextir eru að lækka og síðast en ekki síst stendur ekki til að senda komandi kynslóðum reikninginn, heldur þvert á móti að greiða niður skuldir þannig að komandi kynslóðir hafi meiri möguleika.

Málefnagrunnur stjórnarandstöðunnar er fullur af góðum óskum og það er vel, en það vantar þar allan efnahagslegan grunn. Það vantar að tala þar um atvinnulíf og verðmætasköpun. Það má vel vera að stjórnarandstöðunni finnist að það skipti engu máli og það sé bara svona einhver miðjustefna og hægri stefna að tala um slíka hluti og það sé vinstri stefna að tala bara um útgjöldin. Ég er nú farinn að halda að það sé skilgreiningin á vinstri stefnu og það virðist vera að formaður jafnaðarmannaflokksins, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hafi ekki áttað sig á því að kollegi hans í Þýskalandi vann sína kosningabaráttu undir kjörorðinu ,,hin nýja miðja`` en hann hefur kosið að nota ,,hið nýja vinstri``, eða ég vænti þess að svo verði.

Það vantar líka að stjórnarandstaðan skapi traust í utanríkismálum. Það er ekki nóg, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, að vitna til þess að Alþfl. hafi farið með utanríkismál í rúm 20 ár. Ég hef skilið það svo að hér sé verið að stofna nýjan flokk með nýja stefnu og það vill svo til að þar er skrifuð stefna Alþb. sáluga en ekki stefna Alþfl. sáluga og það er þetta sem skiptir máli. Hv. þm. sagði ekkert um það hver þessi stefna væri, en það stendur í plagginu að til standi að ganga úr hernaðarbandalagi. Væntanlega veit hv. þm. að það er búið að leggja Varsjárbandalagið niður og það er ekki lengur hægt að ganga úr því og eina bandalagið samkvæmt þessari skilgreiningu er gamla NATO og ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að hinn nýi flokkur stefni að því að einangra Ísland og ganga úr þessu bandalagi og einangra okkur í utanríkismálum.

Herra forseti. Það eru mörg verkefni fram undan og það eru þau sem skipta okkur meginmáli og það skiptir meginmáli að við beinum huganum að þeim verkefnum sem bíða okkar. Þar skiptir meginmáli að viðhalda stöðugleikanum og traustinu á framtíðina. Við verðum að verja og efla velferðarkerfið og það höfum við verið að gera. Við höfum verið að efla og verja velferðarkerfið á þessu kjörtímabili, meðal annars með því að stórauka útgjöld til ákveðinna málaflokka þótt það hafi farið fram hjá ýmsum hv. þm. en ég vænti þess að með því að lesa fjárlagafrv. muni þeir komast að raun um hið sanna. Við erum í 5. sæti þjóða sem mestrar velferðar njóta og það eru ekki einhverjar peningastofnanir sem hafa fellt þann úrskurð, það eru stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem hafa fellt þann úrskurð og þar eru allir þættir með, þar á meðal umhverfismál. Við þurfum að sjálfsögðu á því að halda að auka þjónustu í heilbrigðis- og tryggingamálum en til þess þurfum við að hafa grundvöll. Við þurfum að auka útgjöld til menntamála. Það vill ríkisstjórnin gera og sinna þeim málaflokki betur og það hefur margt, mikilvægt verið gert í þeim málaflokki undir forustu hæstv. menntmrh. Við eigum að geta lækkað skatta á næsta kjörtímabili og þar þarf að mínu mati ekki síst að huga að barnafólki, að barnabótum og draga enn úr skerðingu þeirra. Við þurfum að tryggja áframhaldandi sókn atvinnulífsins og hagvöxt. Hagvöxtur hefur verið mjög mikill á þessu tímabili. Ef við færum eftir stefnu hins nýja flokks, þá fullyrði ég að það verður enginn hagvöxtur á næsta kjörtímabili.

Það er erfitt að sameina áherslur í umhverfismálum og atvinnumálum. Það hefur okkur tekist í sjávarútvegsmálum. Okkur hefur tekist að skapa stefnu sem byggir upp fiskstofnana en eykur arðsemi sjávarútvegsins jafnframt. Þetta skiptir miklu máli. Hér erum við bæði að framfylgja mikilvægum stefnuatriðum í umhverfismálum og í atvinnumálum. Auðvitað má margt betur fara í sjávarútvegsstefnunni og hún hefur verið í stöðugri endurskoðun, en það vitlausasta sem við gerðum væri að leggja hana í rúst eins og sumir boða. Það er líka erfitt að sameina áherslur í iðnaðarmálum og umhverfismálum. Það hafa menn gert og eru að reyna að gera en ég skil stjórnarandstöðuna þannig að hún vilji hætta að nýta auðlindir Íslands í orkumálum, skrifa undir Kyoto-bókunina og þakka fyrir sig og hætta að virkja á Íslandi. Eru þetta áherslur í umhverfismálum? Að hætta að nýta endurnýjanlega orkugjafa?

Það er ýmislegt sem við þurfum að gera í landbúnaðarmálum. Þar hefur margt færst til betri vegar en margt er ógert t.d. í skógrækt og ferðaþjónustu sem getur styrkt byggðir landsins. Við eigum líka margt ógert í utanríkismálum. Við þurfum enn að treysta okkar stefnu í öryggis- og varnarmálum. Við þurfum að fylgja eftir þeim breyttu áherslum í þróunarmálum og hjálp til fátækustu ríkja heims sem við höfum breytt og höfum ákveðið að hjálpa mun meir. Við höfum líka komið með breyttar áherslur í viðskiptaþjónustu utanríkisþjónustunnar og þjónustum fyrirtæki og atvinnulíf mun meir en nokkru sinni fyrr.

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Abraham Lincoln sagði að auður væri ávöxtur erfiðisins en hann hefði aldrei myndast ef erfiðið hefði ekki á undan farið. Ég held að mikill sannleikur felist í þessu og þess vegna þurfum við að viðhalda krafti og bjartsýni því við myndum engan auð nema með krafti og bjartsýni. En við þurfum jafnframt að huga að réttlátri tekjuskiptingu og velferðarkerfi þjóðarinnar og það höfum við gert. Ég viðurkenni það fúslega eins og ég vona að flestir geri hér inni að við verðum að tryggja að allir fái notið ávaxtanna og ekki síst þeir sem minnstan eiga máttinn, því þeir hafa innt lífsstarf sitt af hendi eins og aðrir og tekið þátt í að skapa það velferðarþjóðfélag sem við búum í og eiga þess vegna rétt á sínum skerf eins og allir aðrir og við þurfum að huga vel að því.