Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 21:14:34 (19)

1998-10-01 21:14:34# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[21:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Kjarninn í ræðu forsrh. Davíðs Oddssonar var u.þ.b. eftirfarandi: Það er mikið góðæri, og sjá, þjóð mín, það er ég sem hef fært ykkur góðærið. Árangur vor er nánast einstakur á öllum sviðum. Framsfl. sem vér höfum ákveðið að hafa með okkur í ríkisstjórn um þessar mundir er ágætur. Það er í lagi með hann. Það er í lagi með þá Halldór og Finn. En stjórnarandstaðan, hún er nú ekki upp á marga fiskana. Þeir yrðu fljótir að fara með allt í kaldakol. Góðærið er brothætt. Takið því ekki áhættu og treystið á mig. Punktur. Ende.

[21:15]

Þetta var í grófum dráttum, herra forseti, að vísu svolítið einfölduð endursögn á ræðu hæstv. forsrh. en þetta var ekki meiri einföldun en umfjöllun hæstv. forsrh. sjálfs um góðærið. Þar var mikil einföldun á ferðum. Hæstv. forsrh. vék ekki að því einu orði að góðærið er nú aðallega drifið áfram af eyðslu umfram efni. Það stefnir í nærfellt 40 milljarða viðskiptahalla íslenska þjóðarbúsins.

Hæstv. forsrh. vék enn síður að því hvernig góðærinu er skipt eða öllu heldur misskipt. Það var ekki eitt orð í ræðu forsrh. um hlut öryrkja og aldraðra í góðærinu. Það hefði ekki passað inn í glansmyndina, góðærishjalið. Sú dapurlega staðreynd að þeir sem hvað höllustum fæti standa í þjóðfélaginu hafa setið eftir, hafa ekki borið sama hlut úr vaxandi þjóðartekjum og aðrir.

Ég saknaði líka í umfjöllun hæstv. forsrh. að hann færi yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í bankamálum og sérstaklega framgöngu hennar í þeim efnum á sl. sumri. Það var ekki bara einföld umfjöllun um það í ræðu forsrh., hún var engin. Hæstv. forsrh. vék líka að sjávarútvegsmálum með afar einföldum og yfirborðslegum hætti. Ég deili að sjálfsögðu þeirri skoðun með sjútvrh. að farsæl fiskveiðistjórnun og ábyrg sjávarútvegsstefna er mikilvæg og einnig að þar hefur ýmislegt vel tekist, jafnvel svo að athygli hefur vakið á erlendri grund, en það er yfirborðslegt að fjalla ekki um þá ágalla sem eru á því kerfi sem við búum við, þá óánægju sem kraumar undir með ýmsa fylgifiska þess. Stjórnkerfi fiskveiða eins og það snýr að smábátum og bátaflotanum er ónýtt. Það eru réttmætar áhyggjur af samþjöppun í greininni og heilbrigðri réttlætiskennd almennings er misboðið með þeim stórvinningum sem einstakir aðilar hirða út úr þessu kerfi þegar þeir hætta og selja öðrum réttindi sín. Á þessum vandamálum er hægt að taka, m.a. með því að gera sölugróðann upptækan í gegnum skattkerfið. Til þess þarf hvorki að fórna stjórnkerfi fiskveiðanna né heldur að leggja milljarða eða milljarðatuga skatt á sjávarútveginn og þar með sjómenn, fiskverkafólk og sjávarútvegsbyggðarlögin.

En þá að öðrum hlutum, herra forseti. Það hefur dregið til nokkurra tíðinda í íslenskum stjórnmálum á þessu ári og það hillir undir uppstokkun í flokkaskipaninni sem ýmsir hafa á undanförnum árum talið sér trú um að væri íslenskum stjórnmálum sérstakur fjötur um fót. Nú verður þeim að ósk sinni ef allt fer sem horfir.

Það er svo með Ísland að við höfum ekki farið varhluta af nýfrjálshyggjunni sem riðið hefur húsum í vestrænum stjórnmálum frekar en önnur lönd. En það er hljótt um þá staðreynd að það var Alþfl. á Íslandi sem innleiddi hana í Stjórnarráðinu 1991 og færði Davíð Oddssyni húsbóndavaldið á þeim bæ hverju hann heldur enn. Það er enn sjaldnar minnt á þá staðreynd að það voru ráðherrar Alþfl. sem voru duglegustu verkamennirnir í því að innleiða breytingar í velferðarmálum sem eru í anda nýfrjálshyggjunnar og boða aðrar í atvinnumálum og utanríkismálum af sama sauðahúsi.

Viðbrögðum vinstri manna við nýfrjálshyggjunni í heiminum má í aðalatriðum skipta í tvennt. Það eru annars vegar þeir sem hafa gefist upp fyrir henni, aðlagað sig að henni, tekið hana upp en boðist til að framkvæma hana með félagslegu ívafi og það eru hins vegar hinir sem hafa ákveðið að berjast gegn henni, bjóða upp á skýran valkost móti þeirri stefnu og láta kjósendur velja um það hvort þeir vilja þjóðfélag mótað af hugsunarhætti nýfrjálshyggjunnar eða vinstri stefnu. Það er enginn vafi á því að umræðan um samstarf vinstri flokka á Íslandi hefur mótast af sterkri stöðu nýfrjálshyggjunnar. Svo rammt hefur kveðið að þessu að mönnum hefur langleiðina tekist að sannfæra sig um að þeir væru einskis nýtir, gagnslausir og áhrifalausir smáflokkar jafnvel þó þeir njóti fjöldafylgis sem á alla venjulega mælikvarða evrópskra stjórnmála teldust umtalsverðir.

Lýðræðið, herra forseti, snýst um meira en það að mæta á kjörstað á fjögurra ára fresti og kjósa. Lýðræðið snýst einnig og ekki síður um að í boði séu skýrir valkostir til að kjósa um. Íslensk stjórnmál þurfa ekki á fleiri mórauðum lækjum að halda sem hvorki eru bergvatnsár né jökulvötn. Íslensk stjórnmál þurfa á öflugri vinstri stefnu að halda sem svari við nýfrjálshyggjunni sem hefur verið leiðandi hugmyndafræði. Þeir sem vilja nýfrjálshyggjuna eiga að boða hana og þeir sem vilja slíkt þjóðfélag eiga að kjósa hana og svo geta menn hagrætt og hagrætt með því að hætta að skipta á rúmunum hjá gamla fólkinu eins og dæmin frá Bretlandi og Svíþjóð sanna. Þeir sem vilja aðild að Evrópusambandinu eiga að boða það og þeir sem vilja inn í slíkt batterí eiga að kjósa það. En þeir sem vilja eitthvað annað eiga að boða það og standa fyrir því og bjóða kjósendum þannig skýra valkosti.

Um allt land, herra forseti, er fólk nú að gera upp hug sinn til nýs landslags í íslenskum stjórnmálum. Ég skora á alla þá sem vilja að til verði á Íslandi og í íslenskum stjórnmálum rödd sem boðar einarða vinstri stefnu, boðar umhverfisvernd, boðar jafnrétti og boðar þjóðfrelsi og andstöðu við her og hernaðarbandalög að fylkja liði. Það er að hefjast ummótunartími í íslenskum stjórnmálum. Það er veður til að skapa og það er verk að vinna í þágu réttlátara samfélags.