Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 21:28:51 (22)

1998-10-01 21:28:51# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, KH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[21:28]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ræðumenn hafa slegið tóninn og gefið forsmekk af umræðunni í þinginu í vetur. Þeir eru komnir í skotskóna fyrir kosningar að vori og forsrh. gaf upp boltann með sínum hætti fyrr í dag.

Ræða hans vakti nokkra undrun. Hún einkenndist af sjálfshóli og því erum við reyndar ekki óvön. Hún bar keim af kosningaskjálfta þar sem biðlað var í allar áttir. En hún var líka gegnsýrð af ótta og ergelsi, ótta við nýjan flokkabræðing eins og hann kýs að kalla samfylkingu á vinstri væng og ergelsi í garð fyrrum samherja við stjórnvölinn sem hann á að vonum bágt með að skilja að skuli nú vilja snúa sér annað. Hann nefndi reyndar ekki brotthlaup fyrrum stórlaxa úr sínum eigin flokki, enda flísin alltaf auðveldari viðfangs. Núningur þessara höfðingja verkar þó líklega fremur eins og skemmtiatriði á þjóð sem samkvæmt alþjóðlegum mælingum er með eindæmum hamingjusöm og óspillt og í fremstu röð hvað varðar jafnrétti þegnanna. Eins og fram kom í stefnuræðu forsrh. trúir hann þessum dularfullu mælingum og er sennilega í hópi hinna hamingjusömu eða kannski væri réttara að segja hina sjálfumglöðu.

[21:30]

Um hina tvo hópana skal ekkert fullyrt en á ræðu hans er ekki að sjá að ríkisstjórninni þyki sérstök ástæða til aðgerða hvorki gegn spillingu né ójöfnuði í samfélaginu. Þvert á móti telur hann ástæðu til að hvetja landsmenn til að vera stoltir af því að vera óspilltir upp á 9,3 í einkunn. Það verður augljóslega hlutverk stjórnarandstöðunnar nú sem fyrr að minna á það sem betur má fara í þjóðfélagi hinnar óspilltu hamingju.

Þingkonur Kvennalistans munu sem fyrr setja sinn lit á umræðu og þingstörf með flutningi mála sem fyrst og fremst minna á stöðu kvenna í íslensku samfélagi og hvernig má með ýmsum hætti breyta rótgrónum viðhorfum sem reynast þeim fjötur um fót, ekki bara konum til tjóns heldur samfélaginu í heild. Forsrh. fjallaði í ræðu sinni á furðuborginmannlegan hátt um jafnrétti kynjanna sem hann fullyrti að væri með því besta sem þekkist meðal þjóða heims. Hann sá ástæðu til að nefna að þótt enn hallaði á konur, þá hallaði nú líka á karla og gaf með því fyllilega til kynna að hin karlmannlega ríkisstjórn, sem hann veitir forstöðu, mundi gæta vel að hagsmunum karlkynsins við setningu nýrra jafnréttislaga. Hvað sem því líður er það mikil framför hjá forsrh. að minnast yfirleitt á jafnrétti kynjanna í stefnuræðu sinni. Og nú geta sjálfstæðar konur farið að dusta rykið af frægri auglýsingu sinni frá síðustu kosningabaráttu sem flestir héldu allt til enda að Kvennalistinn hefði samið. Ekki er víst að þær hefðu kunnað við endurnýtingu ef Framsfl. hefði haft vit á að verða fyrstur flokka til að nálgast jafnrétti kynjanna í ráðherrahópi sínum. En maddama Framsókn klúðraði því gullna tækifæri á eftirminnilegan hátt og ekki er víst að henni gefist annað slíkt í bráð.

Forsrh. varði hluta ræðu sinnar í umfjöllun um nokkur atriði þess frv. til fjárlaga sem dreift var í dag. Hann gat um aukin framlög til menntunar og rannsóknarstarfsemi og er auðheyrt að nú á að bregðast við harðri gagnrýni stjórnarandstöðunnar á undanförnum árum og ávinna sér punkta hjá kjósendum. Við kaupum þó ekki köttinn í sekknum. Stjórnarflokkarnir hafa sýnt ótrúlegt skilningsleysi á mikilvægi þessara þátta, ekki síst þegar harðnar á efnahagsdalnum. Menntun og rannsóknarstarfsemi er einfaldlega grunnurinn að farsæld í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar og ekki síst farsæld einstaklinganna sem mynda þetta samfélag. Sú viðleitni til átaks í þessum efnum sem sýnd er í nýframkomnu frv. til fjárlaga er góðra gjalda verð en því aðeins ef stjórnarflokkarnir líta á þetta sem upphaf að einhverju meiru því svo sannarlega þarf miklu meira en fram kom í máli forsrh. ef duga skal. Það var líka ýmislegt sem hann nefndi ekki og ástæða er til að hafa áhyggjur af. Við þekkjum áherslur núv. ríkisstjórnar og vitum að fram undan eru hefðbundin átök við fjárlagagerð um forgang verkefna og hvernig tryggja beri félagslegt réttlæti og sem víðtækastan jöfnuð lífsskilyrða almennings í landinu.

Einn þeirra þjóðfélagshópa sem líklega hafa ekki verið spurðir um hamingjustigið á heimilum þeirra í mælingavinnu hinna erlendu þjóðarpúlsa eru öryrkjar. Þeir hafa einmitt nú síðustu vikurnar vakið verðuga athygli á því misrétti sem þeir búa við en ýmsir hafa áreiðanlega ekki gert sér grein fyrir. Þær eru ófagrar reynslusögurnar sem við höfum heyrt að undanförnu um ómannúðlega stöðu öryrkja í þjóðfélaginu, um niðurbrot sjálfsvirðingar einstaklinga og um höfnun þessa hamingjusama og óspillta samfélags sem forsrh. er svo hreykinn af. Það veldur áreiðanlega vonbrigðum margra að forsrh. skuli ekki hafa notað þetta tækifæri til að lægja þær öldur réttmætrar reiði sem risið hafa svo hátt að undanförnu. Það eru engin, nákvæmlega engin rök fyrir því að svipta fólk lífsafkomu og þaðan af síður sjálfsvirðingunni. Óljósar yfirlýsingar heilbrrh. nýlega um úrbætur duga ekki til að sannfæra öryrkja um skilning og vilja til að tryggja þeim mannsæmandi aðstæður. Viljinn kemur fram í fjárlagafrv. og það verður að segjast eins og er að honum má helst líkja við litla lús. Þetta er einn þeirra þátta sem taka verður á í fjárlögum næsta árs, svo og reyndar margir aðrir þættir sem varða velferð og aðbúnað sjúkra og aldraðra.

Formenn stjórnarflokkanna ræddu góðærið á fundi með fréttamönnum í gær. Nú eru þeir farnir að tala um brothætt ástand og þá hrökkva þeir við sem enn bíða eftir áhrifum margrómaðs góðæris á þeirra eigin afkomu. Öryrkjar, sjúkir og aldraðir spyrja að vonum um hlutdeild í þessu góðæri sem virðist hafa skilað sér svo rækilega til sumra en ekki annarra. Íslenskt velferðarþjóðfélag stendur ekki undir nafni meðan þessir hópar eru svo afskiptir sem raun ber vitni.

Auk fjárlaga eru mörg stórmál sem koma til kasta Alþingis á þessu síðasta þingi kjörtímabilsins. Ég nefni breytingar á kosningalögunum, ný jafnréttislög, ný lög um náttúruvernd og mat á umhverfisáhrifum, lagafrv. um lífsýni og gagnagrunn á heilbrigðissviði, auk þess sem fregnir herma að menntmrh. hafi hug á að gera skurk í lögum um útvarp allra landsmanna.

Eitt stærsta mál þessa þings og raunar eitt stærsta mál sem Alþingi hefur fengið til umfjöllunar um langt árabil er án efa frv. það um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði sem svo mjög hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu nær allt þetta ár. Sú umræða hefur verið mjög gagnleg. Hún hefur varpað ljósi á þá möguleika til upplýsingasöfnunar, rannsókna og vísindastarfsemi sem felast í íslensku samfélagi. Hún hefur einnig varpað ljósi á stöðu mála, hvernig meðferð og nýtingu heilsufarsupplýsinga er nú háttað. Hún hefur vakið til vitundar um nauðsyn þess og mikilvægi að umgangast allar persónuupplýsingar með ýtrustu varúð. Síðast en ekki síst hefur hún vakið upp siðferðilegar spurningar sem nauðsynlegt er að svara áður en Alþingi tekur endanlega afstöðu til frv. Hugmyndin um að draga saman allar upplýsingar um heilsufar, ættfræði og erfðaeinkenni Íslendinga í einn miðlægan gagnagrunn kallar í huga margra fram mynd af alltsjáandi og alltvitandi stóra bróður og vekur upp áleitnar spurningar um það á hvaða leið við erum.

Við lifum á öld mikilla framfara, tækni og upplýsinga og einmitt öll þessi vitneskja og tæknikunnátta leggur okkur ríkar skyldur á herðar, að stíga hvert skref af fullri gát svo við æðum ekki fram úr sjálfum okkur og spillum fremur en byggjum upp. Menn eiga ekki að vera svona hræddir við að missa af einhverri ímyndaðri lest og ég hugsa til þess með hryllingi ef ríkisstjórnin hefði haft sitt fram og troðið gagnagrunnsfrv. í gegnum Alþingi í algjörri tímaþröng á sl. vori. Við erum þó hugsanlega nær sannleikskjarnanum eftir alla umræðuna undanfarnar vikur. Í rauninni vefst ekki fyrir nokkrum manni að með samtengingu heilsufarsgagna og tengingu þeirra við ættfræðiupplýsingar, sem eru nánast einstæðar í heiminum, geta myndast forsendur fyrir örari framþróun í læknisfræði en málið hefur fleiri hliðar og stóra spurningin er hvort rétt sé með tilliti til lögfræðilegra, félagslegra og ekki síst siðferðilegra álitaefna að gera það með samtengingu slíkra upplýsinga í einn miðlægan gagnagrunn sem breytir í raun verðgildi þeirra og nýtingarmöguleikum. Ekki er öruggt að þeir muni allir leiða til góðs og eitt er víst að verði af stofnun eins miðlægs gagnagrunns er nauðsynlegt að lögfesta hvernig ekki má nýta hann. Önnur hlið málsins er svo hvort réttlætanlegt sé að fela slíkan fjársjóð í vörslu einkafyrirtækis með einkaleyfi á notkun hans til 12 ára. Þeirri spurningu þurfum við að svara á næstu vikum því þetta er sú leið sem frv. heilbrrh. býður upp á. Það er skoðun mín að umræðan hafi um of einskorðast við þessa einu leið til samtengingar gagna en látið hafi verið hjá líða að skoða og ræða aðra möguleika sem tryggt geta betur rétt einstaklinga og vernd upplýsinga og mismuna ekki vísindamönnum í leit þeirra að leiðum til aukinnar þekkingar, öllum til hagsbóta. Hér er um svo stórt og afdrifaríkt mál að ræða að þingmenn verða að gefa sér góðan tíma til að leita svara við þeim grundvallarspurningum sem það kallar á.

Góðir áheyrendur. Umhverfismál verða æ mikilvægari og fyrirferðarmeiri í heimi sívaxandi mengunar og lítt röskuð náttúruverndarsvæði eru nú talin til verðmætustu auðlinda. Flestir marktækustu stjórnmálaforingjar, hvar sem er í heiminum, hafa skynjað sinn vitjunartíma í þessu efni. Forsrh. kaus hins vegar að verja drjúgum hluta stefnuræðu sinnar í vörn fyrir úrelta stórvirkjana- og stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda og gaf fyllilega til kynna að ekki kæmi til greina að undirrita Kyoto-samkomulagið um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið enda þótt Ísland fengi þar mengunarkvóta umfram aðrar þjóðir. Þessi afstaða, þessi þrjóskufulla stefna, er í raun ótrúleg með tilliti til þess sem hefur verið að gerast að undanförnu. Forsrh. og jábræður hans eru gjörsamlega úr takti við umræðuna í þjóðfélaginu. Viðhorf til náttúruverndar og umhverfismála hafa gjörbreyst. Augu fjöldans hafa lokist upp fyrir auðlindinni í ósnortnum víðernum lands okkar. Æ fleiri láta til sín taka, landi og náttúru til varnar, og sætta sig ekki við hernaðinn gegn landinu. Hálendisumræðan fyrr á árinu endurspeglaði þessi breyttu viðhorf. Einnig mótmælin þegar verið var að sökkva hverasvæðinu við Hágöngur. Einnig frábærir sjónvarpsþættir og vönduð umfjöllun Morgunblaðsins í hverju helgarblaðinu eftir annað sem sýna fram á fáránleika þess að eyðileggja dýrmæta náttúru í eftirsókn eftir atvinnukostum gærdagsins. Varnaðarorð fjölmargra erlendra sérfræðinga á sviði atvinnu- og efnahagsmála, svo og Íslandsvina af ýmsu tagi hafa vakið athygli að undanförnu. Meira að segja byggðastefnurökin í þessu sambandi hafa verið hrakin þegar litið er til biturrar reynslu Norðmanna sem sitja nú uppi með fólksflótta frá stóriðjubæjum. Ráðherrarnir og bormenn Íslands standa uppi eins og nátttröll í þessu efni. Þá verður að stöðva áður en þeir hafa endanlega spillt möguleikum okkar til atvinnu- og framþróunar sem byggist á því sem við höfum enn þá sérstakt umfram flestar aðrar þjóðir. Fyrst og síðast eru þó ósnortin víðerni landsins ómetanlegur þáttur í vitund okkar sem þjóðar og verða aldrei felld undir reiknanlegt gildismat. Ég þakka þeim sem hlýddu.