Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 21:47:38 (24)

1998-10-01 21:47:38# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, LB
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[21:47]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þegar núverandi ríkisstjórn hóf valdatíð sína á vordögum 1995 voru margir sem spáðu því að í hönd færi tími hugmyndafræðilegrar stöðnunar, að ríkisstjórnin hefði ekki annað markmið en að skipta með sér völdum þar sem sérhagsmunagæsla mundi varða leiðina. Þrátt fyrir að kjörtímabilinu sé ekki lokið er ljóst að hingað til hafa allir þessir spádómar ræst. Það breytir engu hvar borið er niður, allt ber að sama brunni. Þar sem því hefur verið komið við hefur hagsmunum hinna fáu verið hampað á kostnað fjöldans. Fámennum hópi hafa verið afhent yfirráð yfir hálendinu, skattar á stóreignafólk hafa verið lækkaðir og til stendur að afhenda vinum og kunningjum einkaleyfi á heilsufarsupplýsingum þjóðarinnar. Virðulegi forseti. Verkin tala.

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi lögfest hundruð frv. hafa þau einkennst af smáskammtalækningum og reddingum. Hvergi örlar á hugmyndafræðilegri framtíðarsýn sem er til þess fallin að leiða þjóðina inn í nýja öld. Þess í stað kemur hæstv. forsrh. hér og flytur sína stefnuræðu og gefur út um það rússneska tilskipun: Jú, þjóð mín, við höfum það gott að meðaltali.

Kannski á þetta þó allt eðlilegar skýringar. Leiðtogi ríkisstjórnarinnar hefur haft lítið ráðrúm á kjörtímabilinu til þess að hugsa til framtíðar. Hann hefur þurft að sinna brýnni verkefnum. Ráðherrar aðrir hafa þurft sífellda umönnun og gæslu. Nokkur tími hefur farið í tilsjón með samgrh. og sinna hefur þurft bankavandræðum. Íhuga þurfti forsetaframboð. Þá hefur forsrh. verið önnum kafinn við að ávíta lækna, fréttamenn, bankastjóra og okkur jafnaðarmenn sem og aðra sem hafa leyft sér að hafa aðra skoðun. Nei, virðulegi forseti, framtíðin hefur mátt bíða.

Hæstv. forsrh. gaf sér þó tíma í dag til þess að lýsa því yfir að ríkisstjórnin hefði á þessu kjörtímabili náð sögulegum árangri við stjórn efnahagsmála sem er um margt kostuleg staðhæfing. Auðvitað gleðst þjóðin og þar á meðal stjórnarandstaðan líkt og hæstv. forsrh. yfir því að kaupmáttur launa hafi farið hækkandi hjá mörgum undanfarin ár. Öll viljum við stöðugleika í verðlagsmálum. Líkt og hæstv. forsrh. gleðjumst við einnig öll yfir því að fjárfesting í landinu hafi aukist. En, virðulegi forseti, hverjum kemur til hugar að tilvist hæstv. forsrh. og ráðuneytis hans sé lykilatriði í því að náttúran hafi verið okkur hagfelld hvað varðar vöxt og viðgang ýmissa fiskstofna? Hvað þá að tilvist ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hafi eitthvað með það að gera að erlend stórfyrirtæki hafi á undanförnum árum fjárfest eins og raun ber vitni? Enn síður hvarflar það að nokkrum manni að þau Íslandsmet sem ríkisstjórnin hefur sett á hverju ári í framúrkeyrslu á fjárlögum séu forsendur þess að stöðugleiki haldist í verðlagsmálum.

Virðulegi forseti. Efni ræðu hæstv. forsrh. og efnistök minntu mig um margt á kvikmynd sem sýnd var í kvikmyndahúsum fyrir nokkrum árum og fjallaði um skáldsagnapersónuna Forrest Gump. Forrest þessi Gump var þeim eiginleikum gæddur að vera jafnan réttur maður á réttum stað á réttum tíma. Það var ekki vegna hygginda hans heldur fylgdi manni þessum mikið glópalán. Það er eins og með ríkisstjórnina. En á hinn bóginn verðum við að muna að sagan af Forrest Gump er skáldsaga. Nú ræðum við raunveruleikann.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin getur ekki haldið áfram á sömu braut með lukkuna eina að vopni. Ríkisstjórnin verður að fara að vinna sína heimavinnu ef ekki á illa að fara. Í þessu sambandi er hins vegar athyglisvert að velta því fyrir sér hvers vegna fyrirhyggjuleysi ríkisstjórnarinnar í fjármálum hafi ekki valdið meira tjóni í efnahagslífinu en raun ber vitni. Í þeim efnum er fyrst og fremst að líta til lögfestingar EES-samningsins og setningu samkeppnislaga í tíð síðustu ríkisstjórnar undir forustu Alþfl. Þetta hefur gerbreytt öllu viðskiptaumhverfi hér á landi. Tryggt hefur verið aukið frjálsræði í innflutningi og komið hefur verið á virkri samkeppni. Það samkeppnisumhverfi er ástæða þess að framleiðendur og verslanir hafa veigrað sér við því að velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið af ótta við að fólk snúi sér til annarra sem geta framleitt og selt ódýrara.

Virðulegi forseti. Það er því fyrst og fremst það samkeppnisumhverfi sem nú ríkir sem á stærstan þátt í því að verðlag á nauðsynjavörum hefur ekki hækkað mikið undanfarin ár. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki lagt þung lóð á þær vogarskálar. Það eru vægast sagt öfugmæli þegar fulltrúar þeirra flokka sem ýmist lögðust alfarið gegn samningnum um EES á sínum tíma eða voru honum andsnúnir í upphafi ætla nú að reyna eigna sér þann árangur sem samningurinn hefur skilað íslensku þjóðfélagi.

Virðulegi forseti. Fyrir utan þá glansmynd sem hæstv. forsrh. reyndi að draga upp af efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar þá vakti það ekki síður athygli þeirra sem á hlýddu að varla var minnst einu orði á það hvort og þá hvernig ríkisstjórnin hygðist taka á þeim vanda sem stjórnkerfi landbúnaðar og sjávarútvegs er að skapa varðandi byggðaþróun í landinu.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar hafa allir spádómar um framgöngu ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu gengið eftir. Stjórn hennar hefur mótast af því að hagsmunum hinna fáu er hampað á kostnað hinna mörgu. Þessi ríkisstjórn sem nú situr hefur fært okkur hinum heim sanninn um það að ef takast á að breyta þessu samfélagi þjóðinni allri til heilla er nauðsynlegt að í vetur takist að skapa það afl sem jafnaðarmenn eiga að vera í íslenskum stjórnmálum, afl sem er þess umkomið að koma í veg fyrir að kolkrabbinn og aðrir fylgifiskar hans haldi áfram sem hingað til að soga til sín lífsgæðin frá almenningi.

Góðir Íslendingar. Nú liggur mikið við. --- Góðar stundir.