Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 22:14:39 (28)

1998-10-01 22:14:39# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[22:14]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Setning Alþingis er ávallt hátíðleg stund en í dag liggur eitthvað meira í loftinu en vanalega. Fram undan er síðasta þing fyrir kosningar á umbrotatímum í íslenskri pólitík. Það verða síðustu kosningar aldarinnar en aldamótin kalla á að litið sé bæði yfir farinn veg og skyggnst inn til nýrrar aldar.

Það var athyglisvert að heyra franskan fræðimann rökstyðja á dögunum að aðstæður í heiminum nú væru að mörgu leyti líkari aðstæðum um síðustu aldamót en um miðja þessa öld. Þar átti hann ekki síst við bjartsýni um framfarir á sviði tækni og vísinda og ráðandi trú á gildi markaðskerfis og lýðræðis. Alþjóðavæðingin í tækni og vísindum og viðskiptum hefur aukið framleiðni og kallar á færanlegt vinnuafl. Afleiðingarnar koma fram í félagslegu losi og grundvallarstofnanir eru að veikjast hvort sem litið er til þjóðríkisins, fjölskyldunnar eða verkalýðsfélaga.

En það er ekki eingöngu á alþjóðavettvangi sem markaðslögmálum er beitt til að efla arðsemi og gróða fárra og stórra á kostnað fjöldans, umhverfisins og félagslegrar samheldni. Lítum okkur nær, á störf núverandi ríkisstjórnar.

Í vikunni sem leið ávarpaði hæstv. utanrrh. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Þar óskaði hann eftir skilningi á því að Íslendingar fái að menga meira og breiddi síðan út fagnaðarerindið um ágæti íslenska kvótakerfisins. Réttilega varaði hæstv. ráðherra við ríkisstyrkjum í sjávarútvegi vegna hættu á ofveiði. En hvers vegna sleppti hæstv. ráðherra að segja frá því að þetta kerfi sé að valda félagslegri uppreisn á Íslandi þar sem þjóðin situr uppi með þá tilfinningu að hún hafi verið hlunnfarin, að sameiginleg auðlind íslensku þjóðarinnar hafi verið fengin fámennum hópi manna með lögum frá Alþingi?

Þó að kvótakerfið hafi að mörgu leyti reynst vel sem stjórntæki eru hliðarverkanirnar svo alvarlegar að líkja má við félagslegt og siðfræðilegt stórslys með ófyrirséðum afleiðingum. Lénskerfi miðalda er endurfætt og heilu byggðarlögin eru að liðast í sundur með tilheyrandi ójöfnuði, óánægju og reiði. Er með réttu hægt að segja að hér tíðkist ekki ríkisstyrkir í sjávarútvegi þegar nýleg þorskkvótaaukning upp á 32 þúsund tonn, að söluverðmæti 25 milljarðar, var afhent útgerðarmönnum endurgjaldslaust samkvæmt lögum? Þeir geta síðan braskað með þessi verðmæti að vild, bæði leigt og selt.

Hver er stóri sannleikurinn í þessu máli? Ég vil síðan bæta við að ég vissi ekki að það tíðkaðist að bulla í ræðustóli Alþingis en það var fyrsta hugsun mín áðan þegar ég hlustaði á hæstv. sjútvrh. og tölurnar sem hann nefndi í sambandi við veiðileyfagjald sem eru gersamlega úr lausu lofti gripnar.

Það eru sömu meginsjónarmiðin sem hafa verið að verki alþjóðlega og hér á landi, óheft markaðshyggja og gróðasjónarmið á kostnað félagslegrar samheldni byggðarlaga og fjölskyldna. Við þessar aðstæður verður að stöðva öfgakenndar hægri stjórnir eins og þá sem hér er við völd sem stuðlar að vaxandi ójöfnuði. Ástandið kallar á stjórnvöld sem átta sig á nauðsyn þess að tryggja sem mest jafnrétti þegnanna og viðurkenna sérstöðu viðkvæmrar náttúru og ýmissa hópa hvort sem þeir eru skilgreindir út frá kynferði, aldri, búsetu, kynhneigð, heilsufarsástandi eða atvinnuþátttöku. Það hefur verið viðfangsefni Blairs, Jospins og jafnaðarmanna á Norðurlöndum og það verður viðfangsefni Schröders og það er stóra verkefnið sem blasir við hér á landi við upphaf nýrrar aldar.

Þó að öfgahópar til hægri og vinstri séu víðast hvar til virðist ástand heimsmála kalla til ábyrgðar stjórnmálaöfl sem búa samtímis í haginn fyrir frjáls viðskipti, öflugt atvinnulíf og virðingu fyrir umhverfinu og vinna markvisst að félagslegu réttlæti og jafnrétti þegnanna.

Herra forseti. Margt bendir til að slíkt afl sé í burðarliðnum hér á landi, loksins. Afl sem ýtir undir sjálfstæði þegnanna, hvort sem þeir eru konur eða karlar, ungir foreldrar, aldraðir eða öryrkjar. Afl sem er fært um að gera fólk hæfara til atvinnu með bættri menntun og endurhæfingu, fært um að styðja við frumkvöðla á sviði hugvits og nýrrar tækni, afl sem er bæði í sátt við verkalýðshreyfinguna og framsýn sjónarmið í atvinnu- og menntamálum. Samfylking Kvennalista, Alþfl. og Alþb. er í augsýn og nýbirt málefnaskráin bendir ótvírætt til að takast eigi á við þessi mál markvisst.

Mér kom ekki á óvart að hæstv. forsrh. brást við málefnaskrá samfylkingarinnar eins og öðru mótlæti með geðvonsku og hroka. Furðulegri voru tilburðir hæstv. utanrrh. við að búa til grýlu úr texta málefnaskrárinnar um utanríkismál sem um flest er samhljóma stefnu núverandi ríkisstjórnar. Hæstv. ráðherrar hafa áhyggjur af kostnaði þó að ný könnun sýni ótvírætt að Íslendingar vilji stórbæta bæði velferðar- og menntakerfið og séu andvígir þjónustugjöldum í heilsugæslunni. Til að koma menntakerfi okkar á sama plan og tíðkast í nágrannalöndunum þarf 2,5 milljarða á ári í fjögur ár. Hvað er það í samanburði við 25 milljarða gjöf til útgerðarmanna í ár og þá tel ég eingöngu viðbótarkvótann á þessu ári? Allt er þetta spurning um forgangsröð, hvað hlutirnir eru kallaðir og hverjum er hyglað á kostnað hvers.

Í stefnuræðu hæstv. forsrh. má greina hræðslu og pirring og vonda samvisku en þar er m.a. sett fram sú hugmynd til að þjóðin njóti afraksturs fiskstofnanna að gera hana alla að útgerðarmönnum. Athyglisverð hugmynd sem ég tel fyllilega þess virði að þróa áfram en núverandi ástandi verður að breyta því um það mun aldrei ríkja sátt. Þar er brýnast að taka á málefnum smábáta á grunnslóð.

Herra forseti. Ég mun koma nánar að þessum málum og stöðu Kvennalistans í seinni ræðu minni undir lok umræðunnar.