Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 22:22:36 (29)

1998-10-01 22:22:36# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, GHall
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[22:22]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í upphafi ræðu sinnar í dag gat forsrh. þess að atvinnuleysi hefði minnkað jafnt og þétt á þessu kjörtímabili og væri með því minnsta sem þekktist um víða veröld. Kaupmáttaraukning milli áranna 1996--1998 væri rúm 17% en í viðmiðunarlöndum aðeins 4,5% sem þar ytra þætti gott. ASÍ og VSÍ hafa sameiginlega fylgst með þróun þessara mála og falla niðurstöður þeirrar athugunar að sömu staðreyndum og hér var getið. Stjórnarandstaðan tekur þessar staðreyndir sem uppákomu er gerist af sjálfu sér. Hér eigi ríkisstjórnin ekki hlut að máli. UNESCO setur Ísland í fimmta sæti yfir þau ríki heims þar sem góðæri íbúa er mest. Stjórnarandstæðingar koma fram í fjölmiðlum og segja að þær staðreyndir sem við blasi í efnahagsmálum ali á andvaraleysi meðal almennings. Slíkar fullyrðingar eru út í hött. Þvert á móti hefur aukinn stöðugleiki í efnahagslífinu fært fólk nær eðlilegu verðskyni á vöru og þjónustu sem hefur leitt til eðlilegrar samkeppni. Enn blasir sú staðreynd við að yfir 50% heildarútflutningsverðmætis Íslendinga eru sjávarafurðir og hefur svo verið um tveggja áratuga skeið. Það hlýtur hins vegar að vera nokkurt áhyggjuefni varðandi fiskvinnsluna að á sama tíma og 650 útlendingar starfa þar, eða um 10% alls mannafla fiskvinnslunnar, skuli um 2,5% vinnufærra manna vera á atvinnuleysisskrá. Sjávarútvegur verður næstu áratugi burðarás í efnahags- og atvinnulífi Íslendinga og á meðan í þá auðlind okkar verður ekki sótt takmarkalaust verða deilur uppi meðal þjóðarinnar innan og utan sjávarútvegsins og hér á Alþingi sem ganga þvert á öll pólitísk flokksbönd.

Á sama tíma og tekist er á um allt það er snýr að kvótamálum og stjórn fiskveiða berast þær fregnir utan úr heimi að Íslendingar séu öðrum þjóðum fremri í aðgengi og nýtingu auðlindarinnar í hafinu umhverfis landið.

Það er hins vegar athyglisvert að ekki skuli koma upp í umræðunni það ójafnvægi sem í hafinu ríkir vegna friðunar hvalastofnsins.

Eitt alvarlegasta deilumál milli sjómanna og útvegsmanna hefur verið verðmyndun á fiski enda ráðast laun fiskimanna að meginhluta til af fiskverðinu. Með lagasetningu fyrr á árinu um Verðlagsstofu skiptaverðs og Kvótaþing eru vonir bundnar við að deilum aðila í milli linni hvað þetta mál varðar. Enn er tekist á um veiðileyfagjald eða auðlindaskatt af sjávarútveginum og hefur stjórnarandstaðan boðað afnám tekjuskatts nái málið fram að ganga. Fyrst og fremst mundi slík skattheimta bitna á sjómönnum, launafólki fiskvinnslunnar og fyrirtækjum í sjávarútvegi. Að gefnu tilefni sem hér kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni væri ég sem Reykvíkingur ósáttur við auðlindaskatt á notkun heita vatnsins af því að fyrirrennarar okkar báru gæfu til þess að nýta þessa auðlind til hitaveitu og sáu þá langt fram á veginn.

Vonir eru bundnar við þverpólitíska auðlindanefnd, sem Alþingi kaus, til að skoða þessi mál frá öllum sjónarhornum. Megi þessari nefnd auðnast að leggja sitt af mörkum svo sæmileg sátt náist meðal þjóðarinnar í máli þessu.

Talandi um sjávarútveg get ég ekki látið hjá líða að tala um siglingar. Aðeins þrjú kaupskip sigla nú undir íslenskum þjóðfána af um 30 kaupskipum sem eru í siglingum að og frá landinu. Bæta þarf rekstrarumhverfi íslenskrar kaupskipaútgerðar. Málið er í umræðu innan ríkisstjórnarinnar og má vænta að þar verði ákvörðun tekin innan skamms um lagasetningu sem leiði til fjölgunar íslenskra kaupskipa sem og farmanna.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að meðalævi Íslendinga hefur lengst stöðugt samfara miklum framförum í læknisfræðinni er nauðsyn á stefnumarkandi aðgerðum í málefnum aldraðra sem og öryrkja til framtíðar litið. Ber þá að hafa í huga þjónustuþætti sem lúta að umönnun þegar þrek til sjálfshjálpar þrýtur, samspil bóta Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og skattalegrar meðferðar þessara greiðslna. Um 200 aldraðir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið metnir í brýnni þörf fyrir dvöl á hjúkrunarheimilum. Vænti ég þess að ríkisstjórnin taki skjótt og vel á þessum málum.

Miklar umræður hafa verið, og eiga að sjálfsögðu að vera, um menntakerfi okkar Íslendinga. Okkur ber skylda til að byggja upp góða kennarastétt sem skilar sér í betri menntun nemenda og í dag skara Íslendingar fram úr á ýmsum sviðum, m.a. í tækni og vísindum. Ríkisstjórnin hefur boðað nýja skólastefnu, bætta og betri stefnu verkmenntunar og er það vel. Það er hins vegar umhugsunarefni að um 60% ungmenna leita í háskólanám og um 40% í verklegar námsgreinar, öfugt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

Virðulegi forseti. Stjórnarandstæðingar hafa í kvöld talið ríkisstjórnarflokkunum allt til foráttu. Hvergi sé í tauma tekið í þjóðlífinu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Allt það sem jákvætt sé hér að gerast sé fyrir tilstuðlan utanaðkomandi áhrifa. Ekki verður lítið gert úr hlut verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda með samningum á undanförnum árum með kaupmáttaraukningu að leiðarljósi.

En ekkert gerist af sjálfu sér og það vita Íslendingar. Með aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum og niðurgreiðslu erlendra skulda er stuðlað að bættum hag almennings og betra búi skilað til upprennandi æsku þessa lands sem erfa munu landið. --- Ég þakka þeim er á hlýddu.